20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4700 í B-deild Alþingistíðinda. (4897)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er sérstök ástæða til að vera að óska eftir því úr ræðustól, að hæstv. iðnaðar- og orkuráðh. haldi lengri ræður hér en raun hefur vitni borið að undanförnu. Ekki er það a. m. k. mín ósk.

Frv., sem hér er nú til umr., er eitt af mörgum frv. núv. hæstv. ríkisstj. sem hefur verið hrúgað inn á borð alþm. síðustu tíu dagana sem þingi er ætlað að starfa. Hér er um að ræða stórmál. Á ég bæði við þetta frv. svo og önnur sem sérstaklega hæstv. iðnrh. er svo seinn með að það er nánast að kalla hneyksli að bjóða Alþingi og alþm. vinnubrögð eins og hér eru viðhöfð. Það á ekki eingöngu við um þetta frv. eitt og sér. Það á við í miklu fleiri tilvikum.

Ég held að það sé svo um þetta mál eins og mörg önnur hliðstæð, sem eru stórmál og þurfa gaumgæfilegrar skoðunar við, að sérfræðingar eru búnir að vinna að þessum málum líklega í mörg ár í sumum tilvikum, en síðan er ætlast til þess að alþm. afgreiði þau á örfáum dögum og þá að nokkru, ef ekki að verulegu leyti án þess að fá nægjanleg gögn til að átta sig á þeim. Þetta er ekki sagt til að tala gegn frv. sem hér er nú til umr. Þetta er fyrst og fremst sagt til þess að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð og eiga ekki bara við um núv. hæstv. ríkisstj., heldur hafa verið hér oft áður viðhöfð, kannske oftast. Þó er ekki fjarri mér að halda að nú kasti þó tólfum í þessum efnum, og þar á hæstv. iðnrh. fyrst og fremst sök á.

Ég sé ekki að það breytti miklu um niðurstöður eða árangur varðandi þetta mál þó að til þess gæfist tími að skoða það betur til hausts og gefa þm. og þingnefndum tækifæri til að fara betur ofan í sauma á málinu en tækifæri gefst til nú. Það er gjörsamlega vonlaust, hversu gáfaðir og snjallir menn sem kunna að sitja í þeirri n. sem málið fær til meðferðar, að þeir geti af nokkru viti áttað sig á öllum þeim þráðum, sem þar er um að ræða, né geti sagt með eðlilegum hætti hvað hér er í raun og veru í boði og hvað er í húfi. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að þm. geti unnið slík störf, ég tala nú ekki um þegar þeir eru undir þeirri pressu sem er á þingi síðustu daga.

Eftir nýjustu fréttum er einvörðungu um að ræða þriggja daga starfstíma þingsins. Á þeim tíma á þessi n. ásamt allflestum nefndum þingsins að afgreiða þetta mál og mörg önnur stórmál sem hér hafa verið lögð fram síðustu daga og þinginu er ætlað að afgreiða. Það hlýtur að koma að því fyrr en síðar að þm. rísi upp og neiti því að vera algjörlega afgreiðslustofnun fyrir ráðh. og ríkisstj. Það verður að ætlast til þess af hvaða ráðh. og ríkisstj. sem er, að þannig sé hagað vinnubrögðum gagnvart þinginu að þm. gefist tími og tækifæri til að skoða málin með eðlilegum hætti. Þessi orð mín eru fyrst og fremst mótmæli við vinnubrögðum af þessu tagi, mótmæli við hæstv. ríkisstj. og ráðh. og fyrst og fremst mótmæli við vinnubrögð hæstv. iðnrh., eins og hann hefur látið þau fram koma hér á þingi síðustu viku.

Mér dettur ekki í hug að ætla, ef iðnn., sem málið fær til meðferðar, ætlar sér að skoða það eins og það þarf að skoðast, að hún geti lokið störfum á þessum stutta tíma. Það væri því skynsamlegt að mínu viti allra hluta vegna að það gæfist tóm til frekari athugunar á málinu. Vissulega er mikið í húfi hvernig til tekst með þetta fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki sem verið er að ræða um að koma á fót, sem ætti að verða til að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf í landinu og þannig að varða leiðina til bættra lífskjara, en því aðeins gerist það, að vel sé til vandað til þeirra hluta sem eiga að verða að því gagni sem til er ætlast.

Mér finnst því ekki óeðlilegt allra hluta vegna að málið sé athugað betur og farið ofan í saumana á því. Á því er vissulega þörf. Það er svo mörgum spurningum ósvarað varðandi þetta mál að það hlýtur að verða að gefast tóm til að kanna málið betur.