20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4741 í B-deild Alþingistíðinda. (4970)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvort ég átti að taka hluta af ræðu hv. 3. þm. Reykv. svo að hann væri með bölbænir varðandi það gamalt fólk sem mér stendur næst, en orð hans féllu á þá lund að þau mætti skilja á þann veg. En ég vil reyna að skilja þau öðruvísi, þannig að hv. þm. hafi ekki fyllilega gert sér grein fyrir því hvað hann var að segja. Hitt ætla ég að segja honum og öðrum mönnum, að mér þykir enginn ofrausn felast í þessu frv. til gamals fólks í dvalarsjóð aldraðra og hefði fundist skemmtilegra að sjá að ríkisstj. hefði treyst sér til að leggja eitthvað fram úr ríkissjóði til þessa máls strax. Hún hefur á undanförnum vikum aflað sér ótal heimilda til margvíslegs sparnaðar í ríkisrekstrinum, og skemmtilegt hefði verið að sjá fylgja þessu frv. eða heyra í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh., sem einnig er félmrh., eitthvert yfirlit um þennan sparnað, hvernig hann gengi, og að þeir hefðu fundið eitthvert fé sem mætti leggja til hliðar handa öldruðum.

Ég man ekki betur en við afgreiðslu fjárlaga hafi verið skert fé til lamaðra og fatlaðra og í einu slíku máli, sem nafnakall var um, sat hv. 3. þm. Reykv. hjá. Það er skjalfest. Vil ég heldur skilja það þannig, að hann hafi ekki almennilega áttað sig á um hvað sú atkvgr. var, frekar en hitt, að honum sé illa við lamaða og fatlaða, enda kom það fram við 3. umr. málsins. Þá greiddi hann öðruvísi atkv. um sama mál og var þá sammála mér í það skiptið.

Hitt hygg ég að öllum mönnum sé ljóst, að þótt einhver maður sé andvígur því, að nýir skattar séu lagðir á, geta þeir á hinn bóginn ekki reiknað það svo, að þeim sé illa við gamalt fólk. Þvert á móti finnur ríkisstj. að hún hefur hundsað þennan málaflokk. Hún hefur á undanförnum árum ekki staðið nógu vel að byggingum fyrir aldraða, og svo þegar komið er fram á þessa vordaga og þörfin blasir hvarvetna við hrekkur hæstv. ríkisstj. í kút og býður mönnum að eitthvað skuli af hendi rakna, en með því skilyrði einu að Alþingi samþykki nýjan skatt. Þrátt fyrir að heildarskattheimtan hafi aldrei verið meiri en nú af þjóðartekjum er ekki hægt að sjá af litlum 10 millj. kr. í byggingarsjóð handa öldruðum án þess að leggja á nýjan skatt. Það var ég að segja áðan. Ég var að reyna að koma þeim mönnum, sem eiga sæti á Alþingi, í skilning um að sú upphæð, sem leggja á til aldraðra í 1. tölul. 2. gr. þessa frv., er ekki hærri en svo, að ríkisstj. hefði vel getað séð af þessum peningum með því að spara pínulítið nefndarstörfin, með því að greiða pínulítið minna verkfræðistofunum og öðru því sem púkkað er upp á núna í stjórnarráðinu og hvergi sparað til. Hvað skyldu þær vera margar verkfræðiskrifstofurnar sem hæstv. iðnrh. hefur ráðið til sín á fullum taxta? Hann greiðir eigendum þessara verkfræðistofa viðlíka laun og læknarnir fara nú fram á handa sjálfum sér, og gera læknarnir þó að því leyti betra starf að þeir reyna þó að vinna bug á sjúkdómum á meðan hinir gera ekki annað en að hlaða upp ónýtu pappírsrusli sem verður að vandamáli fyrir þá menn sem eiga að henda reiður á skjalasafni ríkisins.

