20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4680 í B-deild Alþingistíðinda. (4844)

139. mál, söluskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara.

Það koma ávallt fram margbreytilegar tillögur hér á Alþingi um að fella niður söluskatt af ýmiss konar þjónustu og framleiðslu. Slík braut er mjög varhugaverð ef langt er á henni gengið, þar eð slíkt getur framkallað töluvert mikið misrétti í þjóðfélagi okkar og mismunandi aðstöðu gagnvart einstökum greinum.

Vissulega er æskilegt að stuðla að tæknivæðingu í sjávarútvegi, eins og gert er með þessu frv. Hins vegar má spyrja að því, hvers vegna ekki eigi að beita sams konar aðferðum gagnvart öðrum framleiðslugreinum hér á landi. Þá vaknar sú spurning, hvort sá tekjumissir, sem hið opinbera verður fyrir vegna slíkra breytinga, réttlæti þann ávinning sem framleiðslugreinarnar öðlast. Mér finnst hins vegar ekki ástæða til að gera ágreining um þetta mál hér og tel að það megi skoða þetta sem tilraun til að efla ákveðinn þátt í sjávarútvegi og tækniþróun hans, en hins vegar þurfi að huga vel að, hvort slíkum aðferðum eigi að beita í framtíðinni, og það hljóti að koma til álita í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af framkvæmd þessa frv.

Ég vil hins vegar vekja athygli þeirra, sem að þessu standa, á því, að ýmsir forsvarsmenn iðnaðarins hér í landinu hafa ávallt verið að flytja okkur ýmiss konar tölur um að íslenskum iðnaði væri mismunað. Þótt það sé vissulega rétt, sem fram kom hjá talsmanni n. áðan, að ákveðinn þáttur þessa máls gæti verið lyftistöng fyrir tiltekna grein iðnaðarins, má segja að frv. geti einnig falið í sér mismunun gagnvart öðrum greinum framleiðsluiðnaðarins. Það er m. a. sá þáttur í framkvæmdinni sem ég held að sé nauðsynlegt að menn hugi að, en styð hins vegar, að þessi tilraun verði gerð, og mæli með því að frv. verði samþykkt.