20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4755 í B-deild Alþingistíðinda. (4985)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er ákaflega átakanlegt þegar menn taka að sér að flytja ræðu um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér og ekki haft tíma til að setja sig inn í. Það var greinilegt á hv. þm. Karvel Pálmasyni, sem mælti hér fyrir nál. fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn., að hann hafði ekki gert mikla tilraun til að kynna sér um hvað þetta mál snýst. Þegar hann var spurður að því, með hvaða hætti yfirlýsing mín til ASÍ stangaðist á við þann texta, sem í 1. gr. frv. felst, gat hann ekki svarað. Hann spurði bara á móti: Hvers vegna var þá verið að gefa þessa yfirlýsingu? Það var greinilegt, að hann tiplaði á yfirborði málsins án þess að gera minnstu tilraun til að kynna sér hvert væri inntak þess. Ég sé mig því neyddan til að fara nokkrum frekari orðum um þetta mál, sem ekki er neitt stórmál í sjálfu sér, vegna þess misskilnings sem greinilega ríkir um það.

Eins og mörgum hv. þm er kunnugt er talsvert um hálfopinberar stofnanir hér á landi sem eru reknar með framlögum úr ríkissjóði að meira eða minna leyti eða samkvæmt lögum sem fela í sér gjaldtöku hjá þegnum landsins og þjóðin stendur því raunverulega bak við fjárhag þessara stofnana. Sem dæmi um stofnanir af þessu tagi mætti t. d. nefna Brunabótafélag Íslands eða Krabbameinsfélag Íslands eða Landakotsspítalann eða Heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins eða Norrænu eldfjallastöðina eða Norræna húsið eða ýmis dvalarheimili aldraðra eða t. d. Grænmetisverslun landbúnaðarins. Allt eru þetta hálfopinberar stofnanir. Það er mesti misskilningur ef menn ímynda sér að fólk, sem starfar við þessar stofnanir, sé alfarið í einu verkalýðsfélagi eða semji við einn aðila eða hljóti að gera það. Málið er ekki svona einfalt. Þetta fólk hefur verið í mörgum verkalýðsfélögum. Sumir starfsmenn þessara stofnana hafa verið félagar í BSRB meðan aðrir hafa verið félagar í hinum ýmsu verkalýðssamtökum. Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. þm. og er ekki nein ástæða til að draga neina dul á það, að það hefur verið viss landamæradeila milli Alþýðusambandsfélaganna annars vegar og BSRB hins vegar m. a. um starfsvettvang hjá þessum hálfopinberu fyrirtækjum og báðir aðilar hafa óneitanlega verið nokkuð á varðbergi svo að ekki væri gengið á hlut þeirra.

Ég ætla ekki að lýsa nánar þessari landamæradeilu og síst af öllu ætla ég að fara að skera úr um hvort annar aðilinn eigi þar sök eða ekki, enda segir það sig sjálft, að fjmrn., sem er samningsaðili gagnvart báðum þessum aðilum, er auðvitað engan veginn í stakk búið til að fara að styðja eða styrkja annan hvorn þessara aðila með gerðum sínum og verður að vera sem hlutlausast gagnvart þessum samningsaðilum eða viðsemjendum. Þegar samningar fóru fram við BSRB á s. l. sumri var það að sjálfsögðu staðfastur ásetningur fjmrn. að hlutast ekki á nokkurn hátt til um þessi hugsanlegu deiluefni Alþýðusambandsfélaga annars vegar og BSRB hins vegar, heldur ganga þann veg frá málum að af hálfu fjmrn. væri um að ræða óbreytt ástand í þessum efnum.

Hins vegar er ljóst, að að svo miklu leyti sem um er að ræða starfsmenn BSRB hefur það verið ósk BSRB að sá hluti þessara starfsmanna hjá þessum fyrirtækjum, sem væri félagsmenn hjá þeim, fengi atkvæðisrétt þegar greitt er atkvæði um aðalkjarasamning, t. d. ef sáttatillaga kemur fram. Afstaða fjmrn. var hins vegar sú, að ef ætlunin væri að þeir félagsmenn BSRB, sem eru starfsmenn hjá þessum stofnunum, fengju atkvæðisrétt um aðalkjarasamning við fjmrh., þá yrðu þessar stofnanir að sjálfsögðu að fela fjmrh. að semja fyrir sig, enda fjalla lögin um kjarasamninga BSRB ekki um samninga annarra aðila en annars vegar ríkisins við BSRB og hins vegar bæjar- og sveitarfélaga við BSRB og svo raunar í þriðja lagi nú nýverið ákveðið af Alþingi um samninga Alþingis og forseta Alþingis við félagsmenn BSRB.

