21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4783 í B-deild Alþingistíðinda. (5030)

336. mál, langtímaáætlun um vegagerð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að taka undir það sem hér hefur komið fram. Mér finnst að þessi þáltill. og sú samstaða, sem hefur náðst í fjvn., sé vissulega tákn um merk tímamót í sambandi við þetta verkefni, þ. e. átak í vegagerð á Íslandi. Mér finnst að þetta séu tímamót sem hljóti að vekja athygli. Það sýnir að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að hér sé deilt hart um mörg mál og flest mál raunar þessa dagana, þá stendur þó þetta upp úr, að menn eru samtaka um að hér sé um svo stórt mál að ræða að ástæða sé til að taka höndum saman um afgreiðslu þess þrátt fyrir ólíkar skoðanir.

Ég vil þess vegna undirstrika það sem áður hefur komið fram í fjvn., að þetta eru mjög merkileg tímamót og ég fagna því, að stjórnarandstaðan hefur tekið höndum saman við okkur stjórnarsinna um að ná fram sameiginlegu áliti í þessu stóra máli. Ég get ekki stillt mig um, fyrst það kom fram hér í framsögu, að geta þess hér, að það hafa komið fram fleiri till. um stórátak í vegagerð á landinu á undanförnum árum hér á hv. Alþingi en eingöngu frá hv. sjálfstæðismönnum. Á tveimur þingum nú undanfarið hefur Framsfl. flutt till. um tíu ára áætlun í vegagerð sem ekki hefur fengist útrædd frekar en aðrar till. í þessu formi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á einu sem ég tel mikilvægt, og það er þáttur Vegagerðar ríkisins. Vegagerðin hefur sýnt það og sannað með starfi sínu á undanförnum árum og sýnt fram á það rækilega, að mjög mikil og vaxandi þörf væri fyrir áætlunargerð til lengri tíma en áður hefur tíðkast. Þetta hefur Vegagerðin skilgreint með álitsgerðum sem hafa verið sendar stjórnvöldum. Þar er sagt að fyrsta skrefið í auknum framkvæmdum í vegagerð sé að afla yfirlits um verkefnið, stærð þess og eðli, og gera áætlun til langs tíma þar sem röðun framkvæmda sé ákveðin í stærstu dráttum. Vegagerðin telur, að undirbúningur verka sé eitt mikilvægasta málið, og bendir í því sambandi á skipulagsákvæði, náttúruverndarsjónarmið og ýmis samráð við hagsmunaaðila á öllum sviðum. Ég held þess vegna að það sé mjög tímabært að vekja athygli á því, þegar við erum að ræða um svo stóra ákvörðun, að það má ekki gleymast að við þurfum að efla vegagerðina til þess að takast á við þetta stóra verkefni sem við erum öll sammála um að þörf sé á í vegagerð á Íslandi.

Ég ætla ekki að hafa meira mál um þetta. Ég vil aðeins vekja athygli á því, hvað þetta eru í raun og veru merk tímamót, og ég vænti þess, að meira fylgi á eftir og samþykkt á þessari þáltill. verði upphaf þess, að við sjáum fram á, áður en langur tími liður, að við getum staðið jafnfætis öðrum nágrannaþjóðum á þessu sviði eins og full þörf er á.