20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4735 í B-deild Alþingistíðinda. (4966)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. verði viðlátinn. (Gripið fram í.) Það væri mjög æskilegt að fá fram hvert væri viðhorf hæstv. félmrh. til þessa frv. Eins og mönnum er kunnugt fer hæstv. félmrh. með málefni vinnumarkaðarins og annast samskipti við stéttarfélögin fyrir hönd ríkissjóðs á hinum frjálsa vinnumarkaði.

Við munum eftir því í sambandi við setningu brbl. hinn 31. des. s. l. að þá var heitið af ríkisstj. að hún mundi beita sér fyrir því að lækka beina skatta um sem næmi 1.5% í kaupmætti. Hæstv. ríkisstj. átti síðan fundi með fulltrúum Alþýðusambands Íslands um þessi mál og fulltrúar Alþýðusambandsins mátu þær skattalækkanir sem þegar hafa verið samþykktar hér í Nd. Mér er satt að segja ekki kunnugt um hvort breytingarnar á tekju- og eignarskatti og sjúkratryggingagjaldi eru komnar í gegnum Ed., en þessi mál hafa verið afgreidd hér í Nd. Nú langar mig að varpa þeirri fsp. til hæstv. félmrh., hvort ekki hafi komið fram í viðræðunum við fulltrúa Alþýðusambands Íslands skuldbinding af hálfu ríkisstj. um að beinir skattar yrðu ekki hækkaðir með öðrum hætti til að ná upp þeim tekjumissi sem ríkissjóður varð fyrir með lækkun tekjuskattsins. Það er afskaplega þýðingarmikið að þetta komi fram. Eins og þetta frv. um framkvæmdasjóð aldraðra horfir við mér virðist mér sem verið sé að ganga á samkomulagið við stéttarfélögin um lækkun beinna skatta. Ég óska eftir upplýsingum um hvort um þetta hafi verið rætt við aðila vinnumarkaðarins, við fulltrúa Alþýðusambands Íslands, og hvort þeir líti svo á, að nefskattur af þessu tagi samrýmist því samkomulagi sem hæstv. ríkisstj. sagðist hafa náð við fulltrúa Alþýðusambandsins. Mér hefur að vísu ekki gefist kostur á að ræða þessi mál við fulltrúa Alþýðusambandsins í þingnefndum og formaður Verkamannasambands Íslands, sem sæti á hér í deild, hefur verið næsta þögull um þessi efni og til lítils að hlýða honum yfir gang mála.

Ég vil rifja það upp fyrir hv. þd., að stéttarfélögin eru nú að vinna að því að setja fram sína kröfugerð varðandi þá samninga sem nú á að fara að vinna að, en eins og mönnum er kunnugt um verða allir samningar lausir í síðasta lagi um næstu áramót, bæði hjá Alþýðusambandinu og hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ég reikna með því, að það muni ekki gera næstu samninga auðveldari ef verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir því að ekki hafi nýtt tungl runnið upp síðan skattar voru lækkaðir uns aðrir nýir voru lagðir á í staðinn. Ég ætla þess vegna að nauðsynlegt sé fyrir þd. að fá um það glöggar upplýsingar, hvernig verkalýðshreyfingin lítur á þessi mál, og vil óska eftir því við þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Ég vil leggja til að það sé fjh.- og viðskn., þar sem þetta frv. er flutt af heilbr.- og trn., en einn þáttur þess kemur inn á skattamál. Ég tel eðlilegt að fjh.- og viðskn. fái málið til umfjöllunar og mun gera að tillögu minni að málinu verði vísað þangað. Þá hygg ég að nauðsynlegt sé að nefndarmenn kveðji á sinn fund aðila vinnumarkaðarins og fái upplýsingar frá forustumönnum launþegasamtakanna um það, hvernig þeir líta á þessi mál. Ýmsir hafa spáð því, að mjög harðnandi átök séu fram undan á vinnumarkaðinum og ég býst ekki við að launþegar taki því þegjandi ef þannig á að fara ofan í vinstri vasann til þess að taka það burt sem hæstv. ríkisstj. þóttist hafa sett í þann hægri.

Hins vegar kann ég aðra lausn á þessu máli, sem er miklu nærtækari og skynsamlegri og þjónar þessu markmiði betur, og hún er einfaldlega fólgin í því, að við leggjum til hliðar 0.3% af tekjum ríkissjóðs og leggjum í framkvæmdasjóð aldraðra. Sú lausn mundi í fyrsta lagi hvetja hæstv. ríkisstj. til að sýna meira aðhald í ríkisrekstrinum, spara, og veitir nú ekki af, og í öðru lagi fullnægir sú lausn því, að staðið yrði við fyrirheitin við launþega a. m. k. að einhverju leyti. Ég vek athygli á því, að það gjald, sem gert er ráð fyrir að leggja á skattborgarana samkv. þessu frv., nemur um 1.5% af þeim tekjuskatti einstaklinga sem reiknast til beinna tekna þegar tekið hefur verið tillit til barnabóta og persónuafsláttar og greiðslu útsvars og sjúkratryggingagjalds. Svo hátt er nú þetta gjald í raun og veru vegna þess að greiðendurnir verða svo margir — og miklu fleiri en menn gera sér í rauninni grein fyrir fljótt á lítið.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil ekki tefja fyrir framgangi málsins hér á Alþingi og í samræmi við þinglegar venjur mun ég ekki flytja brtt. við 1. umr. málsins, en legg til að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn. til að athuga sérstaklega þann þátt frv. sem veit að skattalögum, athuga hvort sá þáttur samrýmist þeim loforðum og fyrirheitum sem fulltrúum stéttarfélaganna voru gefin í sambandi við brbl. 31. des. s. l. og kristölluðust í því, að menn voru sviptir 7% af launum sínum mánuði eftir á. Í marslok voru þeir sviptir marslaununum, og mér þykir satt að segja nóg að gert að því leyti. Ég bendi á að engin skattalækkun hefur enn komið mönnum til góða. Fyrirframgreiðslur eru óbreyttar eins og ákveðið hafði verið og engin miskunn hjá Magnúsi hvað það snertir. Kjaraskerðingin hefur því komið með fullum þunga á fólk og ég fullyrði það af viðtölum við einstaka trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar að þolinmæði þeirra er á þrotum, en á hinn bóginn þykir mönnum sem þessi ríkisstj. sé fullfrek til fjárins.

Ég vil beina því til fjh.- og viðskn. að hún athugi þetta, hvort ekki megi koma í staðinn fyrir 1. lið 2. gr. að í tekjur sjóðsins verði 0.30/00 af tekjum fjárlaga, og ef ríkisstj. þykist ekki hafa fullar heimildir fyrir sparnaði í ríkisrekstrinum mætti í ákvæði til bráðabirgða gera ráð fyrir að ráðh. væri heimilt að spara örlítið meira og ætti þó satt að segja að vera óþarfi að taka það fram. Ég á von á að hæstv. fjmrh. muni taka undir þau orð mín, að rétt sé að standa eins og hægt er við þau fyrirheit, sem verkalýðshreyfingunni hafa verið gefin, og ekki sé gengið lengra á þá samningsgerð en þegar er orðið.