20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4692 í B-deild Alþingistíðinda. (4891)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Augu áhugamanna um Alþingi, störf þess og starfshætti, bæði innan þingsala og utan þeirra, hafa í æ ríkari mæli beinst að því, hvernig þingstörf eru — ég leyfi mér að segja: með fáránlegum hætti hina síðustu daga á vori, rétt áður en Alþingi lýkur störfum sínum. Þetta kerfi, sem auðvitað er orðið býsna gamalt og miðað við allt aðra þjóðfélagshætti, er þannig upp byggt, að undir vor, þegar þingi er að ljúka, kemur hvert stórmálið á fætur öðru með litlum fyrirvara á borð þm. og það er nánast svo, að iðulega eru menn settir upp við vegg við það að taka mjög veigamiklar og oft dýrar ákvarðanir. Ég hygg að nákvæmlega þetta mál sé dæmi um hversu óskynsamlegir vinnuhættir hér á hinu háa Alþingi eru. Við borð lá að þetta stóra mál, sem vissulega hefur verið lengi í undirbúningi, árum og áratugum saman, færi í gegnum 1. umr. hv. Nd. að lokinni einnar mínútu framsöguræðu hæstv. iðnrh.

Nú er það svo með mál af þessu tagi, að þar tekst auðvitað á — væntanlega í huga allra þm. — annars vegar að vera sakaður um skort á áræði, að stökkva ekki og taka ákvörðun af því tagi sem hér er um að ræða, og hins vegar að flana ekki um of, að verða ekki sekur um fljótfærni, flan og hreina heimsku. Það er auðvitað svo að því er varðar hugmynd eins og þá sem hér er til umr., að spor eins og Kröflusporin hræða. Þá ákvörðun tók Alþingi shlj., eins og gert hefur verið í hv. Ed. um þetta frv., og einhverjir hafa áreiðanlega nagað sig seinna í handarbökin og óskað þess, að þau mál hefðu fengið aðeins betri athugun og lengri frest.

Hér er um að ræða fjárfestingu upp á milli 15 og 16 gamalla milljarða. Þetta mál hefur auðvitað verið lengi í undirbúningi og að því hafa unnið færustu sérfræðingar. Ber þar helst að nefna Baldur Líndal efnafræðing. Eins hefur málið fengið allítarlega umfjöllun í iðnn. Ed. Engu að síður er það svo, að upplýsingar, sem tiltölulega nýlega hafa verið að berast, t. d. reikningar sem mér hafa verið sýndir, sýna fram á allverulegt rekstrartap á hverju ári.

Þó svo hér sé um að ræða það sem kalla mætti þróunarverkefni — í fyrsta áfanga er ekki stefnt í framleiðslu á nema 8000 tn. af salti og er þá verið að tala um saltið eitt, en heildarársnotkun hér mun láta nærri að vera allt að 100 þús. tn., þá er það engu að síður svo, að arðsemiútreikningar þessa fyrirtækis virðast vekja margar spurningar.

Annað stórmál, sem skiptir auðvitað sköpum um framtíð þessa fyrirtækis, er hvort kaupendur þess fisks, sem salta á, þ. e. þjóðirnar í Suður-Evrópu, vilji neyta fisksins þegar hann hefur verið unninn með þeim hætti sem yrði. En í þeirri umsögn Þjóðhagsstofnunar, sem fylgir nál. Ed. og hv. þm. Friðrik Sophusson rakti raunar áðan, segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, um þessi efni:

„Niðurstöður söltunartilrauna sýna, að ekki er marktækur munur á því, hvernig saltfiskur flokkast, hvort heldur notað er Reykjanessalt eða innflutt salt. Hér er átt við niðurstöður innlendra matsmanna, en endanlegur dómari í þessum efnum hlýtur að verða neytandi saltfisksins í markaðslöndunum.“

Síðan segir — og það ber að undirstrika:

„Engar marktækar niðurstöður liggja fyrir um viðbrögð neytenda erlendis við fiski söltuðum með Reykjanessalti.“

Þetta hlýtur að verða að telja mjög veigamikið aðalatriði þessa máls. Þó svo að segja megi að ekkert sé hægt að sanna eða afsanna í þessum efnum nema fylgi löng og kannske tímafrek markaðskönnun, þá er það þó allverulegur dómur um að ónógar séu þær upplýsingar sem koma fram í þessu nál. iðnn. hv. Ed.

