20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (4847)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er merkur áfangi í réttindabaráttu verkafólks — baráttu fyrir því að njóta öryggis þegar þröngt er um vinnu.

Saga Atvinnuleysistryggingasjóðs hefst 1955, við samningagerð þá, og hann verður að veruleika 1956. Síðan hafa átt sér stað miklar breytingar í þjóðfélaginu og brýn nauðsyn hefur verið á að breyta ýmsum ákvæðum í lögum um sjóðinn, en verkefni sjóðsins hefur ekki aðeins verið að hjálpa fólki, sem misst hefur atvinnuna, heldur einnig að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Sjóðurinn hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki einmitt á þann máta og komið víða í veg fyrir atvinnuleysi með því að styrkja atvinnufyrirtæki, sem staðið hafa á brauðfótum, og koma þeim til betri vegar.

Sjóðurinn var mjög sterkur fyrstu árin og alveg þar til tekið var upp á því að greiða fæðingarorlof úr sjóðnum, en síðan hefur hann orðið sífellt veikari og óburðugri til að þjóna því hlutverki sem honum var ætlað. Mér er sagt að komi atvinnuleysi svipað því, sem nú er í Danmörku, mundi sjóðurinn duga í 2–3 mánuði og síðan ekki söguna meir. Það er verið að leggja hvers kyns byrðar á sjóðinn og byrðar sem eru honum óviðkomandi. Síðast var það í nýliðinni viku að samþykktar voru nýjar byrðar á sjóðinn. Að vísu var af honum létt að greiða fæðingarorlofið, en þær byrðar, sem á hann voru lagðar í staðinn, voru næstum því jafnháar.

Eitt af því, sem rýrt hefur sjóðinn, er verðbólgan sem auðvitað hefur komið niður á þessum sjóði eins og öðrum, og á það sinn þátt í því að hann er ekki burðugri en fyrir liggur. Það fé, sem til hans rennur, hefur verið 1% af ákveðnum taxta, upphaflega var þá miðað við fiskvinnslukaup, og þetta 1% hefur verið innheimt árinu eftir að tekjurnar verða til og því rýrnar féð mjög í meðförum einmitt vegna verðbólgunnar sem aldrei hefur verið æðisgengnari en síðustu árin eða áratuginn.

Í þeim kjarasamningum, sem síðast áttu sér stað og gengið var frá 26. okt. s. l., var um það samið, að það frv., sem hér liggur fyrir, yrði lagt fram. Það hefur að geyma þýðingarmiklar úrbætur, eins og ég nefndi áðan, og fagna ég því mjög að þær komast í framkvæmd alveg á næstunni. Að vísu höfðum við, sem stóðum í samningagerðinni, samið við ríkisvaldið um að þessar breytingar tækju gildi þá þegar er lögin yrðu samþykkt, en í þeim nefndum þingsins, sem um þessi mál fjölluðu, var uppi vilji fyrir því að láta þessar breytingar ekki taka gildi fyrr en um áramót. Síðan var því þokað til þannig að nú eiga þessar breytingar að taka gildi 1. júlí. Það kemur sér mjög vel fyrir þá fjölmörgu sem verða atvinnulausir í sumar. Því miður er tímabundið atvinnuleysi víða. Ég á von á að fjölmargir verði atvinnulausir einmitt í sumar — og þá tala ég ekki síst um konur sem yfirleitt lenda verst í atvinnuleysinu.

Þegar gengið var frá frv. var okkur heitið því í samninganefnd Alþýðusambands Íslands að gjöld í sjóðinn yrðu greidd samkv. 8. taxta efsta starfsaldursþrepi, og vorum við nokkuð ánægðir með það. Við gerðum að vísu kröfu til þess að gjaldið yrði verðtryggt og greitt samhliða kaupi. Það fékkst ekki fram, en aftur á móti fékkst sú breyting fram, að greitt yrði samkv. hæsta þrepi fiskvinnslutaxtans. Töldum við það vera í réttu hlutfalli við það sem gengið var frá í upphafi þegar um sjóðinn var samið.

