20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4697 í B-deild Alþingistíðinda. (4894)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mun ekki hér fara út í efnislegar umræður um þetta frv., enda á ég sæti í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um það.

Það er auðvitað rétt og sjálfsagt að skoða alla gagnrýni, bæði jákvæða og neikvæða, sem fram hefur komið um málið, og umsagnir um það. En við megum ekki heldur gleyma því, að þó að það séu margir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta af því að þessi verksmiðja rísi, eins og kom fram hjá einum ágætum hv. þm., eru það líka margir aðilar sem hafa hagsmuni af því að flytja inn og kaupa og selja salt og eðlilegt að það heyrist frá þeim andmæli. En andmæli hafa vissulega komið frá miklu fleiri en þeim.

Í öllum verðsamanburði verður líka að hafa í huga að það er hálfgildings efnahagslegt kreppuástand í viðskiptalöndum okkar og öll framleiðsla okkar, í hvaða formi sem er, býst ég við að komi til með að fá lélega einkunn í samanburði við verð annars staðar. Það á við um skip og ýmislegt annað sem er niðurgreitt í stórum stíl utanlands vegna þess að þar er kreppuástand. Mér finnst að við megum ekki horfa fram hjá því, að þetta er óeðlilegt ástand. Ég vona að allir séu sammála um að í þessu máli stytti upp, þannig að efnahagsástandið í viðskiptalöndum okkar verði aftur eðlilegt.

Mér finnst aftur á móti mjög gagnrýnivert hvað þetta frv. er seint fram komið og reyndar ýmis önnur frv. sem hafa verið að koma nú allra síðustu daga fyrir áætlaðar þinglausnir. Það finnst mér mjög gagnrýnivert. En ég mun, eftir því sem tími vinnst til, skoða alla þá gagnrýni sem fram hefur komið, allar þær umsagnir sem komið hafa fram, og eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði: Ég mun gera það með jákvæðu hugarfari.