En það eru fleiri. Í blaðagrein, sem Sigurður Pétursson, sem er virtur vísindamaður á þessu sviði, skrifaði nýlega í dagblað undir fyrirsögninni: Saltvinnsla á Suðurnesjum, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Af framanrituðu er það ljóst, að framleiðsla á fisksalti á Reykjanesi samkv. nefndu stjfrv. er ekki aðeins óraunhæf fjárhagslega, heldur líka stórhættuleg fyrir saltfiskframleiðslu Íslendinga, ef úr yrði.“

Þetta eru auðvitað sjónarmið sem hv. alþm. og hv. nefnd, sem fær málið til athugunar, geta ekki litið fram hjá. Nú ber að sönnu að geta þess, að um þetta greinir vísindamenn á. Gagnstæðra skoðana, sem fylgja raunar flókin raunvísindaleg rök, hefur gætt hjá þeim. Slíkt hefur komið fram hjá Baldri Líndal efnafræðingi, en hann svarar nefndri blaðagrein í dagblaði hér í borg fyrir nokkrum dögum.

Þessar umræður hafa farið fram mjög ítarlega á allra síðustu dögum. Það má nefna miklu fleiri neikvæðar athugasemdir, sem raunar eru sumar hverjar prentaðar í nál. hv. Ed. og hv. þm. Friðrik Sophusson gat um að nokkru. Þar er að finna fskj. V frá skipafélaginu Víkur hf., undirritað af Finnboga Kjeld. Hann telur að hér sé um mjög óhagkvæma fjárfestingu að ræða, og í sinni grg., sem prentuð er með sem fskj. við nál., nefnir hann dæmi um flutningskostnað. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Flutningur með skipi frá Spáni beint til hinna ýmsu kaupenda salts á landinu er ódýrari en flutningur með bílum frá verksmiðju til geymslu í Keflavík — og síðan útskipun þaðan til flutnings út á land.

Sem dæmi má taka þegar til heildarsaltsmagn er lítið:

A) Akstur frá Reykjanesi með salt til Þorlákshafnar er álíka dýr og sjóflutningskostnaður frá Spáni til sama staðar.

B) Akstur frá Reykjanesi með salt til Hornafjarðar er þrisvar sinnum dýrari en sjóflutningskostnaður frá Spáni til sama staðar.

C) Sjóflutningur hérlendis yrði einnig dýrari vegna aksturs, geymslu og útskipunar.

Íslenskur saltfiskur hefur aðallega verið fluttur út með íslenskum skipum, en þau flytja síðan salt til baka og losa á sömu höfnum (eða nálægum) og saltfiskurinn er lestaður á. Nýting skipanna verður þannig meiri og flutningskostnaður lægri heldur en ef skipin kæmu heim tóm til að sækja fiskinn.“

Auk þess er í þessari grg. og raunar hjá fleiri, sem um þetta mál hafa fjallað, að finna miklar efasemdir. Þær byggjast ekki síst á því, að á næstu árum geti verð á salti, sem framleitt er erlendis, lækkað mikið og það af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að um meiri framleiðslu er að ræða en markaðurinn tekur við, sem þýða mun verðlækkun, en ekki síður vegna þess að mjög örar tækniframfarir eru að verða að því er þessa hluti varðar og ekki síst í sambandi við útskipun.

Allt vekur þetta spurningar. Þessar spurningar fela með engum hætti í sér neina endanlega dóma um það fyrirtæki á Reykjanesi sem hér er verið að fjalla um. Enginn má skilja orð mín svo. En auðvitað verður að fara fram mjög rækileg athugun á þessu máli í þingnefnd. Og af hverju er það? Það er vegna þess að hér er um að ræða mjög veigamikla fjárfestingu. Jafnvel þó svo að iðnn. hv. Ed. hafi lagt fyrir sína þingdeild takmarkanir þar á, sem vissulega eru öryggisventill, erum við engu að síður að tala um milljarða af peningum skattgreiðenda. Verða menn að mjög íhuguðu máli að gera upp við sig hvort áhættan með fé skattborgaranna sé þess háttar, að það sé réttlætanlegt að taka hana. Því miður er það ekki svo, að hér sé um að ræða öruggt fyrirtæki sem örugglega muni gefa af sér mikinn arð. Það þarf að vera alveg ljóst. Hér er hæstv. iðnrh. að leggja fyrir Alþingi að taka mjög verulega áhættu. Ég er ekki að segja að það sé rangt að taka slíka áhættu, hvorki almennt né að þessu gefna tilefni. En hitt þurfum við að gera okkur alveg ljóst, að hér er ekki verið að leggja til, eins og í öðrum og oft sambærilegum tilfellum, fyrirtæki sem nokkuð örugglega muni gefa fjármuni í aðra hönd. Hér er verið að leggja út í mikið áhættufyrirtæki. Spurningin, sem hv. þm. verða að spyrja sig og þingnefndin verður sérstaklega að íhuga rækilega, er þessi: Er sú mikla áhætta, sem þetta vissulega er, þess virði að taka hana?

