20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4752 í B-deild Alþingistíðinda. (4984)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma í þessari umr., en þar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, nm. í fjh.- og viðskn. deildarinnar, er fjarverandi vil ég með örfáum orðum ræða um afstöðu hans og nál. sem hann hefur skilað.

Eins og hv. frsm. 1. minni hl., Halldór Ásgrímsson, sagði áðan, er hér um að ræða staðfestingu á brbl. sem sett voru vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna á s. l. hausti. Það er auðvitað athyglisvert að við erum hér að ræða 38. mál deildarinnar. Það er búið að vera hér frá í haust snemma. Svo ætlast hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðherrar til þess, að deildin afgreiði á örfáum dögum heila doðranta af stórum frv. og miklum sem þarfnast ekki bara vikna, heldur kannske mánaðaskoðunar. Þetta er enn eitt dæmið um það, með hversu miklum ólíkindum hér er staðið að verki og vinnubrögðum á hv. Alþingi. Eins og margoft hefur verið tekið fram áður á það ekki bara við um núv. hæstv. ríkisstj., þó að kannske sé það með því verra eins og það er nú.

Þetta frv. er um breytingu á lögum um kjarasamninga BSRB og það er 1. gr. frv. sem fyrst og fremst hefur orðið þess valdandi, að ágreiningur ærið mikill hefur orðið um málið. Með 1. gr., eins og hún er í frv., er að mínu áliti og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem stendur að nál., verið að lögfesta landvinninga til handa BSRB og ráðast inn á verksvið Alþýðusambandsins. Það er öllum hv. þingmönnum væntanlega ljóst, að það er ríkjandi, ef svo má orða það, landamerkjadeila og hefur verið milli BSRB og ASÍ. Það er ekkert launungarmál. Það er væntanlega öllum ljóst og um það hefur verið allharkalega deilt. Ég veit ekki annað en forustumenn Alþýðusambandsins séu allir sammála um að það er af hinu verra hversu forusta BSRB hefur lagt sig í framkróka um að framkvæma þá stefnu sem ég tel landvinningastefnu af hálfu BSRB gagnvart ASÍ. Eins og hér hefur komið fram skilja a. m. k. fulltrúar BSRB þetta frv. til staðfestingar á brbl. svo, að þeim hafi verið lofað að lögfesta ekki bara óbreytt fyrirkomulag eða óbreytta stöðu, status quo, í þessu máli, heldur og að BSRB fengi enn meiri ítök á samningssviði og verksviði ASÍ. Ég er ekkert hissa á því að þetta sé skilningur BSRB, því að 1. gr. staðfestir þetta og þetta er það loforð sem BSRB hermir nú upp á hæstv. fjmrh.

En þetta snýr ekki bara að BSRB. Það er ekki eingöngu um að ræða loforð gagnvart því. Í samningunum við ASÍ á s. l. hausti gaf hæstv. fjmrh. einnig yfirlýsingu sem er að efnisinnihaldi svo til nákvæmlega um hið sama, nema hún snýr að ASÍ. Má því segja að hér sé verið að selja tveimur aðilum sama pakkann. Þetta er alveg ótvírætt. Ég held það sé rétt — það tekur ekki langan tíma — að lesa í samhengi 1. gr. laganna um kjarasamninga BSRB eins og hún er og lesa síðan það sem lagt er til í frv. að við hana bætist. Með leyfi forseta eru lögin svohljóðandi:

„Lög þessi taka til allra starfsmanna sem eru félagar í BSRB eða félagi innan vébanda þess og skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.“

Síðan er 1. gr. frv. þar sem lagt er til að við 1. gr. laganna bætist:

„Lögin skulu með þeim hætti einnig raka til starfsmanna sjálfseignarstofnana, sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum, til stofnana sem eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði eða af daggjöldum, og til sameignarstofnana ríkis og sveitarfélaga, enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.“

Ég hygg að ef menn lesa þetta í samhengi blandist engum hugur um að hér er verið að víkka valdsvið og verksvið BSRB, ef lagagreinin verður samþykkt eins og frv. gerir ráð fyrir, og það er það sem BSRB krefst. Ég hygg að menn hafi orðið varir við það nú, bæði í gær og raunar líka í dag, að forsvarsmenn BSRB hafa verið æðitíðir gestir hér í þinghúsinu til að knýja á við hæstv. fjmrh. að hann standi við þetta gefna fyrirheit. Það mun einnig hafa komið fram á fundum fjh.- og viðskn. frá þessum sömu aðilum.

