20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4714 í B-deild Alþingistíðinda. (4917)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. allshn., en í þeim minni hl. er auk mín hv. þm. Friðrik Sophusson. Við leggjum til að þetta frv. verði samþykkt ásamt með brtt. við 1. gr. á þskj. 935, eins og það kemur frá Ed. Nú vil ég taka fram að það er í raun og veru villa í þessu þskj. vegna þess að á milli umræðna bættust við tvær nýjar umsóknir um ríkisborgararétt og þessi skoðanaágreiningur í nefndinni tekur auðvitað ekki til þess. Við erum auðvitað ásamt öðrum nm. samþykkir þessum tveimur nýju Íslendingum.

Um þetta má segja að mannanafnalögin hafa verið mjög umdeild um langa hríð. En ég vil vekja athygli á því, að hér er einasta um mjög litla ákvörðun að ræða, þ. e. ákvörðun sem raunverulega tekur aðeins til einnar kynslóðar. M. ö. o.: í þeirri breytingu, sem samþykkt var samhljóða, að ég hygg, í Ed., er aðeins gert ráð fyrir að einstaklingur, sem heitir nafni með einkennum þeirrar þjóðar sem hann kemur frá, haldi sínu nafni, en næsta kynslóð á eftir taki upp íslenskt nafn. Ég vil leggja á það þunga áherslu, að hér er í raun og veru aðeins verið að flytja nafnbreytinguna frá einni kynslóð til þeirrar næstu. Breytingin er ekki meiri en það.

Að því hefur verið fundið, að hér sé skilið á milli systkina, að eins og það er orðað í breyttu greininni taki þessi íslenskun einungis til þeirra barna sem fæðast eftir að ríkisfangið er fengið. Ég hygg raunar að það sé stórlega ýkt hvaða mismunun þetta mundi hafa í för með sér. Ég hygg að það verði svo í reynd um þau börn, sem áður eru fædd, að samræmis verði gætt með þeim hætti að þau taki upp íslenskun nafna sinna. En ég tel með öllu eðlilegra að þetta gerist með þessum hætti. Ég held að menn vanmeti það stundum hvert tilfinningamál hér kann að vera á ferðinni, og satt að segja held ég að menning okkar og mál séu svo sterk að það sé enginn skaði skeður þó að þessari breytingu á svo veigamiklum högum einstaklinga sé frestað með þessum hætti um eina kynslóð.

Eins og hér hefur komið fram hjá hv. frsm. meiri hl. allshn. kom Klemens Tryggvason hagstofustjóri, sá ágæti embættismaður, til n., og hann flutti vissulega veigamikil rök og lagði mjög verulega áherslu á þá mismunun sem yrði milli barna sömu foreldra. En eins og ég hef lýst held ég að þetta út af fyrir sig sé ástæðulaus ótti. Hitt er svo rétt, að það kann vel að vera nauðsynlegt og er raunar orðið brýnt að reglur um mannanöfn séu endurskoðaðar frá grunni. Það er ekki verið að leggja það til hér og til þess þarf auðvitað lengri tíma. En ég vek athygli hv. deildar á því, að hér er um ekki mikla breytingu að ræða. Hér er aðeins um það að ræða að þessari tilteknu athöfn er, ef svo má að orði komast, frestað um eina kynslóð. Ég vek enn fremur athygli á því, að við erum að leggja til, þó að minni hl. séum, að deildin staðfesti álit Ed. í þessum efnum. Fari deildin að áliti meiri hl. n, þarf aftur að senda málið til Ed. og einhvern flóknari feril kynni það að hafa í för með sér. En sem sagt: Við leggjum til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Ed.