20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4715 í B-deild Alþingistíðinda. (4919)

327. mál, umbætur á opinberum byggingum í þágu fatlaðra

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um umbætur í þágu fatlaðra, eins og hér stendur, á þskj. 850. Eins og hv. alþm. er kunnugt var á þinginu 1980 samþykkt þáltill. sem ég flutti um málefni hreyfihamlaðra. Hún hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera úttekt á nauðsynlegum endurbótum á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang og verði gerð kostnaðaráætlun um þau verkefni sem brýnust þykja. Skal í þessum efnum haft samráð við Ferlinefnd fatlaðra. Úttektin skal lögð fyrir Alþingi.

Jafnframt felur Alþingi ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. til l. um fastan tekjustofn í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmda, þannig að á næsta ári verði hægt að hefjast handa um breytingar á húsnæði svo sem þál. þessi gerir ráð fyrir.“

Eins og kemur fram í grg. eða aths. við þetta stjfrv. fól hæstv. félmrh. ALFA-nefndinni eða framkvæmdanefnd Alþjóðaárs fatlaðra, að annast framkvæmdir í tilefni af ári fatlaðra 1981, þess efnis að hún var látin athuga að hvaða leyti hún gæti tekið að sér að framkvæma hluta þessarar þáltill. Komið var á fót sérstakri nefnd, sem greint er frá í grg. frv., sem hafði þetta með höndum.

Það varð ljóst að úttekt á nauðsynlegum endurbótum er miklu meira verk en svo að hægt væri að leggja það fyrir það þing sem nú situr eða jafnvel það næsta. Hins vegar þótti eðlilegt að reyna að koma hluta af þessu í framkvæmd, þ. e. breytingum á opinberum byggingum, og var þá horfið að því ráði, eins og hér hefur verið greint frá, að lagabreytingar yrðu gerðar sem gerðu mögulegt að ákveða ýmsar framkvæmdir við opinberar byggingar án þess að fyrir lægi sérstakt fjármagn: það kæmi í sambandi við fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eða fjárlagagerð ríkisins á þessu ári.

Meginefni þeirra breytinga, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á gildandi lögum, er þó það, að kostnaðurinn við framkvæmdir endurbóta og breytinga á hinu opinbera húsnæði greiðist í sömu hlutföllum og um stofnkostnað væri að ræða, en í öllum tilvikum er hér fjallað um opinberar byggingar sem beint eða óbeint eru kostaðar sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Um þetta snýst þetta frv. Það fjallar um breytingar að þessu leyti til að því er varðar heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. gr., að því er varðar grunnskóla, sbr. 2. gr., að því er varðar dagvistarheimili, sbr. 3, gr., að því er varðar félagsheimili, sbr. 4. gr., og íþróttasjóð, sbr. 5. gr.

Nefndin fór yfir þetta frv. og þar sem fulltrúar frá hinum ýmsu stofnunum og félagasamtökum höfðu staðið að þessari frv.-gerð, þar með talið Samband ísl. sveitarfélaga sem hafði fjallað um þetta frv. á sínum stjórnarfundum, taldi n. ekki ástæðu til að senda þetta frv. út til umsagnar, en telur mjög brýnt að það nái fram að ganga á þessu þingi til þess að sveitarfélög og aðrir aðilar geti hafið nauðsynlegar framkvæmdir eftir því sem viðráðanlegt er strax á þessu ári. Þess vegna var n. sammála um að leggja til að það verði samþykkt, en þó þarf að gera þar eina breytingu, þ. e. á fyrirsögn frv., eins og raunar kom hér fram þegar mælt var fyrir frv., að fyrirsögnin orðist svo:

„Frv. til l. um breytingar á lögum vegna umbóta á opinberum byggingum í þágu fatlaðra.“

Ég legg þess vegna til, herra forseti, í nafni nefndarinnar að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu á þessu þingi.