21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4782 í B-deild Alþingistíðinda. (5028)

336. mál, langtímaáætlun um vegagerð

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend upp fyrst og fremst til að þakka fjvn.-mönnum fyrir þá samstöðu sem þeir hafa náð um langtímaáætlun um vegagerð. Ég tel ákaflega mikils virði að um þetta er svo breið samstaða. Málið er mjög stórt og reyndar sú ein leið skynsamleg að vinna þannig að slíku máli að um það sé sem mest samstaða. Á það hef ég lagt áherslu þegar fjvn.-menn hafa við mig rætt um málið. Ég tel jafnfram að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á upphaflegri till. minni, séu allar innan þeirra marka sem ég get vel við unað og sumar til bóta.

Í fyrsta lagi vil ég nefna og legg mikla áherslu á að samkomulag er um að áætlun verði gerð. Þörfin fyrir langtímaáætlun í vegamálum er mjög mikil af ástæðum sem hér hafa áður verið raktar. Þar þarf miklu lengri undirbúning fyrir framkvæmdir nú orðið í mörgum stórum verkum en áður var og því nauðsynlegt að til lengri tíma sé lítið. Nefndin gerir að vísu ráð fyrir 12 ára áætlunartíma, en ég gerði ráð fyrir 20 ára. Það skiptir ekki sköpum, ekki síst þar sem jafnframt er gert ráð fyrir að Vegagerðin geri grein fyrir þeim verkum sem ekki rúmast innan 12 ára áætlunartímabilsins. Því má raunar líta svo á að áætlunin geti verið til enn lengri tíma ef nauðsyn krefur.

Ég tel einnig mjög mikilvægt að samstaða hefur náðst um þau meginmarkmið sem ég lagði til grundvallar. Segja má að það hafi verið einn megintilgangurinn með þáltill. að fá fram hvaða markmið hv. þm. vilja leggja til grundvallar við slíka áætlun. Ekki er unnt að vinna áætlun nema markmiðin liggi fyrir. Markmiðin eru nánast óbreytt þau sem voru í upphaflegu till. Um þau er þannig full samstaða í og við fjvn.

Veigamesta breytingin, sem er gerð, er að auka allverulega það lágmark sem til vegamála verði lagt, og stendur síður en svo á mér að þakka það. Ég met það mikils að fjvn. vill leggja meira fjármagn til vega. Ég legg áherslu á hins vegar að þegar slíkt markmið er sett verða menn að standa við það. Og eins og kemur fram í nál., sem fylgir till., leggur fjvn. einmitt áherslu á að ekki verði horfið frá slíkum markmiðum og ekki verði sveiflur í fjárveitingum til vegamála eins og verið hafa undanfarin ár og rakið er í grg. fjvn. eða nál. Þetta var einnig einn megintilgangur með slíkri tillögugerð og þetta er undirstrikað.

Lágmarkið er hækkað í 2.2% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er nú nálægt 2.1%. Þarna er um að ræða um 30 millj. Ég hef áður sagt að ég geri ráð fyrir að flytja á næsta þingi viðaukatillögu við vegáætlun um sérstaka fjáröflun vegna framkvæmda við lífshættulega vegi, sem svo hafa verið nefndir, ug má segja að þarna sé lagður grundvöllur að slíku. Reyndar eru það ákaflega kostnaðarsamar framkvæmdir og mun líklega þörf á einhverju meira sem reyndar rúmast í því sem gert er ráð fyrir þegar til lengri tíma er litið.

Ég lýsi því einnig ánægju minni með þessa hækkun á lágmarki því, sem um er að ræða, og endurtek að ég legg áherslu á að þá þurfum við öll að vera menn til að standa við þetta lágmark og mun ég í mínu starfi leggja áherslu á að svo verði gert.

Eins og ég sagði áðan stóð ég fyrst og fremst upp til að lýsa ánægju minni með þessa samstöðu og þakka hv. fjvn.- mönnum fyrir þá vinnu sem þeir hafa í það lagt að ná samstöðu um málið.