Ég kann ekki við það í umr. um mál eins og þetta, þegar því er kastað framan í einstaka þm. að einhverjir þeirra séu þannig gerðir að það hlakki í þeim út af því að ellihrumleiki sæki suma menn heim og sum heimili líði undan þvílíku. Ég kann ekki við það. Mér finnst aðdróttun af því tagi vera af þvílíkum rótum að ég vil eiginlega halda mig í öðrum blómagarði, öðrum jurtagarði, en þar sem slík tré vaxa.

Ég efast ekki eitt andartak um að þegar hæstv. ráðherrar lögðu þennan nýja skatt til sáu þeir neyðina, fundu til sektartilfinningar af því að þeir höfðu staðið sig illa, en þeir bara tímdu ekki að sjá af eyri úr ríkissjóði. Þess vegna er það sem gegnir menn eins og hv. 1. þm. Vestf. fallast á að leysa vandann með nýjum skatti. — En ég segi: Ég óska eftir því, að fjh.- og viðskn. taki málið til meðferðar og hafi sömu viðmiðun og drýgst reyndist strjálbýlisfólkinu í sambandi við Byggðasjóðinn og taki viðmiðun af sjálfum fjárlögunum. Ég man eftir því þegar hv. 11. þm. Reykv. kom hér einu sinni inn sem varamaður meðan hann var framsóknarmaður eða samtakamaður kannske, — ég veit ekki hvar hann var, einhvers staðar á þessu vinstraróli, — og lagði þá til að 2% af fjárlögum skyldu renna í Byggðasjóð. Við þetta hefur ekki verið staðið. En samt sam áður munaði verulega um það. Fyrsta stórátakið, sem var gert fyrir byggðirnar, var þegar skattarnir af álverinu voru látnir renna í atvinnujöfnunarsjóð. Næsta stórátakið, sem gert var, var sóknin fyrir að 2% af ríkistekjunum væru látnar renna í Byggðasjóðinn.

Það, sem ég fer fram á, er að framlag ríkisins í Byggingarsjóð aldraðra verði bundið við fjárlögin sjálf, verði ákveðið hlutfall af tekjum ríkissjóðs, og mér finnst of lítið 1 milljarður gamall — litlar 10 milljónir kr. Ég fer fram á að þetta verði hækkað a. m. k. um helming og sagði það í fyrri ræðu minni. Ef menn vilja túlka þau orð þannig, að ég sé móti því, að komið sé til hjálpar við gamalt fólk, þá er það hreinn útúrsnúningur og mönnum ekki sæmandi. (Fjmrh.: Þm. á að vita að það er búið að afgreiða fjárlög.) Er búið að afgreiða fjárlög? Er nú hæstv. fjmrh. að vakna upp við það? Hve er langt síðan hæstv. fjmrh. afgreiddi síðustu skattalögin sem komu inn í fjárlögin? Er það allt búið — eða hvenær gerðist það? Í gær? Hvenær ætli tekju- og eignarskattslögin hafi verið afgreidd í Ed.? Það er ekki afskaplega langt síðan. En ég skil að hæstv. fjmrh. skuli nú skýra frá því, að fjárlögin séu loksins búin. Það er ekki seinna vænna, held ég. (Fjmrh.: Það var um jólin). Var það um jólin? Ekki var nú búið að ganga frá tekjuskattslögunum þá.

