11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

59. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við þrír þm., ég, hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttir, og hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, flytjum hér till. til þál. sem er svohljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að endurskoða lagareglur um aldurshámark starfsmanna ríkisins. Skal sú endurskoðun unnin í samráði við samtök ríkisstarfsmanna og markmið hennar vera það að kanna, hvort ekki sé rétt að hækka aldursmörk þau, sem nú er miðað við, gera reglurnar sveigjanlegri svo og að setja fastari reglur um möguleika eldri starfsmanna til að gegna hlutastörfum, ýmist á sínum gamla starfsvettvangi eða í öðrum stofnunum.“

Samhljóða till. var flutt á síðasta þingi, en hlaut ekki afgreiðslu. Fyrir henni var þá flutt ítarleg framsaga hér í Sþ., þannig að ég sé ekki ástæðu til að hafa um till. langt mál á þessu stigi.

Till. miðar að því að koma til móts við það félagslega vandamál sem það óneitanlega er fyrir margt fólk að þurfa nauðugt viljugt að hætta störfum við 70 ára aldur, jafnvel þótt kraftar og heilsa leyfi að áfram sé unnið.

Það er mat margra, sem þekkja vel til félagslegra og heilsufarslegra vandamála aldraðs fólks, að fátt sé mönnum þungbærara en að þurfa að hætta störfum við ofangreint aldursmark óháð heilsu og starfsgetu. Mörg einkafyrirtæki hafa fyrir löngu reynt að laga sig að þessu vandamáli og veita starfsmönnum sínum möguleika á að starfa á meðan heilsa og kraftar leyfa. Hjá hinu opinbera eru hins vegar mjög fastar og ákveðnar reglur um þetta, — reglur sem styðjast við ákveðin rök, en engu að síður ætti að vera unnt að gera reglurnar sveigjanlegri og mannlegri þannig að komið sé til móts við þarfir og óskir starfsmanna að þessu leyti.

Frá því að þessi till. var flutt á hinu háa Alþingi í fyrravetur hefur Reykjavíkurborg samþ. nýjar reglur um aldurshámark starfsmanna borgarinnar þar sem hámarksaldurinn er hækkaður nokkuð frá því sem var. Nú er hann samkv. hinum nýju reglum 71 ár í staðinn fyrir 70 og auk þess er allmikil sveigja í því, hvernig starfsmenn geta fengið að vinna eftir að þeim aldri lýkur, opnaður möguleiki fyrir því, að menn geti fengið hlutastarf allt til 74 ára aldurs og heils dags starf einnig, en fresta þá töku lífeyris úr lífeyrissjóði á meðan þeir vinna fullt starf.

Þessar tillögur, sem voru samþykktar í borgarráði Reykjavíkur 20. maí 1980, fylgja með þessari þáltill. sem sérstakt fylgiskjal.

Þegar till. var flutt hér á Alþ. á s.l. vetri var henni vísað til allshn. S.Þ. Nefndin leitaði umsagnar hjá allmörgum aðilum. Þeir, sem leitað var til, skiluðu allir jákvæðri umsögn sem liggur fyrir, en það voru Starfsmannafélag ríkisstofnana, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Alþýðusamband Íslands og fjmrn. Því ætti að vera tiltölulega auðvelt að fengnum þessum umsögnum að Alþ. samþ. till. eins og hún liggur hér fyrir nú.

Ég legg til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði till. vísað til allshn. Sþ.