20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4767 í B-deild Alþingistíðinda. (4994)

307. mál, fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Hér er um að ræða frv. til l. um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi og er um það að ríkisstj. sé heimilt að fullgilda þann samning fyrir Íslands hönd.

Herra forseti. Það er líklega óþarfi að hafa um þetta langt mál, en þar sem ekki hefur verið farið mörgum orðum efnislega um þetta efrideildarmál í deildinni hér þykir mér þó rétt og raunar skylt að fara lauslega yfir aths. við þetta frv.

Með þessu frv. er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning frá 18. nóv. 1980 um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi. Þessum samningi er ætlað að koma í stað eldri samnings frá 24. jan. 1959 um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafsins. Sá samningur var fullgiltur fyrir Íslands hönd 12. apríl 1960. Um hann gilda lög frá 30. mars 1960.

Við útfærslu fiskveiðilögsögu strandríkja norðausturhluta Atlantshafs gjörbreyttist skipan fiskveiðimála á svæðinu og sögðu Noregur og aðildarríki Efnahagsbandalags Evrópu samningnum upp.

Hafist var handa um gerð nýs samnings sem mundi taka mið af hinu breytta ástandi og voru nokkrir undirbúningsfundir haldnir á árunum 1977 og 1978. Dagana 20. febr. til 3. mars 1978 var haldin í London ráðstefna með fulltrúum ríkisstjórna. Fulltrúar 19 ríkja og Efnahagsbandalags Evrópu tóku þátt í henni. Ekki tókst þar að ná samkomulagi um nýjan samning. Af hálfu aðildarríkja Efnahagsbandalagsins var þess krafist, að bandalagið yrði sjálfstæður aðili samningsins. Á þetta gátu Austur-Evrópuríkin ekki fallist. Ísland lagði fram tillögu um að þurfa ekki að greiða meira en 5% af kostnaði af starfsemi samkvæmt samningnum.

Á fundi í Lissabon dagana 26.–29. febr. 1980 var samkomulag um öll ákvæði samningsins. Efnahagsbandalagið var viðurkennt sem aðili samningsins. Tillaga var samþykkt um að ríki með innan við 300 þús. íbúa greiði fyrstu fimm árin eigi meira en 5% heildarkostnaðar, síðan yrði reglan endurskoðuð árlega og mætti breyta henni með 3/4 hluta atkvæða samningsaðila.

Samningurinn var lagður fram til undirritunar í London 18. nóv. 1980 og var hann undirritaður fyrir Íslands hönd þann dag. Auk þess hefur Efnahagsbandalagið og eftirtalin ríki undirritað hann: Danmörk (vegna Færeyja), Kúba, Noregur, Pólland, Portúgal, Sovétríkin, Spánn, Svíþjóð og Þýska alþýðulýðveldið. Samningurinn öðlast gildi þegar sjö aðilar hafa fullgilt hann, þ. á m. a. m. k. þrír aðilar sem fiskveiðilögsögu hafa á samningssvæðinu. Ef hann hefur hins vegar ekki öðlast gildi fyrir 18. nóv. 1981, en fimm aðilar hafa fullgilt hann, þ. á m. a. m. k. þrír sem fiskveiðilögsögu hafa á svæðinu, geta þeir ákveðið að samningurinn öðlist gildi þeirra á milli.

Samningurinn gerir ráð fyrir að sett verði á laggirnar ný fiskveiðinefnd sem taki við af fiskveiðinefnd sem starfandi er samkvæmt samningnum frá 1959. Nefndinni er ætlað það hlutverk fyrst og fremst að gera tillögur um fiskveiðar utan þeirra svæða sem falla undir fiskveiðilögsögu samningsaðila, og skal hún gera ályktanir um veiðar innan fiskveiðilögsögu aðila aðeins ef hlutaðeigandi aðili óskar þess. Er því hlutverk og valdsvið nefndarinnar í samræmi við íslenska löggjöf.

Leitað var umsagnar Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar um þennan samning og var af hálfu þeirra mælt með því að Ísland gerðist aðili að samningnum.

Ísland gerðist 1. jan. 1979 aðili að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, sbr. lög nr. 48 30. maí 1979, um framkvæmd samningsins.

Ekki þykir ástæða til að gera aths. við einstakar greinar þessa frv. Þess skal þó getið, að viðurlagaákvæði í 3. gr. frv. eru sniðin efir ákvæðum laga nr. 8131. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og eru samhljóða ákvæðum í 2. gr. fyrrgreindra laga nr. 48 frá 1979.

Að lokum skal athygli vakin á því, að íslensk stjórnvöld hafa sagt samningnum frá 1959 upp og miðast uppsögn við 9. mars 1982. Þykir því rétt að lög nr. 14 1960 um framkvæmd þess samnings falli úr gildi 1. apríl 1982 og er gert ráð fyrir því í 4. gr. frv.

Herra forseti. Þetta voru aths. við þetta lagafrv. Eins og ég gat um áðan, þrátt fyrir fyndnar og gáfulegar aths. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, sem er sérfræðingur í milliríkjasamningum, að því er halda mætti a. m. k., þótti mér rétt að lesa þessar aths. svo að hv. þm. í Nd. geri sér grein fyrir höfuðatriðum þessa máls, en ég sé ekki ástæðu til að fjalla efnislega um samninginn að öðru leyti. Hins vegar liggur hann fyrir hér á þskj. 674 á tveim tungumálum ágætum, sem ég veit að hv. þm. Vilmundur Gylfason kann ágæt skil á, enda menntaður í Englandi og m. a. s. á sama stað og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson.

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. deildar leggur til að frv. verði samþykkt.