20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4751 í B-deild Alþingistíðinda. (4980)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af síðustu ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar um að engin till. væri um að láta félög borga vil ég aðeins upplýsa hv. þm. um það, að þskj., sem brtt. er flutt á af hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, er einmitt um að láta félög borga. Það er sú till. sem hv. þm. lýsti sig andvígan áðan og ætlaði að greiða atkv. gegn. Þetta er því ekki svar við minni fyrirspurn. Vegna hvers er hv. þm. Albert Guðmundsson andvígur því að láta félög og fyrirtæki borga til þessa uppbyggingarstarfs? Þeirri spurningu hefur hann enn þá látið ósvarað. Ég tel ekki svar þó hann lýsi því yfir, að komi fram brtt. í fjh.- og viðskn., þar sem hann á sjálfur sæti, muni hann styðja málið. Hv. þm. getur sjálfur sem nm. flutt þá till. þar, sé honum umhugað um að allir, sem á annað borð hafa tekjur taki þátt í þessu uppbyggingarstarfi, eins og hann sagði áðan. Þess vegna skora ég á hv. þm. Albert Guðmundsson að endurskoða þá afstöðu sína að greiða atkv. gegn því, að félög og fyrirtæki borgi líka í þennan sjóð. Um leið og verið er að skattleggja einstaklinga til þess máls, sem ég er ekki að tala gegn, er líka þörf á að láta alla taka þátt í þessu uppbyggingarstarfi og borga til þessa. Félög og fyrirtæki eru ekkert of góð til þess frekar en einstaklingar, láglaunafólk í landinu, að borga til þess. Það er það sem þetta mál snýst um. Hver er afstaða Alberts Guðmundssonar um það? Vill hann bara skattleggja einstaklingana, sleppa félögum og fyrirtækjum? Það hefur hann sagt hér með því að lýsa yfir að hann greiði atkv. gegn þessari brtt.