20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4675 í B-deild Alþingistíðinda. (4837)

313. mál, steinullarverksmiðja

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það getur varla talist mjög óeðlilegt þótt nm. í iðnn. Ed. segi álit sitt á þeim málum þremur sem iðnn. hefur verið að fjalla um upp á síðkastið.

Ég vil taka það fyrst fram, að ég er afskaplega ánægður og þakklátur formanni n. og reyndar líka öðrum nm. og þ. á m. þeim nm. sem eru stuðningsmenn núv. ríkisstj., hversu sem mönnum kann nú að þykja það hlutverk skemmtilegt, með hvaða hætti þetta mál hefur verið rætt og ítarlega kannað í iðnn., en fyrstu tilburðir að þeim vinnubrögðum voru miklu líkari því sem gerist undir því stjórnarfari þar sem menn þurfa ekki að hugsa sjálfir, þar sem menn geta látið aðra um að móta sínar skoðanir og afgreiða þær með litlum fyrirvara.

Það hefði út af fyrir sig verið mikill lærdómur, og ekki síst fyrir síðari tíma, ef fyrsti sameiginlegi fundur iðnaðarnefndanna beggja hefði verið kominn á kvikmyndafilmu. Þar var smalað inn sérfræðingum með ákveðnu millibili af formanni iðnn. Nd. og síðan tók formaður iðnn. Ed. við stjórninni og þarna átti að matreiða alla þessa miklu visku á sem allra stystum tíma, líklega helst einum degi. Það er mjög mikilvægt hvernig allir urðu þess brátt varir að það gat einungis orðið stuðningur fyrir þessi mál að um þau yrði ítarlega fjallað og öll aðsend bein eða óbein fyrirmæli um vinnubrögð í þessum málum, sem kannske út af fyrir sig eru ekki mjög stór, væru send til baka. Þessi málsmeðferð öll, eins og hún hefur verið unnin í iðnn., er hins vegar með þeim hætti að a. m. k. ég get með góðri samvisku og af fullri ábyrgð og sannfæringu staðið með afgreiðslu þessara mála eins og þau eru. Þau eru afgreidd með þeim hætti að þar hafa allir fletir verið skýrðir og um þá hefur verið fjallað sem öskað og leitað hefur verið eftir. Þetta tel ég vera mjög trúverðug vinnubrögð sem reyndar ættu að liggja alls staðar til grundvallar í störfum Alþingis. Mér er alveg sama hvað um mig er sagt eða verður sagt í sambandi við drátt á öðrum málum. Það er vitanlega ekki hægt að vinna eða afgreiða mál með öðrum hætti en þeim, að menn hafi sæmilega sannfæringu fyrir þeim og sérstaklega þar sem um er að ræða ný mál, sem ekki hafa verið rædd og skýrð að neinu marki áður, og þá ekki síst þegar þau berast að á síðustu dögum þingsins, þegar lítill tími er orðinn til starfa og málatilbúnaður allur farinn að verða lausari í böndunum en við þær kringumstæður þegar tími er nægur fyrir hendi.

Ég vil hins vegar segja að það mál, sem sérstaklega er fjallað um hér, finnst mér á vissan hátt helst orka tvímælis, en eins og það hefur verið skýrt hér og er að sjálfsögðu alveg hárrétt, bæði af frsm. og öðrum nm., er með þeim fyrirvara, sem þar eru inn settir, sem ég dreg raunar ekki í efa að verði fylgt, að sjálfsögðu auðvelt að fylgja málinu. Ég ætla þó alveg sérstaklega að undirstrika þar eitt atriði sem reyndar kemur fram í bráðabirgðaákvæði tillagna okkar og ekki er ágreiningur um. Þar er lögð áhersla á að markaður sé tryggður fyrir þessa framleiðslu. Á vissan hátt hefur steinullarframleiðslan að því leyti sérstöðu, að þar eru markaðir ótryggari en varðandi aðrar verksmiðjur sem við höfum verið að fjalla um. Og ég ætla ekkert að dylja þá skoðun mína, að ef hér hefði verið fyrst og fremst eða einvörðungu fjallað um steinullarframleiðslu til útflutnings hefði ég haft meiri og stærri fyrirvara í þessu máli, ef ég hefði þá ekki orðið á móti því sem slíku.