20.05.1981
Efri deild: 113. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4687 í B-deild Alþingistíðinda. (4875)

270. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Í meðferð þessarar deildar á frv. kom fram það sjónarmið, að e. t. v. væri of sterkt að orði kveðið í frv. með því að gefa heitið „námsskrá“ þeirri athugun sem lagt er til að fram fari á starfsháttum, markmiðum og leiðum í dagvistarstofnunum. Nefndin hefur því orðið sammála um að leggja til að orðinu „námsskrá“ verði breytt í starfsáætlun því að það gefi raunsannari mynd af því sem verið er að leggja til.

Hugsunin er sú, bæði í frv. og þessari brtt., að fyrir liggi einhvers konar lýsing á því, hvers konar starf eigi að fara fram í þeim stofnunum þar sem um 20 þús. börn eða rúmlega það hér á landi eru daglega í gæslu. Nauðsynlegt sé að starfsfólk þessara stofnana hafi ákveðna mynd af því, hvers konar markmiðum því er ætlað að þjóna með leiðbeiningum sínum og umönnun með börnunum. Þess vegna leggjum við til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem við flytjum í nál., að í stað orðsins „námsskrá“ komi: starfsáætlun.