Sem dæmi til samanburðar skulum við rifja upp, að þegar ákvörðun, hverrar spor hræða kannske mest í þessum efnum, um Kröfluvirkjun var tekin töldu þm. á þeim tíma sig ekki vera að taka áhættu. Þess var ekki getið hér við umræður. Þvert á móti töldu menn að þar væri verið að fara út í ábatasamt fyrirtæki. Svo reyndist ekki vera, og við skulum láta vera að fjalla frekar um þá sögu. En hér horfir þetta öðruvísi við. Hér stöndum við í dag vitandi vits um að við erum að taka verulega áhættu. Spurningin er: Er réttlætanlegt að þrýsta þessu á einum eða tveimur dögum í gegnum þingið? Erum við að fara þannig með fé skattborgaranna að það sé á því standandi — eða væri réttlætanlegra og skynsamlegra að bíða í eitt ár, taka þetta mál upp að nýju að hausti og nota þann tíma, sem ynnist í millitíðinni, til að yfirfara þessi mál betur, skoða þá hluti sem auðsjáanlega er um spurt af réttlæti og skynsemi, eins og markaðsmálin í þeim löndum sem saltfiskinn kaupa? Þetta er auðvitað kjarni málsins.

Eitt er í þessu máli. Margir einstaklingar eiga mikilla hagsmuna að gæta. Það hefur verið lagt fé í undirbúning að þessu máli. Það er áhættufjármagn og hefur verið vitað alveg frá upphafi. En hv. alþm. mega ekki láta það rugla sig og hugsa sem svo, að það séu þegar svo miklir hagsmunir orðnir tengdir þessu máli að annað sé rangt og óréttlætanlegt en að keyra það fram á fullri ferð. Ef það og það eitt væri réttlæting fyrir jafnvel því að taka ákvörðun sem menn eru ekki nema svona og svona sáttir við, þá mundi Alþingi veita fjármagn oftar og að verr ígrunduðu máli en ætla má að hv. alþm. vilji. Það er aðeins verið að fara fram á að þetta mál verði mjög vel ígrundað af þingnefnd og af þeim hv. alþm. sem koma til með að greiða um það atkvæði. Sú breyting hefur verið gerð í Ed., að hægar er farið í sakirnar en upphaflega var ráð fyrir gert, en engu að síður eru þær upplýsingar, sem í auknum mæli hafa verið að koma fram á allra síðustu dögum, t. a. m. í blaðagreinum, þess eðlis, að mjög skynsamlegt virðist vera að hinkra við og hugsa sig afar vel um.

Nú bið ég um að orð mín séu ekki skilin á þann veg, að verið sé að gera minna en efni standa til úr feikilegri vinnu fjölmargra einstaklinga. Ég hef þegar nefnt til — og geri það aftur — Baldur Líndal efnaverkfræðing í því sambandi. Þarna er áhugamaður um þessi mál sem áratugum saman hefur lagt bæði mikla vinnu og mikið vit í þá framtíðarsýn sína að þessi vinnsla geti farið fram hér á landi. Er það allt saman svo virðingarverð saga sem slíkar sögur verða í þessum efnum. En jafnvel það réttlætir ekki að rasað sé um ráð fram vegna þess, hversu gífurlega mikinn kostnað er hér um að ræða, og vegna þess, hversu áhættan, hvernig sem á aðra þætti þessa máls er lítið, er mikil í þessum efnum.

Herra forseti. Þessu máli verður vísað til hv. iðnn. þessarar deildar og verður auðvitað að ætla að hún muni athuga þetta mál vel. Hér er um feikilega mikilvægt mál að ræða. Spurningin, sem n. leggur fyrir sig eftir að hafa kallað til kunnáttuaðila um þessi efni, er auðvitað ekki hvort setja eigi fótinn fyrir þetta verkefni með einum eða öðrum hætti. Spurningin er: Þarf ekki að afla meiri upplýsinga? Og spurningin er: Er áhættan, ekki með eigið fé, heldur með fé skattborgaranna, svo mikil að ekki sé réttlætanlegt að taka hana?

Herra forseti. Við 1. umr. málsins læt ég þessi orð nægja.