20.05.1981
Efri deild: 113. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4688 í B-deild Alþingistíðinda. (4878)

293. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Málum er svo háttað, að þegar vara er flutt t. d. frá Reykjavík út á landsbyggðina leggst að sjálfsögðu á hana flutningskostnaður en á þann flutningskostnað leggst söluskattur. Hvort tveggja leggst ofan á verð vörunnar kominnar á staðinn. Síðan kemur álagning og svo söluskattur aftur. Þannig er um að ræða tvöfalda söluskattsálagningu ofan á þann flutningskostnað, sem leggst á vöru, og gerir vöruna þeim mun dýrari. Þetta er mál sem ýmsir þm. af landsbyggðinni hafa haft áhuga á að leiðrétta, að ríkissjóður sé ekki að gera þessa vöru enn þá dýrari fyrir fólkið í dreifbýlinu með því að tvíleggja söluskatt á þann hluta af kostnaði vörunnar sem er flutningskostnaður. Þetta frv. gengur út á að leiðrétta þetta misrétti. Þetta er mjög einfalt mál og augljóst og þess vegna leggjum við til að frv. verði samþykkt.