11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

69. mál, félagsbú

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þetta mál er ekki flutt af mér, heldur af hv. varaþm. Þorbjörgu Arnórsdóttur, sem kom hér inn í þingsali á dögunum og flutti þetta mál þá, en fékk það ekki á dagskrá vegna þýðingarmikillar og alvöruþrunginnar fjárlagaumræðu s.l. fimmtudag. Þessi till. hljóðar svo:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að sett verði í löggjöf fyllri ákvæði um félagsbú, hvað varðar hagstæða lánafyrirgreiðslu og aðra tiltæka aðstoð, sem gæti orðið hvati þess að þetta búskaparform yrði tekið upp í ríkari mæli.“

Ég vil leyfa mér að lesa grg. með þessari till., en geta þess um leið, að sjálf hafði Þorbjörg ætlað að flytja um þetta nokkuð ítarlega framsögu ef að því hefði komið, enda er hún þessu máli býsna kunnug sem bóndakona og hafandi þennan rekstur sérstaklega með hendi.

Markmiðið með flutningi þessarar þáltill. er að í löggjöf verði sett ákvæði er stuðlað gætu að eflingu félagsbúskapar hér á landi í framtíðinni. Kostir þess búskaparforms eru ótvíræðir frá rekstrarlegu, þjóðhagslegu og almennu félagslegu sjónarmiði. Einyrkjabúskapur, sem er algengur víða um land, hefur óneitanlega í för með sér vissa ókosti, sem beint eða óbeint rýra kjör bændastéttarinnar ef tekið er mið af kjörum annarra starfsstétta í landinu. Á það einkum við takmarkaða möguleika sveitafólks á frídögum svo og takmarkaða möguleika á orlofi, mikið vinnuálag, einkum tímabundið, og einnig tímabundna erfiðleika sem geta steðjað að sökum veikinda. Hvers konar samvinna og samþætting í landbúnaði gæti stuðlað að hagkvæmari rekstri, meiri möguleikum á verkaskiptingu, fjölbreyttari framleiðslu og mun ægilegri aðstöðu þess fólks er við landbúnað starfar. það má einnig benda, að rekstur félagsbúa hefur beint þjóðhagslegt gildi, þar sem um verulegan sparnað getur verið að ræða í innkaupum á innfluttum tæknibúnaði sem nauðsynlegur er við landbúnaðarframleiðsluna.

Fram til þessa hefur nær enginn hvati verið frá hinu opinbera til stofnunar félagsbúa, en jafnvel frekar verið hvatt til tvíbýlis- eða fjölbýlisbúa, sem eftir sem áður eru sjálfstæðar rekstrareiningar. Nú munu aðeins um 20 löggilt félagsbú í landinu, en u.þ.b. 700 tvíbýlis- eða fjölbýlisbú.

Áhrif kvótakerfisins ættu að vera hvati til stofnunar félagsbúa, og má segja að þar væri um eðlilega hagræðingu að ræða í tengslum við framkvæmd þess. En með tillit til þeirrar hagkvæmni, sem rekstur félagsbúa gæti haft í för með sér, væri eðlilegt að þau nytu einhverra fleiri ívilnana, sem mundu þá jafnframt verka sem stefnumarkandi ákvæði af hálfu hins opinbera. Greiðasta leiðin til stefnumörkunar á því sviði er að stuðla að hagkvæmari stofnlánum eða viðbótarlánum til félagsbúa, og gæti það átt við um lán til byggingarframkvæmda, vélvæðingar, ræktunarframkvæmda o.fl. Einnig gæti slík fyrirgreiðsla verið í formi hærri styrkja eða viðbótarstyrkja til félagsbúa.

Ýmsar aðrar aðgerðir gætu komið til greina, ekki hvað síst í nánum tengslum við stefnumarkandi ákvæði sem sett væru af hinu opinbera og við ættu hverju sinni.

Erfið staða íslensks landbúnaðar nú í dag og minnkandi tekjumöguleikar þess fólks, sem við hann starfar, kallar á að fundnar séu nýjar leiðir sem stuðlað gætu að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni í landbúnaðarframleiðslu. Til þess að svo geti orðið þurfa samtök bænda og ríkisvaldið að taka höndum saman um að finna réttláta lausn á miklum vanda. Þar þarf að taka mið af því meginsjónarmiði, að jafnframt því sem miða þarf landbúnaðarframleiðsluna við þarfir neytenda og markaðsaðstæður hverju sinni þarf að tryggja að það fólk, er við landbúnað starfar, hafi sambærileg laun og njóti sambærilegra félagslegra réttinda og aðrar starfsstéttir í landinu.

Með stefnumarkandi ákvæðum af hálfu ríkisvaldsins um eflingu félagsbúskapar og fjölgun félagsbúa væri því ótvírætt stigið stórt skref í átt til aukinnar hagræðingar og hagkvæmni og bættrar starfsaðstöðu í íslenskum landbúnaði á komandi árum.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.