20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4729 í B-deild Alþingistíðinda. (4962)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. deildarþm. Í trausti þess að menn taki störf þingsins alvarlega að þessu sinni, en vægast sagt var það ekki að sjá við afgreiðslu síðasta máls, ætla ég að leyfa mér að tala hér fyrir frv. til l. um framkvæmdasjóð aldraðra sem liggur fyrir á þskj. 965.

Forsaga þessa frv. er sú, að fyrir þinginu lágu tvö frv.: Annað stjfrv., 269. mál þingsins, frv. til l. um heilbrigðisog vistunarþjónustu aldraðra. Hitt málið var 201. mál þingsins, en það var frv. til l. um sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja. Flm. þess voru hv. þm. Pétur Sigurðsson, Matthías Bjarnason og Halldór Blöndal.

Heilbr.- og trn. hafði þessi mál til umfjöllunar og varð fljótlega ljóst að erfitt yrði, þar sem svo áliðið var þingtíma, að gera þessum frv. þau skil sem þau eru talin verðskulda. — Umsagna var leitað og fjölmargar aths. við þessi frv. komu fram. N. varð því sammála um að óverjandi væri að afgreiða þau án þess að taka þau til verulegrar vinnslu.

Til upplýsingar skal þess getið, að stærsta ágreiningsmálið voru þau atriði sem fram komu í brtt. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem liggja hér fyrir á þskj. 649. Það, sem frv. og brtt. greinir á um, er aðallega hvort taka á hinn félagslega þátt umönnunar aldraðra inn í frv. Þetta er stærra mál en svo að það verði afgreitt á örfáum dögum. Menn hafa nýlega séð ítarlegar niðurstöður nefndar sem sett var á laggirnar fyrir 5 árum og gera átti tillögur um þátt sveitarfélaga og ríkis í hinum ýmsu málum og verkaskiptingu þessara tveggja aðila, og svo sannarlega er ástæða til að líta á þær niðurstöður.

Hv. heilbr.- og trn. var sammála um að þessi mál þyldu enga bið, heilbrigðis- og vistunarþjónustumál aldraðra, og nefndin varð ákaflega einhuga um að reyna að gera það sem hún gæti til að greiða úr þessum málum. Það var þess vegna einróma samkomulag nefndarinnar, þó að fjarstöddum fulltrúa Alþfl., Magnúsi H. Magnússyni, sem vissulega hafði sýnt fulla vinsemd gagnvart þessu málefni, að bera fram sérstakt frv. í nafni nefndarinnar um það atriði í stjfrv. sem fjallaði um framkvæmdasjóð aldraðra.

Það frv. liggur hér frammi, eins og ég sagði áðan, á þskj. 965 og við samningu þess varð strax einna helsti ásteytingarsteinninn hvernig afla skyldi fjár fyrir þennan sjóð. Hv. þm. þekkja mætavel mismunandi skoðanir manna á ágæti markaðra tekjustofna. Þau rök hafa margsinnis komið fram. Menn minnast Framkvæmdasjóðs öryrkja, og ekki er langt síðan hér var rætt um þýðingarsjóð. Þessi sama gagnrýni skýtur ævinlega upp kollinum og er vissulega ekki að ófyrirsynju. Við töldum þó í þessari n. að landsmenn mundu nokkuð einhuga um að vilja leggja eitthvað af mörkum til skjótrar úrlausnar á húsnæðismálum aldraðra.

Eins og menn minnast var í frv. því, sem hæstv. heilbr.- og trmrh. lagði fram, gert ráð fyrir að leggja gjald á aðgangseyri að vínveitingahúsum, 10 kr. á hvern miða, og skyldi skatturinn breytast í samræmi við verðlagsvísitölu. Það kom mjög fljótt fram ákaflega sterk gagnrýni á þessa tekjuöflunarleið. Helstu rök gegn henni voru að sú tekjuöflun beindist aðallega að mönnum hér á Suðurlandsundirlendinu og þá einkum Reykvíkingum. Þótti mörgum að slíku skyldi jafna á landsmenn alla. Jafnframt skrifuðu veitingahúseigendur nefndinni og töldu af og frá að leggja fleiri skatta en þegar er orðið á veitingahús. Menn töluðu um, að þetta byði jafnframt upp á að menn skytu þessu gjaldi undan, og töldu auðvelt að breyta samkvæmishaldi t. d. hér í Reykjavík í þá veru að stóru veitingahúsin yrðu af viðskiptum, en í staðinn yrðu félagsheimili af öllu tagi látin annast það og kannske án þess að greiða þetta gjald. Við urðum því ásátt í n. um að reyna að leita annarra leiða en þessarar, og eftir nokkra fundi og samráð við hæstv. heilbr.- og trmrh. varð sú leið ofan á sem er hér í 2. gr. þar segir, með leyfiforseta:

„Tekjur sjóðsins eru:

1. Leggja skal 100 kr. á hvern skattskyldan einstakling, í fyrsta sinn á árinu 1981. Ónýttur persónuafsláttur samkv. ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt gangi til greiðslu á þessu sérstaka gjaldi. Gjaldið skal innheimt með tekjuskatti og eignarskatti og breytist með skattvísitölu ár hvert samkv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta skal endurskoða að fimm árum liðnum frá gildisstöku laganna.“ Lýkur þar lestri mínum. Síðan geta menn sjálfir séð það sem eftir stendur af þessari grein.

Þetta ákvæði um ónýttan persónuafslátt tryggir að mjög tekjulágt fólk, svo sem ellilífeyrisþegar og öryrkjar, kemur ekki til með að greiða þennan skatt.

Eins og ég minntist á áðan, var hv. þm. Magnús H. Magnússon ekki viðstaddur síðustu afgreiðslu málsins, en hann hefur ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur lagt hér fram brtt. sem menn geta séð á þskj. 983. Þeirra till. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Leggja skal 1% álag á álagðan tekju- og eignarskatt einstaklinga og félaga, í fyrsta sinn árið 1981.“

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Magnús H. Magnússon geri grein fyrir þessari hugmynd hér á eftir. Vissulega ræddum við þennan möguleika, en töldum að nóg þætti komið af álögðum tekju- og eignarskatti og einkum með tilliti til þess, að hann hefði nýlega verið lækkaður. Töldum við varasamt að fara út á þessa braut, en vissulega hefur þessi leið ákveðna kosti.

Við nm. trúum því hins vegar statt og stöðugt, að hver skattskyldur einstaklingur í landinu sé tilbúinn að greiða þessar 100 kr. Við höfum von um að ná inn með ekki hærri nefskatti um 1 milljarði gkr. og teljum þeim svo sannarlega vel varið í hraðari úrbætur í húsnæðis- og byggingarmálum aldraðra.

Allir nm. lýstu stuðningi sínum við þetta fram komna frv. Hver nm. ræddi það í sínum þingflokki og allir virtust þeir vera jákvæðir gagnvart því að reyna að koma frv. fram á þessu þingi. Síðar mun ég gera grein fyrir nál. n. um hitt málið, sem er heilbrigðis- og vistunarþjónusta fyrir aldraða, og mun því ekki fara nánar út í það hér, en vil skora á hv. dm. að greiða fyrir þessu frv. svo að fljótlega sé hægt að gera það átak sem um munar í þessum vandasama málaflokki.