20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4677 í B-deild Alþingistíðinda. (4839)

313. mál, steinullarverksmiðja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja umr. um steinullarverksmiðjuna svo mjög. Ég vil aðeins taka undir gagnrýni sem fram hefur komið á þeim vinnubrögðum að leggja fram á síðustu dögum þingsins þrjú meiri háttar frumvörp að heimildarlögum um stofnun verksmiðju af því tagi sem hér um ræðir að forgöngu og með eignaraðild ríkisins. Ég gef alls ekki í skyn að hæstv. iðnrh. hafi með þessum hætti verið að gera tilraun til að leika Alþingi grátt eða þá deild þar sem þessi frv. voru lögð fram, síður en svo. En ég tel það mjög óheppilegt að þinginu skuli ekki gefast nægur tími til að fjalla um frv. af þessu tagi, og svona innra með mér finnst mér ég heyra óm af þeirri gagnrýni sem ég kynni nú að hafa borið fram á ráðh. sem slíkt gerði ef ég hefði verið í stjórnarandstöðu.

Hér er um að ræða mál sem sérfræðingar og embættismenn hafa fjallað um jafnvel árum saman. Það verður að segja eins og er, að mér hefði þótt mjög æskilegt að iðnn. Ed., þar sem fyrst er fjallað um þessi mál, hefði haft mun rýmri tíma en henni gafst til að kynna sér málið, til að yfirheyra sérfræðingana sem að samningu þessara frv. stóðu, sem sömdu þær skýrslur sem liggja þar til grundvallar. Og hvorki lái ég hv. þm. Agli Jónssyni né hv. þm. Kjartani Jóhannssyni þótt þeir dræpu á þetta atriði.

Ég mun hafa átt uppástungu að því við formann iðnn. Ed., hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, að við reyndum að halda þegar í upphafi sameiginlega fundi iðnn. Ed. og Nd. um þessi frv. í því skyni að sem best mætti nýtast tími. Á þau ráð hefur áður verið brugðið að haga svo málum. En það var sannarlega ekki ætlun mín að látið yrði við það sitja að stefna hinni fríðu og vösku sveit sérfræðinga inn á sameiginlegan fund beggja iðnn., þar sem fjallað yrði um öll þessi frv. samtímis, og síðan látið við það sitja. Hafi hv. þm. Egill Jónsson með einhverjum hætti fengið það á tilfinninguna að hér væri um að ræða austræn vinnubrögð við undirbúning lagagerðar bið ég hann um að trúa mér nú endilega þegar ég segi honum að svo var ekki.

Hv. þm. kvað svo að orði að honum væri alveg sama hvað um hann væri sagt. (EgJ: Í sambandi við aðra málaafgreiðslu.) Það tók hv. þm. ekki fram. Þá vil ég segja í sambandi við afgreiðslu þessa máls og annarra þeirra mála sem að þessum verksmiðjum lúta og umfjöllun þeirra í iðnn. Ed., að ég get ekkert um hann sagt nema hið allra besta. Ég bjóst ekki við að hann mundi vikna af þessum ummælum mínum, en gerði mér jafnvel von um að ég mundi heyra þennan ánægjuskrík sem hann rak upp hér að baki mér því að þetta er alveg dagsanna. Hvað eina það, sem hv. þm. Egill Jónsson lagði til málanna í iðnn., skipti mjög miklu um góða afgreiðslu málsins og spurningar hans leiddu til upplýsinga sem höfðu verulega þýðingu þar.

Ég var orðinn hræddur um það um tíma að svo mikið yrði rætt um Sauðárkrók í sömu andránni og steinull að hv. dm., sem ekki hefðu lesið frv. því ítarlegar, kæmust á þá skoðun, að hér væri um að ræða steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Raunar undraðist ég umburðarlyndi og víðsýni þeirra þm. Suðurl. sem hér sitja inni, að þeir skyldu ekki gjalda líku líkt og reyna að kæfa nafn Sauðárkróks í þessu sambandi og tala þeim mun meira um Þorlákshöfn. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því, að í frv., sem hér um ræðir, er alls ekki fjallað um staðsetningu verksmiðjunnar. Við gerum þessu máli engan greiða með því að hefja umr. um staðsetningu verksmiðjunnar á þessu stigi málsins. Það gerði náttúrlega hv. þm. Stefán Guðmundsson öllum öðrum mönnum fremur. Hann nefndi Sauðárkrók hvorki meira né minna en 18 sinnum í mjög skammri ræðu sinni áðan í tengslum við steinullarverksmiðju. Aftur á móti vil ég vekja athygli á því, að hv. þm. Jón Helgason nefndi ekki Þorlákshöfn í nýaflokinni ræðu sinni.

Af hálfu iðnn. Ed er lagt til að samþykkt frv. verði skilyrt með þeim hætti að ljóst sé að hagkvæmni, þ. á m. hagkvæmar markaðsforsendur og lánsfjártryggingar, ráði mestu um hvar þessi verksmiðja verði sett niður. Hygg ég að ráðh. eða rn., sem um þetta fjallar, hljóti að fjalla um málið í ljósi þeirra skilyrða, eins og um hnútana er nú búið.

Ég vil ekki leggja neinn dóm á hvort æskilegt sé að Sauðkræklingum fjölgi vegna steinullar um 300 eða Þorlákshafnarbúum um 190. Hér er vissulega um að ræða byggðamál. En ég er ekki alveg viss um að hv. þm. Stefán Guðmundsson eigi lengri veg að aka til Reykjavíkur en hv. þm. Jón Helgason í Seglbúðum, og geta menn dregið nokkrar ályktanir — af þeirri vegamælingu — um það, hvort með öllu sé sanngjarnt að tala um Suðurland allt að því í heild sem einhvers konar úthverfi frá Reykjavík. Þetta yrði byggðamál á hvorum staðnum sem það yrði. En þó ég játi, að við umræður um þetta mál við sérfræðinga og tilkvadda menn þótti mér einhvern veginn öll vötn hníga til Skagafjarðar héðan af stór-Reykjavíkursvæðinu, vil ég ítreka að við hljótum að treysta því, að hin efnahagslegu sjónarmið og afkomusjónarmiðin ráði úrslitum um staðsetningu þessarar verksmiðju þegar þar að kemur.