20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4731 í B-deild Alþingistíðinda. (4964)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Erindi mitt hingað í ræðustól nú er raunar tvíþætt. Í fyrsta lagi vil ég fara nokkrum orðum um þetta frv., sem hér er til umr., en í öðru lagi vil ég fara nokkrum orðum um málflutning hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur um að menn hér taki störf þingsins ekki alvarlega.

Ég vil fyrst segja það um það frv., sem hér liggur fyrir, að ég er hlynntur þeirri hugmynd sem felst í frv. sem slíku. En tekjuöflunarleiðinni er ég ekki hlynntur. Ég tel að flatur skattur af þessu tagi sé óeðlilegur og óheppilegur vegna þess að hann hitti þá fyrir sem kannske síst ættu skilið að fá skotin. Flatur skattur af þessu tagi hefur líka þá tilhneigingu að fara fram hjá vísitölu, og kannske er tilgangurinn með öllum leiknum að fara þá leið. Ég sakna þess líka mjög, að í þessu tilviki skuli hvorki fyrirtæki né félög vera skattlögð. Ég heyrði í fréttum í kvöld að það væri fjöldinn allur af félögum og fyrirtækjum á Íslandi sem enga tekjuskatta greiddu. Og ég man eftir því, að hæstv. núv. fjmrh. lýsti því yfir hér einu sinni glaðbeittur úr ræðustól að hann skyldi nú aldeilis koma böndum á þessi fyrirtæki, sem enga skatta greiddu, þegar hann yrði ráðh. Hann veifaði hér plaggi með nöfnum 1400 fyrirtækja sem enga skatta greiddu. Ég hef ekki orðið var við að hann hafi gert gangskör að því að leiðrétta þetta misrétti sem hann taldi svo mikið í þá tíð, þannig að það hefði nú ekkert skaðað að koma með einhverja skattlagningu í þá áttina.

Svo verður það auðvitað að segjast sem er, að skattlagning af þessu tagi er orðin afskaplega hvimleið. Ég held að það væri miklu eðlilegra að taka þessa fjármuni beint úr ríkissjóði en að vera að leggja á sérstakan skatt og væri þá ákveðið á fjárlögum hver sú upphæð ætti að vera.

En úr því að ég er kominn hér í ræðustól vil ég fara nokkrum orðum um það sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan. Hún lét það álit sitt í ljós, að þm. tækju störf þingsins ekki alvarlega. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Halldórs Blöndals og Matthíasar Bjarnasonar um að hv. stjórnarþm. sýna stjórnarandstöðunni ekki meiri virðingu en það, að þeir hika ekki við, ef persónulegar ástæður eru í húfi, eins og í tilteknu máli sem hér var rætt áðan, frv. um dýralækna, sem óskað var eftir afgreiðslu á; — ef einn þm. hæstv. ríkisstj. telur að það mál sé andstætt sínum hagsmunum, þá afgreiðir hann það með biðinni einni saman og væntir þess þá að það komi ekki upp fyrr en á næsta þingi. Þetta eru gersamlega ótæk vinnubrögð. Það var gengið frá þessu máli í landbn. Nd. Minnihlutaálit lagði ég fram í gær, og ég bjóst fastlega við að álit meiri hl. kæmi fram í gær, vegna þess að þetta mál var afgreitt með miklum velvilja og fullkomlega reiðilaust af beggja aðila hálfu.

Ég geri þá kröfu til stjórnarsinna, að um leið og þeir óska eftir að við stjórnarandstæðingar reynum að hraða málum í gegnum þingið núna á síðustu dögum þess sýni þeir okkur þá lágmarkskurteisi að láta ekki tilfinningar sjálfra sín ráða, hafi þeir á móti einhverju einu tilteknu máli, svo að það fái ekki þinglega meðferð af þeirri ástæðu einni. Þetta er óþolandi framkoma og verður auðvitað ekki liðið og býður upp á að stjórnarandstaðan tefji hér fyrir málum. Það hlýtur að gerast ef þetta verður uppi á teningnum áfram.

Það sem er ergilegast og leiðinlegast við þetta mál er að það var fullkomlega ástæðulaust að tefja það á þann hátt sem gert hefur verið. Það eru engin rök sem hníga til þess, að þetta mál skuli tafið, nema einhverjar persónulegar ástæður ákveðins þm. Það eru þessi atriði sem eru mjög verð þess að vera gagnrýnd. Vinnubrögð af þessu tagi eru gagnrýnisverð þegar um það hefur verið samið að reynt sé í sameiningu og með samvinnu að koma málum fram hér á þinginu. Ég segi fyrir mig að ég hef ekki mikla ástæðu til þess né mikinn áhuga á því að hjálpa til við framgang mála hér á þingi þegar menn haga sér á þennan hátt. Og ég er alveg sannfærður um að ef þessi vinnubrögð eiga að viðgangast hér, þessi hreina ókurteisi og dónaskapur sem mönnum er sýndur á þennan hátt, þá verður stjórnarandstaðan auðvitað að grípa til sinna ráða. Hún getur ekki tekið þessu með þegjandi þögninni. Það gengur ekki.

Ég skora á hv. stjórnarsinna að þeir sjái til þess, að svona nokkuð gerist ekki og þeir leiðrétti það, sem nú hefur gerst hér, þannig að það mál, sem um ræðir, frv. um dýralækna, komi hér á dagskrá hið allra fyrsta og fái þinglega meðferð eins og lofað hefur verið. Að öðrum kosti segi ég það fyrir mig, að ég tel enga ástæðu til þess að ég sitji hér og reyni með þeirri setu að flýta fyrir málum sem hæstv. ríkisstj. hefur áhuga á að koma hér í gegn, ef hún sýnir svo stjórnarandstöðunni þann dónaskap sem hún hefur nú gert. Ég skora á stjórnarsinna að sjá til þess, að svona lagað gerist ekki.