20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4751 í B-deild Alþingistíðinda. (4979)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég svara spurningu, sem til mín hefur verið beint, og hún er frá Karvel Pálmasyni, hvers vegna félög eigi ekki samkvæmt fram lögðu frv. að greiða sama skatt og einstaklingar. Ég sé enga ástæðu til þess að félög greiði ekki líka. Ég er bara ekki í þeirri n. sem leggur þetta til. En ég styð þetta frv. eins og það kemur fram.

Nú skilst mér að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. Ég á þar sæti. Ef þar liggur fyrir brtt. um að félög greiði líka þessar 100 kr., nefskatt sem kallað er, skal ég sannarlega styðja hana.

Ég vona að hv. þm. 6. landsk. þm. geti verið sammála mér um það, að enginn okkar er kosinn á þing af stofnunum eða fyrirtækjum. Ég er ekki þm. hér sem fulltrúi fyrirtækja. Ég er ekki kosinn af neinu fyrirtæki. Ég hugsa að ég hafi miklu meira af einstaklingum bak við mig til setu á Alþingi en hv. þm.

Hvað varðar þá till. — ég bið forseta að afsaka — sem ég lagði fram í borgarstjórn og hér hefur verið vísað til, um 10% af innheimtum útsvörum, sem var lækkað af einum stjórnmálaflokki, sem á aðild í borgarstjórn, niður í 7,5%, þá var sú till. fyrst gerð við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar, en ekki eftir að fjárhagsáætlun hafði verið afgreidd. Nú hafa fjárlög verið afgreidd frá þessu þingi þannig að sú till. er a. m. k. tímaskekkja eins og hún er lögð fram.