Það er nú reyndar svo, að þegar frv. var lagt fram af félmrh. gerði hann einmitt ráð fyrir að staðið yrði við þetta loforð, en í meðförum nefnda þingsins hefur þessu verið breytt samkv. kröfu Vinnuveitendasambands Íslands. Það kom upp þar að ríkisstj. eða félmrh. hafði selt atvinnurekendum það sama og okkur. — Nei, það má kannske orða það öðruvísi. Hann hafði sagt atvinnurekendum að gjaldið skyldi óbreytt, en tekið ríkt fram við okkur að þetta yrði 1% af fiskvinnslutaxta. Við trúðum því vissulega. Þarna stönguðust á yfirlýsingar og er það eitt dæmi um hversu óhöndulega ráðherrar í ríkisstj. vinna. Það er að vísu annað mál í gangi sem fram kemur í Nd. Það fjallar um kjarasamninga BSRB og ríkisins. Þar kemur fram að fjmrh. hefur selt báðum þessum stéttarsamtökum sama landið, eins og kallað er, en á undanförnum árum hefur átt sér stað allmikil deila milli þessara stóru og sterku stéttasamtaka um hverjir skuli semja fyrir hvern, og hefur þessi skringilega afstaða ráðh. verkað eins og þegar olíu er hellt á eld. En það verður um það rætt í Nd. hvernig með þau mál verður farið.

Ég flyt hér aðeins eina brtt. við frv. þótt vissulega væri þarna ástæða til að flytja fleiri brtt., einkum varðandi gildistökutímann. Brtt., er ég flyt, er við 1. málslið 1. mgr. 10. gr. frv. og orðast svo:

„Atvinnurekandi skal greiða iðgjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs er sé 1% af útborguðu vikukaupi fyrir dagvinnu samkv. 8. launaflokki A. Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi, vegna hverrar vinnuviku, sem starfsmaður vinnur í þjónustu hans.“

Ég ber þetta fram vegna þess að ég tel að með greininni, eins og hún er orðin, sé verið að svíkjast aftan að verkalýðssamtökunum. Það getum við í Alþfl. og verkalýðshreyfingin ekki sætt okkur við. Við erum þeirrar skoðunar að standa eigi við gerða samninga og ekki fara aftan að stéttasamtökunum, eins og gert hefur verið í þessu máli og öðrum.

Það kom fram í máli félmrh. hér, er hann mælti fyrir þessu frv., að hann taldi að upphaflega hefði verið samið um það sem fram kemur í upphaflega frv., eins og hann lagði það fyrir, en hann kvartaði undan þrýstingi frá Vinnuveitendasambandinu og lauk svo umfjöllun um þetta mál með því að segja að það yrði að sækja þetta mál í næstu kjarasamningum. Þannig er verið að blekkja verkalýðssamtökin til samninga um ákveðna hluti og síðan er mönnum otað til að semja um þetta í næstu samningum. Það er vissulega óviðunandi því að ef svona verður farið að er engum að treysta. Svo er ætíð þegar samningar halda ekki. Ég skora því á hv. dm. að samþykkja fram komna brtt. mína. Samþykkt hennar verður ekki aðeins til að efna þau loforð, sem ríkisstj. hafði gefið, heldur og til þess að styrkja Atvinnuleysistryggingasjóð, gera hann færari til að sinna hlutverki sínu bæði hvað varðar atvinnuleysisbætur og að styrkja fyrirtæki sem eiga erfitt uppdráttar þessa stundina.

Ég tel rétt að upplýsa að á síðasta fundi Framkvæmdastofnunar kom einmitt bréf frá skóverksmiðjunni á Akureyri eða Sambandinu þar sem óskað var eftir sérstökum styrk til að endurnýja starfsemina. Sú starfsemi er í mikilli hættu. Það liggur fyrir að verksmiðjan verður lögð niður ef ekki verða gerðar mjög verulegar endurbætur á henni og jafnframt því missa tugir manna atvinnuna. Það kom fram þar, að þeir hygðust sækja um lán hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og óskuðu einnig eftir láni, jafnvel styrk, frá Byggðasjóði til þessa verkefnis. Það lá fyrir tillaga um að synja þessu erindi, en síðan var því til vegar komið, að þessu erindi var frestað. Það var samróma álit stjórnarmanna Byggðasjóðs að þetta væri einmitt hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs: að hjálpa til þar sem erfiðleikar væru fyrir og tryggja að þeir tugir manna, sem eru háðir þessari atvinnu á Akureyri, missi ekki vinnuna. Ég tel að ef við samþykkjum þessa grein getum við hjálpað til við að þessu fyrirtæki verði hjálpað og fleiri fyrirtækjum sem nú standa á brauðfótum eins og vissulega hefur mjög komið fram í umfjöllun Byggðasjóðs um vandamál atvinnulífsins, en þar hefur komið fram að mjög mikil vá er fyrir dyrum og atvinnuleysi yfirvofandi ef ekki verða gerðar róttækar breytingar.