20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4705 í B-deild Alþingistíðinda. (4901)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál. Hins vegar ætla ég að segja það, að afgreiðsla hv. félmn. á þessu máli er afskaplega vesældarleg. Kannske hefur karlaveldinu þótt nokkuð nærri sér höggvið með þessu máli.

Menn hafa talað um að hér væri verið að fara fram á forréttindi. Það er verið að fara fram á forréttindi til að koma á jafnrétti. Um það snýst þetta mál. Hér er til tekið að þessi forréttindi skuli aðeins gilda í 5 ár og að því loknu verði væntanlega metið hver reynslan verður.

Mér finnst auk þess heldur hlægilegur sá rökstuðningur sem notaður er til þess að næsta mál á dagskrá verði tekið fyrir, eins og stendur í áliti félmn., að ríkisstj. sé falið að beita sér fyrir að kannanir verði gerðar á þessum launakjörum. Vita ekki allir mismuninn á þessum launakjörum? Hvaða fólk er það sem vinnur og er aðilar að Iðju, félagi verksmiðjufólks, en það er lægst launaða fólkið í landinu? Eru það karlar? Að langmestum meiri hluta eru það konur. Og konurnar í Sókn, sem skúra gangana í sjúkrahúsunum, eru launalægsta fólkið í landinu, hjá Verslunarmannafélaginu yfirgnæfandi meiri hl. og það fólk, sem vinnur í lægst launuðu störfunum í BSRB, hjá hinu opinbera, eru konur. Þess vegna var full ástæða til að samþykkja þetta frv. eins og það kom fram hér á þinginu, ef það hefði getað orðið til þess að auka jafnrétti í þessu landi sem er auðvitað ekki neitt þegar kemur að þessum málaflokki. Þau forréttindi, sem hér er farið fram á, — ég endurtek það, — þau eru eingöngu til að auka jafnrétti og draga úr því misrétti sem er í þjóðfélaginu á þessu sviði.

Ástæðulaust er að fara fram á það við ríkisstj. að hún geri könnun á máli sem liggur ljóst fyrir hvernig er. Það er nóg fyrir hv. félmn. að snúa sér til verkalýðsfélaganna og spyrja hverjir þar hafa lægstu launin. Það þarf ekki að biðja ríkisstj. að kanna þetta mál. Þetta vita allir, hver og einn einasti maður. Þessi afgreiðsla nefndarinnar er — æ, ég veit það ekki, ég ætla ekki að nota þau orð sem mig langar til að nota um það, en hún er afskaplega aumkunarverð. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur eitthvað við mál mitt að athuga væri réttast að hann kæmi hingað upp og léti það álit sitt í ljós. Ef hann telur að þetta jafnrétti sé svo mikið að ekki þurfi að ráða einhverja bót á því yfirþyrmandi misrétti sem á sér stað í launamálum hér á landi, þá vildi ég heyra skoðanir hans á því máli. Það fólk, sem segir að hér sé ferðinni forréttindafrv., er algerlega fjarstæðukennt í fullyrðingum sínum. (Gripið fram í: Þú hefur sagt það sjálfur.) Ég hef ekki kallað það sjálfur forréttindafrv. Ég hef sagt að þetta væru forréttindi til að ná jafnrétti — forréttindi sem gildi í fimm ár. En það er alveg augljóst að þetta karlaveldi, sem oft hefur verið talað um, er öflugra en nokkurn grunaði.