20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4724 í B-deild Alþingistíðinda. (4939)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. 15. dagskrármálið, um dýralækna, hefur verið alllengi í nefnd og ég hef óskað eftir því við formann n. æ ofan í æ, að málið væri tekið fyrir í n. og afgreitt þaðan. Ég óska eftir því, að þetta mál verði tekið á dagskrá nú og látið á það reyna hvort það hafi þingfylgi. Ef meiningin er að salta þetta frv., eins og flest frv. sem frá einstökum þm. koma í stjórnarandstöðunni, óska ég eftir að á það reyni strax og það hafi sama möguleika og önnur mál, sem á dagskrá eru, til þess að verða hér tekið fyrir á eftir. Ég geri ráð fyrir að forseti muni ekki synja um þá beiðni, sem sjálfsögð er, að um mál stjórnarandstöðunnar, sem afgreidd hafa verið úr nefndum, gildi sama regla og um mál ríkisstj. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherrar óski eftir því, að mál þeirra gangi sæmilega fram. Fyrir þingið hefur verið lagt á síðustu dögum hvert stórmálið á eftir öðru. Hér fyrir stundu var verið að endurtaka atkvgr. fyrir ýmist formenn stjórnarflokkanna eða einstaka ráðh. af því að þeir fylgdust ekki með því sem gerðist í þingsalnum til þess að þeir gætu greitt atkv. rétt, og var hnippt í þá af þeim mönnum sem dottuðu ekki í sætum sínum og styðja þó ríkisstj.

Ég vænti þess, að þetta mál verði tekið fyrir nú á þessum fundi, en verði ekki frestað áfram von úr viti því að á liggur að úrslit fáist í þessu máli. Ég get ekki búist við því, eins og ég sagði, að smæstu mál stjórnarandstöðunnar fáist ekki tekin á dagskrá þá loksins tekist hefur að tosa þeim úr nefnd.