Ef lögin eiga að taka til starfsmanna hjá þessum stofnunum með þeim hætti, að ákvæði um atkvæðagreiðslur og önnur ákvæði kjarasamningalaganna taki til þessa fólks, verður það auðvitað að vera á báðum hliðum, bæði starfsmanna megin og ríkisins megin, og þess vegna var þannig til orða tekið í 1. gr. þessara brbl., með leyfi forseta: „Lögin skulu með þeim hætti einnig taka til starfsmanna sjálfseignarstofnana“ o. s. frv., „enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.“

Forsvarsmenn eða stjórnendur þessara stofnana yrðu sem sagt að gera það upp við sig, hvort þeir vildu hafa áfram gamla lagið og semja við þessa BSRB-menn, og þá þýðir það algjörlega óbreytt ástand frá því sem verið hefur, að þeir gera samninga við þessa starfsmenn eftir að fjmrh. hefur gert samning við BSRB, og þá er venjulega samningurinn við BSRB tekinn upp í heilu lagi óbreyttur, eða þá að gera hitt, að afhenda fjmrn. samningsumboð sitt þannig að samningur við þessa félagsmenn væri gerður á sama augnabliki og samningur við aðra félagsmenn BSRB. Þeir gætu þá tekið þátt í atkvæðagreiðslunni sjálfir.

Það var hins vegar aldrei hugsun fjmrn. að BSRB fengi með þessari lagagrein nokkur ný réttindi á starfsvettvangi ASÍ eða að þetta ákvæði skapaði BSRB aukinn rétt á kostnað ASÍ. Það datt okkur ekki í hug og hefði aldrei hvarflað að okkur að gera slíkan samning eða setja slíkt inn í samning.

Það er rétt að upplýsa hér, að í viðræðum við BSRB var okkur tjáð að þetta væri líka stefna BSRB. Þannig skrifa forustumenn BSRB bréf til ASÍ 9. júní s. l. þar sem segir:

„Sem svar við bréfi ASÍ, dags. í dag, skal tekið fram, að BSRB hefur hvorki skriflega né munnlega sett fram þá kröfu, að félagsmenn innan verkalýðsfélaga í ASÍ verði félagsmenn í aðildarfélögum BSRB.“

Í viðræðum hafa fulltrúar BSRB tekið fram að þeir telji sjálfsagt að hugsanleg ágreiningsefni um félagsaðild verði afgreidd með samkomulagi á milli stéttarfélaga og heildarsamtaka.

Sama dag sendum við ASÍ bréf þar sem við vísum til þessa bréfs BSRB. Hér er sem sagt staðfest að þessi lagagrein var ekki til þess fallin að útvega BSRB einhvern nýjan rétt á kostnað Alþýðusambandsins. Það var ekki verið að selja neinn pakka, eins og hv. þm. komst svo smekklega að orði áðan um þetta mál, og því er ekki um það að ræða að neinn pakki hafi verið seldur tvisvar.

Hér var ekki verið að reyna að auka réttindi BSRB á kostnað Alþýðusambandsins. Það stóð aldrei til og það datt engum í hug, hvorki fulltrúum ríkisvaldsins, sem í þessum samningum stóðu, né fulltrúum BSRB, eftir þeirra eigin yfirlýsingu a. m. k., sem hér hefur verið lesin, að dæma.

Í kjarasamningum, sem síðar fóru fram og ASÍ tók þátt í, kom þetta mál á dagskrá, og þá var að því spurt, hver væri hugsun ríkisins á bak við þetta ákvæði. Það er í framhaldi af þeim viðræðum að við gáfum út yfirlýsingu þess efnis sem ég hef nú gert grein fyrir, eins og segir í bréfinu til ASÍ, með leyfi forseta:

„Félagar innan ASÍ eða sérsambanda þess njóta forgangsréttar til allra þeirra starfa sem nú eru samningsbundin við ASÍ. Ekki verða gerðir samningar við aðra aðila um þau störf sem félagsmenn ASÍ starfa nú við.“

Þetta er í fullkomnu samræmi við tilgang lagaákvæðisins eða samningsákvæðisins þegar það var fest á blað á sínum tíma.

Eftir að ákvæði þetta kom hér inn í þingið og var rætt ítarlega í fjh.- og viðskn. komu fram hugmyndir frá Alþýðusambandsmönnum þess efnis, að eðlilegt væri að lögfesta þennan skilning með viðbótarákvæði í 1. gr. frv. Við, sem gert höfum þennan samning við BSRB, gátum hins vegar ekki á það fallist að farið væri að bæta við þessa lagagrein efnisákvæði vegna þess að þar með væri verið að bæta raunverulega inn í samning sem undirritaður væri af fjmrn. annars vegar og BSRB hins vegar og farið hefði fram atkvæðagreiðsla um. Með því væri kannske ekki efnislega út af fyrir sig, en þó a. m. k. formlega, verið að hreyfa við samningsákvæði sem aðilar hefðu undirritað. Þess vegna varð það að ráði að fjmrn. ítrekaði sjónarmið sín í þessu máli með því að endurtaka þau ummæli sín frá s. l. hausti, að ekki sé ætlunin að gera samninga við aðra aðila um þau störf sem félagsmenn Alþýðusambandsins starfa nú við. Það hefur aldrei verið ætlunin og hér er bara í þriðja sinn verið að ítreka þetta sjónarmið.

