20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4748 í B-deild Alþingistíðinda. (4974)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu búið að tala nóg um þetta mál, en ég get nú ekki stillt mig um að bæta örlitlu við.

Ég vil segja það, að við 1. umr. um frv. um heilbrigðisog vistunarþjónustu fyrir aldraða lýsti ég efasemdum um að það frv. gæti náð fram að ganga á þessu þingi vegna ýmissa ágalla sem á því voru. Þar á ég fyrst og fremst við félagslega þáttinn, sem var mjög vanmetinn í frv. Það hefur komið á daginn að hv. heilbr.- og trn. hefur komist að sömu niðurstöðu og er það vel.

Það kom einnig fram í ádeilu á frv., þegar það var hér til 1. umr., að fjáröflunarþáttur þess var alls ekki raunhæfur. Þetta hefur einnig verið staðfest hér. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég er ekki ýkjahrifinn af þeirri fjáröflun sem er lögð til í 2. gr., þó ég hins vegar viðurkenni að allt er betra en að gera ekki neitt í þessum efnum. Ég hefði talið eðlilegri leið að fara eins að við þennan sjóð og farið var að í sambandi við stofnun Framkvæmdasjóðs þroskaheftra, að ákveða lágmarksfjárhæð sem síðan fylgdi verðlagsþróun frá ári til árs með beinu framlagi á fjárlögum hvers árs. Það hefði verið miklu eðlilegri og viðkunnanlegri fjáröflunarleið. Þessi sjóður, sem stofnaður var, Framkvæmdasjóður þroskaheftra, var myndaður með 1 milljarði gkr. og hann mun verða á næsta ári á fjórða milljarð.

En látum það vera. Það er ekki tími til að breyta þessu nú.

Ég vil þó benda á að það koma vissulega aðrar fjáröflunarleiðir til greina í þessu mikilvæga máli. Til dæmis tel ég ekki óeðlilegt að lífeyrissjóðirnir komi þarna inn. Það hefur verið rætt um gildi lífeyrissjóða í þessu landi, og lífeyrissjóðirnir eiga auðvitað að hafa það hlutverk að tryggja öryggi þeirra sem eldast. Þeir eru til þess. Þeir eru tryggingasjóðir gamals fólks. Ég teldi vel koma til greina í framhaldi þessa máls að athuga vandlega hvort ekki er hægt að nýta að einhverju leyti lífeyrissjóðina til að efla þennan þátt framkvæmda.

Ég get ekki látið hjá líða að benda hv. 7 landsk. þm. á það, að vissulega hefur margt verið gert í sambandi við þessi mál. Ég tel að það hafi verið spor aftur á bak á sínum tíma, 1976, þegar ákveðið var hér á hv. Alþingi að bygging elliheimila færðist frá ríkinu til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin höfðu ekki tekjustofna til að sinna þessu verkefni eins og þörf er á. Þannig hefur myndast viss eyða undanfarin ár í þessum málum miðað við aðrar framkvæmdir á félagslegu sviði í landinu. Þetta held ég að mönnum sé ljóst. Og það er vissulega ástæða til að minna á það, að með setningu nýrra húsnæðislaga á s. l. ári var aðgangur að fjármagni opnaður til byggingar húsnæðis fyrir aldraða, þó að vissulega sé það aðeins lítið brot miðað við þörfina. En við megum ekki heldur algjörlega gleyma að nefna það sem vel er gert, og þarna er vissulega stefnt í rétta átt.

Ég skal ekki taka meiri tíma hér í þessum umr., en vil þó segja að það, sem skiptir öllu máli í mínum huga í sambandi við það verkefni sem við erum vonandi allir þm. sammála um að sé eitt af meiri háttar félagslegum vandamálum í okkar þjóðfélagi, er að finna fjármagn til að hrinda þessum málum til betri vegar. Ósk mín er sú, hv. alþm., að við berum gæfu til að taka höndum saman til að finna viðunandi lausn á þessu mikilvæga máli. Við hljótum að vera sammála um þörfina. Ég tel að við eigum að sameinast um að koma þessu frv. fram. En það er aðeins lítið skref. Við þurfum að setja heildarlöggjöf um þetta málefni á næsta Alþingi og umfram allt að finna raunhæfar leiðir til þess að hægt sé að taka myndarlega á við að byggja upp þá starfsemi sem vissulega er alls staðar brýn, hvar sem við förum um landið, til þess að tryggja öldruðu fólki sómasamlegt húsnæði og umfram allt tryggja að fólk geti búið við öryggi í þessum málum í framtíðinni.