Ég er að tala um fjáröflunarhlið þessa frv. núna. Hæstv. fjmrh. sá ekki ástæðu til að svara því hér áðan, en ég sé að þarna er formaður Verkamannasambands Íslands: Var ekki út frá því gengið í sambandi við lækkun skattalaganna í sambandi við kaupskerðinguna 1. mars að nýir skattar yrðu ekki á lagðir? Var það ekki ein af forsendum fyrir því, hvað verkalýðshreyfingin hafði lágt 1. mars, ein af meginforsendunum fyrir því, að formaður Verkamannasambands Íslands bað ekki um að tala 1. maí á Lækjartorgi? Ég er hræddur um að lægst launaða fólkið, — og ég er með fyrir framan mig viðtal við ótal menn, lægst launaða fólkið, sem talað var við 1. maí s. l., — að þetta fólk sé ekki að tala um hvað kjörin hafi batnað, hvað ríkisstjórn sósíalisma og samvinnuhreyfingar hafi rétt þeim margan góðan feitan kjötbitann. Þorsteinn matgoggur mundi ekki hafa strokið á sér vömbina út af þeim skammti sem hann fengi hjá þessari ríkisstjórn. Þetta fólk talar um að það sé ekki að marka fyrirheit alþm. eða ríkisstjórna — þeir lofi og lofi, en standi ekki við neitt, það sé samið um ákveðin laun, en á þriggja mánaða fresti séu launþegar sviptir svo og svo miklu af þessum bita. (GJG: En þó styðja þeir stjórnina upp á líf og dauða.) Sérstaklega í skoðanakönnunum Dagblaðsins. Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. að fólk styðji áfram þessa ríkisstj., en ekki breytir það samt löngun minni til þess að reynt verði að sporna gegn því að nýir skattar verði á lagðir.

Ég vil líka vekja athygli á því, að í frvgr, sjálfri um Byggingarsjóð aldraðra, eins og hér er fjallað um hann, er þannig gengið frá verðtryggingunni að sýnilegt er að þar var ekki verið að velja það tryggilegasta. Þar er gert ráð fyrir að upphæðin hækki miðað við skattgjaldsvísitölu. Við vitum allir hvernig hún var meðhöndluð við síðustu fjárlög. Miklu eðlilegra væri að miða þó þennan nefskatt, ef menn vilja ekki vera rausnarlegri en þetta, við byggingarvísitölu þar sem þessir fjármunir munu eiga að renna til að standa undir byggingarkostnaði. Ef þessi tala hefur verið hugsuð svona, þessar 100 kr. á mann, og á bak við það stendur einhver skipulögð áætlun, verðum við að sjálfsögðu að láta þessar upphæðir vera í samræmi við hækkaðan byggingarkostnað.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að fjölyrða meir við 1. umr. málsins en orðið er. Enginn skilji orð mín svo, að ég haldi að verkalýðshreyfingin eða launþegar muni gripa til einhverra óyndisúrræða þótt þessum nefskatti verði bætt ofan á. En hitt vitum við, að þegar kröfugerðin verður endanlega lögð fram hljóta menn að gera upp við sig hvernig staðan er, undir hverju launin standa. Ég óttast að eftir hálft ár verði gleymt að hluti af þessari kaupskerðingu hefur verið í þessum tilgangi. Þá verður það gleymt. Eftir stendur skertur kaupmáttur ráðstöfunartekna. Og ef menn ætla að reyna með einhverjum hætti að hindra enn nýja kollsteypu of mikilla peningahækkana ættu menn núna að reyna önnur ráð en þau að skerða enn tekjurnar þó í litlu sé, ofan á alla þá kjaraskerðingu sem orðið hefur í vetur. Og eins og ég sagði áðan: Ríkissjóður tekur meira nú miðað við þjóðartekjur en nokkru sinni fyrr.

Í þjóðhagsáætlun sem fyrir liggur, lesum við að það hefur orðið samdráttur á mann í þjóðartekjum. M. ö. o.: Hver einasti einstaklingur hefur minna til skipta en áður nema fölskum kaupmætti sé haldið uppi með erlendum lántökum. Þegar þannig stendur á er ekki óeðlilegt að ríkissjóður taki á sig einhverjar byrðar í sambandi við þennan byggingarsjóð. Miklu fúsari yrði ég til að greiða atkvæði með þessum nýja nefskatti ef hæstv. ríkisstj. gæti á það fallist að láta af hendi rakna þó ekki væri nema helming þess sem skatturinn gefur af sér, þó ekki væru nema 50 aurar á móti hverri krónu sem þannig á að innheimta af þegnunum. Miklu væri það geðfelldara og hlýtur raunar að koma til athugunar í fjh.- og viðskn. og mundi líka á sinn hátt vera nokkur réttlæting gagnvart launþegum þegar með þessum hætti er kippt til baka hluta af þeirri skattalækkun sem lofað er.