Sú yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. undirritaði 31. okt. 1980, þegar verið var að ganga frá samningum ASÍ, er svohljóðandi: „Í framhaldi af viðræðum við fulltrúa ríkisstj. og ASÍ gefur fjmrn. út eftirfarandi yfirlýsingu:

Félagar innan ASÍ eða sérsambanda þess njóta forgangsréttar til allra þeirra starfa sem nú eru samningsbundin við ASI. Ekki verða gerðir samningar við aðra aðila um þau störf sem félagsmenn ASÍ starfa nú við.

Þetta tekur til starfa á vegum ríkisins, stofnana þess og fyrirtækja.“

Getur nokkrum blandast hugur um að hér er verið að lofa tveimur aðilum svo til hinum sama pakka, sem auðvitað getur ekki átt nema við annan aðilann? Það er alveg augljóst að af Alþýðusambandsins hálfu er fullkomlega haldið við það, að hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. standi við þetta gefna fyrirheit til handa Alþýðusambandinu. Hér er því um það að ræða að menn verða að velja eða hafna. Þetta gengur ekki upp samkv. 1. gr. frv., eins og hæstv. fjmrh. leggur til að það verði, og samkvæmt yfirlýsingunni. Það getur ekki staðist. (Fjmrh: Hvers vegna ekki?) Ja, hvers vegna er þá til komin sú yfirlýsing frá fjmrh. sem birt er sem fskj. með nál.? Hvers vegna er sú yfirlýsing komin ef það er alveg ótvírætt annars vegar í yfirlýsingu til Alþýðusambandsins og hins vegar í 1 gr. frv.? Sú yfirlýsing er um það, þótt furðulegt sé, að það eigi ekki að skilja 1. gr. frv. ríkisstj. eins og hún er í frv., það eigi að skilja hana á allt annan hátt en greinin bendir til. Þetta hljómar auðvitað afskaplega furðulega í eyrum manna, en yfirlýsingin er um það.

Ef það er meining manna að greinina eigi að skilja eins og síðasta útgáfa af yfirlýsingu hæstv. fjmrh. er, þá á auðvitað að setja það inn í lagagreinina því það dettur engum í hug að einföld yfirlýsing frá hæstv, fjmrh. taki af lagaákvæðið eins og það yrði ef 1. gr. frv. yrði samþykkt eins og hún er. Auðvitað mundi lagatextinn gilda.

Vilji menn — ég tala nú ekki um hæstv. fjmrh. — að greinin sé skilin á allt annan hátt en hún er prentuð í frv., þá er miklu æskilegra og raunar nauðsynlegra að setja yfirlýsinguna inn í lagatextann. Þá orkar ekki tvímælis með hvaða hætti beri að skilja greinina.

Mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. fjmrh. færi að gefa út yfirlýsingu af þessu tagi, hvernig beri að skilja ákveðna lagagrein í frv., ef hann teldi að það væri ótvírætt hvernig greinin væri og hvernig ætti að skilja hana. Þá sé ég ekki að þyrfti að hafa slíka yfirlýsingu með í málinu.

Hér er enn einu sinni um það að ræða að hæstv. ríkisstj. hafur lofað tveimur aðilum sama pakkanum. Hæstv. fjmrh. hangir nú í þeirri hengingaról eigin loforða að hann verður að gera það upp við sig, við hvort loforðið hann ætlar að standa. Það fer ekkert milli mála að það er afstaða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í fjh.- og viðskn. að það eigi að standa við loforðið sem gefið var ASÍ. Það er einnig furðulegt, sem þó raunar virðist satt, að þessar yfirlýsingar hefur hæstv. fjmrh. gefið án þess að hvor aðili um sig vissi af hinni. Það er enn furðulegra, en kannske hefur það verið gert í þeirri einföldu trú að ekki kæmust upp svik um síðir. En það er nú einu sinni svo, að það upplýsist alltaf um mál sem þessi. Það er ekki hægt og verður ekki hægt að afgreiða þetta mál á þann hátt, að við báðar þessar yfirlýsingar sé hægt að standa gagnvart aðilunum, enda er staðreyndin sú, að forustumenn BSRB eru óðir og uppvægir vegna þessarar síðustu yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Af hverju? Af því að þeir telja að hæstv. fjmrh. sé með þessari síðustu yfirlýsingu að svíkja gefin fyrirheit gagnvart BSRB. Svo einfalt er málið.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða meiri tíma, nema þá að gefnu tilefni. Það er sem sagt till. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. að 1. gr. frv. verði felld og með því verði staðið við það fyrirheit sem hæstv. fjmrh. — ég vona í nafni hæstv. ríkisstj. — gaf ASÍ og var hluti af þeirri lausn á kjaradeilunni sem gerð var í okt s. l. Hér er einfaldlega spurningin: Á að standa við loforðið gagnvart Alþýðusambandinu eða gagnvart BSRB? Það verður ekki gert við báða aðila eins og málið liggur fyrir. Menn verða því að velja og hafna.