Hins vegar hefur það valdið áhyggjum hjá Alþýðusambandsmönnum, að kannske gæti svo farið að þetta lagaákvæði yrði samþykkt, en svo kæmu stjórnendur þessara fyrirtækja og forsvarsmenn og hefðu þessa yfirlýsingu fjmrn. að engu. Menn hafa bent á það, að út af fyrir sig hefur ekki fjmrn. húsbóndavald yfir stjórnendum þessara fyrirtækja. Við í fjmrn. töldum hins vegar að þessi kenning væri á nokkrum misskilningi byggð, vegna þess að það hefði aldrei staðið til að lögin tækju til þessara starfsmanna með samþykki viðkomandi stofnana öðruvísi en forsvarsmenn þessara stofnana afhentu samningsumboðið þannig að það væri þá jafnt komið á báða bóga: annars vegar hefði BSRB umboð fyrir þá starfsmenn, sem ættu að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, og síðan fjmrn. eða fjmrh. á hinn veginn. Það er ekkert nýtt af okkar hálfu sem kemur fram í þessari yfirlýsingu hvað þetta varðar. Við teljum óhjákvæmilegt að ef þessar stofnanir eigi að taka þátt í samningum ríkisins við opinbera starfsmenn feli þær fjmrn. samningsumboð sitt. Við töldum að þessi grein frv. eða samninganna hefði þann ótvíræða kost, að það væri verið að safna á eina hendi á atvinnurekendahliðinni samningsvaldinu þannig að ekki gæti verið hætta á að ríkið væri að semja við ríkisstarfsmenn um ákveðin kjör og svo gætu ýmiss konar hálfopinberar stofnanir verið að semja um eitthvað allt annað, ein um þetta og önnur um hitt, það væri nauðsynlegt fyrir ríkið, sem raunverulega stæði undir fjárgreiðslum til þessara stofnana, að hafa þetta samningsvald á sinni hendi.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að eftir að þessi lög hafa verið samþykkt hér á Alþingi mun fjmrn. að sjálfsögðu ganga í að fá það á hreint, hvaða stofnanir af þeim, sem hér koma til greina, ætla að fela ríkinu að semja fyrir sig og ganga þannig alfarið inn í samninga ríkisins við opinbera starfsmenn í samræmi við 1. gr. frv., og hvaða stofnanir ætla ekki að gera það. Þær stofnanir, sem gera það ekki, koma þá ekki þessu máli neitt við. Þá gildir bara gamla fyrirkomulagið hvað þær varðar.

Herra forseti. Þetta er orðið langt mál, en þó óhjákvæmilegt að gera hér grein fyrir þessu eftir þá makalausu ræðu sem hér var flutt áðan af hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hann hefur þó vissulega það sér til afsökunar, að hann þekkir ekki málavexti og fullyrðir hér ýmislegt að beiðni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem er fjarstaddur og hefur skrifað furðulega grg. um þetta mál í nál. En þetta mál er sem sagt ákaflega einfalt. Það liggur ekki neitt annað fyrir en að samþykkja þessa grein eins og hún blasir hér við. Sú túlkun á greininni eða sú yfirlýsing, sem hér liggur fyrir af hálfu fjmrn. um hvernig það vilji fyrir sitt leyti halda á þessum málum, er óvefengd og stangast ekki á nokkurn hátt á við eitt einasta orð sem stendur í þessari grein.

Hitt er svo allt annað mál, að það hefur komið í ljós núna seinustu dagana, að talsmenn BSRB telja sig hafa lesið annað út úr þessari grein en fjmrn. og við þurfum að hafa viðræður við forustumenn BSRB um það mál. Þar er einhver misskilningur á ferðinni. Þeir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því, að það væri krafa af okkar hálfu að forsvarsmenn þessarar stofnana afhentu samningsumboð sitt til ríkisins, en satt að segja var það aðalatriði þessa máls frá okkar sjónarmiði. Við hefðum ekki séð mikla ástæðu til þess að setja þetta inn í samningana og inn í lög ef það hefði ekki fylgt með í kaupunum.

BSRB hefur því sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er lýst yfir, að það hafi lítið þessi mál öðrum augum, það hafi skilið þetta ákvæði á annan veg. En þá stendur þetta þannig að þeir geta auðvitað túlkað málið frá sinni hlið og við frá okkar hlið. Ef ágreiningur verður t. d. um hvernig á að ganga frá kjörskrá verður auðvitað því ágreiningsefni vísað til Kjaranefndar eins og lög gera ráð fyrir. En að sjálfsögðu hefur fjmrn. fullan rétt til að ákveða í samræmi við þessa lagagrein hvernig það vill halda á samningsvaldi sínu og hvort það kærir sig um að eiga samskipti við þessar hálfopinberu stofnanir nema þær afhendi samningsumboðið alfarið. Það er stefna okkar nú, enda þótt svo virðist vera að forsvarsmenn BSRB hafi ekki gert sér grein fyrir þessu atriði. En það er önnur saga.