Hæstv. heilbrmrh. reyndi að stilla málinu þannig upp, að einhverjir einstakir þm. væru að spilla fyrir hinu gamla fólki. Ég man ekki hvort það var hann sem komst svo að orði, að hann tryði því að hver skattþegn væri reiðubúinn að leggja þetta af mörkum. Vissulega eru menn reiðubúnir að leggja af mörkum ef þeir vita og sjá að það hefur einhvern tilgang. Vissulega mundu menn sætta sig betur við skattbyrðina en þeir gera ef þeir hefðu sannfæringu fyrir því, að ríkisstj. stefndi í rétta átt. Vissulega mundu menn una betur kjaraskerðingunni ef þeir hefðu einhvern smávonarneista einhvers staðar inni í brjóstinu á sér um að nýja krónan væri meira virði en sú gamla. En þetta er ekki tilfellið. Við horfum upp á það, að þessi nýi gjaldmiðill er að engu gerður. Og þar er ábyrgð þessarar ríkisstj. mest og mistök hennar verst að henni hefur mistekist að vekja trú manna á gjaldmiðlinum. Launþegarnir voru reiðubúnir að leggja mikið á sig til þess að einhverjum fótum yrði komið undir nýja stefnu í efnahagsmálum, einhverri viðspyrnu yrði komið við.

Hæstv. iðnrh. hefur nú séð um það, að lífskjörin batna ekki á næstu árum vegna uppbyggingar í stóriðjumálum eða með hagkvæmum orkuframkvæmdum svo ekki geta menn vænst þess, að kaupmátturinn fari batnandi af þeim sökum. Og hæstv. landbrh. kvartar undan því, að sér hafi ekki þótt skemmtilegt verk að brjóta niður hjá íslensum bændum þann árangur sem unnist hefur á síðustu árum. Er það raunar skiljanlegt vegna þess að þau gífurlegu áföll, sem orðið hafa í landbúnaðinum og vegna vondrar stjórnar þar einnig, valda því, að mjög þröngt er nú hjá mörgum bóndanum. Þannig mætti lengi telja og skal ég ekki gera það frekar, en það skulu verða mín lokaorð.

Við hikum ekki við það, þm. Norðurl. e., í sambandi við fjárlög að eggja hæstv. ríkisstj. lögeggjan að hún stæði við þau loforð sem fyrir löngu höfðu verið gefin um uppbyggingu sjúkrahússins á Akureyri, en umbætur í þeim málum eru forsenda þess, að viðhlítandi sé hægt að búa að gömlu fólki norður þar. Við höfum ekki talið eftir okkur endranær að reyna að standa á bak við það að hægt sé að búa betur að elliheimilunum. Hálfköruð standa þau nú víða um land og menn sjá ekki fram úr því, hvernig þeir eigi að ljúka þeim. 10 millj. kr. ráða því engum úrslitum í þeim efnum.

Ég er þess vegna mjög fýsandi þess, að fyrir þessu máli verði greitt, og eins og ég sagði áðan: Ég legg höfuðáherslu á að framlagið verði fast hlutfall af fjárlögum. Ef ekki verður hægt að fallast á það er lágmarkskrafa Alþingis að ríkisstj. sjái af þó ekki væri nema litlum 5 millj. kr. til þessa sjóðs þegar hann er stofnaður. Hlýt ég að leggja fram um það brtt. þegar ég reyni til þrautar að vinna að því að auknar fjárveitingar renni til aldraðra.