20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4726 í B-deild Alþingistíðinda. (4945)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst að mörgu leyti eðlileg aths. hv. 7. landsk. þm. varðandi 15. mál, sem var á dagskrá síðasta fundar. Ég get líka mjög vel skilið þá skoðun forseta, að örlítið sé beðið eftir nál.,. en þó mjög takmarkaðan tíma, vegna þess að þingi verður senn slitið. En ég spyr hæstv. forseta: Hver er munurinn á því að taka á dagskrá frv., sem er 213. mál. Ed. og hefur fengið umfjöllun í nefnd og minni hl. n. hefur skilað nál. um, og frv., sem er hér síðast á dagskránni, um raforkuver, og var komið inn á dagskrá í dag, prentaða dagskrá, þar sem ekki hefur enn þá verið gengið frá nál. og nefnd hefur ekki lokið störfum? Það er óeðlilegt í alla staði að tekið sé hvað eftir annað á dagskrá mál til 2. umr. sem ekki er búið að fá afgreiðslu í viðkomandi nefnd. Ég ætlaði að gera aths. við það að veita afbrigði fyrir slíku máli á dagskrá hér áðan. En hraðinn er svo mikill, dagskrá var ekki komin og forseti fljótmæltur vel, að maður tekur ekki eftir því fyrr en maður sér dagskrána á borðinu að þessu er hnýtt aftur aftan við. Þetta vil ég gera aths. við og tel óþinglegt með öllu að mál séu tekin á dagskrá sem ekki hafa verið afgreidd úr nefnd.