20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4695 í B-deild Alþingistíðinda. (4892)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Mig langaði til að leggja örfá orð í belg við 1. umr. í Nd. um sjóefnaiðju á Reykjanesi. Í því sambandi vil ég aðeins leggja áherslu á tvennt: Í mínum huga er þessi verksmiðja, sem menn nú eru að ræða um, ekki hvað síst þróunarverkefni í fyrsta lagi og í öðru lagi mega menn ekki um of einblína á saltframleiðsluna eina sem þarna er um að ræða, vegna þess að saltframleiðslan og þessi byrjun er undirstaða undir miklu víðtækari efnaiðnað sem hér gæti hafist á Íslandi, — vinnslu úr íslenskum hráefnum með íslenskri orku.

Það er auðvitað rétt, sem fram hefur komið hér, að í fjölmiðlum hafa komið fram ýmsar skoðanir um þetta mál — menn greinir á um þetta mál — og í þeim gögnum, sem fyrir þingnefndunum hafa legið, kemur líka í ljós að menn greinir á um þetta mál. Allt finnst mér það benda í þá átt — og ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað — að að sjálfsögðu verði iðnn. Nd. að taka þetta mál til eins ítarlegrar skoðunar og henni er fært á þeim tíma sem um er að ræða. Um það blandast vafalaust engum hugur.

Ég vil hins vegar segja það varðandi orð hv. 10. þm. Reykv., þar sem hann lagði áherslu á að ekki yrði tekin ákvörðun í þessu máli nema góðar ábatahorfur væru, að ég er honum ekki fyllilega sammála. Ég tel vel réttlætanlegt að ráðast í sjóefnaiðju á Reykjanesi ef sannanlegt er að hún geti með sæmilegu móti staðið undir sér, þó að ekki séu af því verulegar ábatahorfur, ekki hvað síst með tilliti til þeirra gífurlegu möguleika í efnaiðnaði, sem þessi verksmiðja leiðir af sér, og þeirra ábatasamari aukaefna, sem framleiðsla mundi verða á. Ég ætla ekki að halda sérstaka ræðu um þetta mál hér. Menn þekkja möguleikana á magnesíumframleiðslu, natríumklóratframleiðslu o. s. frv. í framhaldi af þeirri verksmiðju sem hér er um að ræða.

Það er alveg rétt, að komið hafa fram nokkrar efasemdir ýmissa manna um gæði þessa salts við fisksöltun. Menn hafa sumir dregið í efa að bragð af þessu salti í fiski gæti ekki haft áhrif á söluna, liturinn gæti ekki haft áhrif á söluna o. s. frv. Ekki er ég í nokkurri aðstöðu til að leggja dóm á það mál hér og nú á þessari stundu. Ég vil hins vegar benda á að sérfræðingar okkar, sem þetta mál hafa athugað, halda því fram, þeir sem mest hafa og gerst fylgst með og fengist við söltun á fiski, og sérstaklega er vísað til eins sérfræðings í skýrslunni, að gæði saltsins séu mjög mikil. Þar benda menn ekki síst á að saltið er gerlafrítt, roðagerlar eru ekki í því. Á sameiginlegum fundi iðnn. Ed. og Nd. lagði einn nm. sérstaklega áherslu á að erlendir aðilar, sem salt selja, hafi af því nokkrar áhyggjur, að þarna komi algjörlega gerlafrítt salt á markað, og velta því fyrir sér, hversu mikill kostnaður geti falist í því hjá þeim að gera sitt salt gerlafrítt. Það kann að vera og er ekki ótrúlegt að sú verði þróun í þessum málum í framtíðinni, að þjóðir heims muni setja strangari og strangari mörk um að fiskur sé ekki saltaður nema með gerlafríu salti. Sá fiskur, sem saltaður hefur verið með þessu salti, er ljósari, en hann er líka fastari og flokkast betur að mati þeirra sem við þetta hafa fengist.

Ég tek undir með þeim, sem hér hafa talað, um að við höfum ekki fengið nægilega svörun frá markaði um þennan fisk. En ég vek líka athygli á því, að þegar menn tala um það eru menn að taka upp efasemdir sem heldur er engin stoð fyrir enn. Það kynni að vera að menn hefðu eitthvað fyrir sér í því. En ég vek athygli á að þó að í litlum mæli sé hefur fiskur verið saltaður með þessu salti. Hann hefur verið sendur út og engin neikvæð viðbrögð hafa fengist við því. Það er ekki síður athyglisvert.

Um þetta mál er mjög margt að segja og ég ætla ekki að lengja umr. hér með því að halda langa ræðu um það. Hitt er annað mál, að menn mega náttúrlega ekki verða svo hræddir við allt, þó að þeir séu ekki ánægðir með það sem gerðist í Kröflu, að þeir þori bókstaflega ekki að ráðast í nokkurn hlut eftir það.

Ég vil svo að lokum taka undir þau orð ræðumanna, sem hér hafa talað á undan mér, að ástæða er til að n. fari ítarlega yfir þau gögn sem fyrir liggja. En mér fannst ég skilja það á þeim þm., sem hér töluðu, að þm. almennt nálgist þetta mál með jákvæðu viðhorfi.