20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4725 í B-deild Alþingistíðinda. (4943)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil ítreka það, sem ég sagði í lok síðasta fundar, að það nær ekki nokkurri átt að á sama tíma og rignir yfir deildina hverju málinu á fætur öðru frá Ed. og nefndum eða frá ríkisstj., leitað er afbrigða um afgreiðslu mála og þar fram eftir götunum, haldnir eru næturfundir og stjórnarandstaðan gerir allt sem í hennar valdi stendur til þess að greiða fyrir þingstörfum, þá skuli einstökum alþm. úr stjórnarliðinu og einstökum ráðh. haldast uppi að standa á móti því að mál þm. fái eðlilega meðferð.

Þannig stendur á, að á síðasta fundi var dýralæknafrv. á dagskrá og minni hl. hafði skilað nál. Nú er einungis beðið eftir því, að meiri hl. þóknist að skila frá sér samsvarandi nál. Okkur er vel kunnugt um að stjórnarandstöðunni yrði ekki stætt á því að stöðva framgang mála hér í deildinni með því að tefja það að gefa út nál. Ég man mýmörg dæmi þess við afgreiðslu mála hér á Alþingi, að umr. um þau hafa hafist þó svo ekki hafi verið búið að dreifa nál. Þetta hefur ævinlega verið í þágu þeirrar ríkisstj. sem setið hefur. Nú á aftur á móti að ganga svo langt í því að níðast á Alþingi að minni hl. á ekki einu sinni að gefast kostur á því að mál hans njóti þeirra sjálfsögðu réttinda og virðingar af meiri hl. að vera tekin til umr. hérna til þess að þau hafi möguleika á því að fá eðlilega afgreiðslu á þinginu, og skiptir raunar engu hvenær þessi mál voru lögð fram. Aðalatriðið í huga þeirrar ríkisstj., sem nú situr, er að koma sínum málum áleiðis og ef svo skyldi fara að einstök mál — ég get tekið sem dæmi raforkumálin — hafi ekki meiri hl. í þinginu verður þrautalausnin sú hjá þessari hæstv. ríkisstj. að senda þingið heim og gefa út brbl. til að geta farið sínu fram þrátt fyrir að fyrir liggi að enginn vilji sé á Alþingi fyrir þeim athöfnum sem hæstv. ríkisstj. stefnir að.

Ég get nefnt um það mýmörg dæmi, að hæstv. ríkisstj. hefur gert ýmist að synja Alþingi um eðlilegar upplýsingar, hundsa vilja þess eða jafnvel setja með brbl. löggjöf sem ekki á að taka gildi fyrr en mörgum vikum eftir að Alþingi kemur saman. Upp á þetta höfum við allt saman horft. Við höfum orðið vitni að því, að ýmsir af virtustu lögfræðingum landsins hafa talið að sú löggjöf, sem hér hefur verið þrýst í gegnum deildirnar, væri mjög vafasöm út frá því sjónarmiði hvort hún stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Við höfum orðið varir við það, sem erum kunnugir ýmsum helstu lögmönnum Íslands, að aukinn og nýr áhugi hefur nú vaknað í þeirri stétt um hvort ekki sé rétt að vekja hér upp sérstakan dómstól til þess að borgurunum gefist kostur á því að leggja fyrir hann hvort einstök lög, sem samþykkt eru frá þinginu, standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Hefur mönnum í þeim efnum dottið í hug hvort ekki sé rétt að víkka út starfssvið landsdóms þannig að hann taki til þess, hvort um brot á stjórnarskrá sé að ræða, ýmist með setningu brbl. eða laga frá Alþingi, og auka þannig rétt borgaranna gagnvart meiri hl., sem einskis svífst, og ráðh., sem ekki kunna völdum sínum hóf og kunna ekki að halda á sínum penna.

Í þessu sérstaka máli, sem ég er að tala um, verðum við vitni að því, að einn þm., sem er á móti máli, gripur til þess óyndisúrræðis að senda ekki frá sér nál. til að koma í veg fyrir að málið komi hér til umr. (Gripið fram í: Hver er þetta?) Hann hefur kvatt sér hljóðs. — Ég verð að vita það hjá hæstv. forseta, þó að mér sé að hinu leytinu hlýtt til hans, að hann skuli taka mark á öðru eins og þessu þegar komið er að þingslitum, en ekki taka þau mál fyrir sem á dagskrá eru.