21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4786 í B-deild Alþingistíðinda. (5035)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal leitast við að tefja ekki tímann, en að gefnu tilefni, ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, vil ég ítreka það, að í afgreiðslu utanrmn. felst engin efnisbreyting varðandi till. til þál. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík. Þær breytingar á orðalagi, sem gerðar voru í utanrmn., hagga ekki því höfuðatriði, að í báðum tilvikum er utanrrh. falið að flýta framkvæmdum við byggingu nýrra eldsneytisgeyma fyrir varnarliðið og það er aðalatriði málsins.

Hv. þm. sagði að Alþb.-menn væru með mengunarvörnum, en á móti samningum við varnarliðið um byggingu nýrra eldsneytisgeyma. Hér verð ég að taka það fram, að forsendur þessarar till. eru auðvitað þær, að varnarliðið kosti og reisi nýja eldsneytisgeyma. Þá hlýt ég og að taka það skýrt fram, að þótt Helguvík sé ekki sérstaklega nefnd í till. er ekkert í afgreiðslu málsins sem kemur í veg fyrir það, að olíuhöfnin eða nýir eldsneytisgeymar verði reistir þar. Það komu fram raddir um það, að það væri eðlilegt, að frekari rannsóknir færu fram og þeim yrði lokið áður en endanleg ákvörðun væri um þetta tekin, og því væri ekki rétt af Alþingi að gera bindandi samþykkt um að staðsetning geymanna væri í Helguvík. Hins vegar er það á valdi utanrrh. og þar til bærra innlendra yfirvalda, sveitarstjórna og skipulagsyfirvalda, að kveða nánar á um hvar eldsneytisgeymarnir skuli reistir. Það þótti ekki eðlilegt að Alþingi væri að binda hendur þessara aðila að þessu leyti. Þess vegna má það allt eins vera að geymarnir verði þar reistir.

Þá hlýt ég enn fremur að láta það koma skýrt og skilmerkilega fram að afgreiðsla nefndarinnar bindur ekki hendur hæstv. utanrrh. hvað snertir stærð geymanna eða birgðastöðvarinnar. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði hér einn sinni fjálglega, eins og um stóra bombu væri að ræða, um að hér ætti að fjórfalda eldsneytisbirgðir varnarliðsins. Hæstv. utanrrh. hefur greint frá því, að hér væri ekki um að ræða fyrirætlanir um meira en 30–65% aukningu birgðarýmis, eftir því hvort miðað væri við birgðarými bæði í Hvalfirði og Keflavík eða eingöngu á Keflavíkurflugvelli, ef ég man rétt. Og það liggur í augum uppi, að þessi ákvörðun um stærð væntanlegra nýrra eldsneytisgeyma er á valdi utanrrh. og þeirra sem hann tilnefnir til samninga við varnarliðið.

Ég hlýt að undirstrika það, að afgreiðsla till., eins og hún nú liggur fyrir frá utanrmn., sker alveg úr um það, að ákvörðunarvald í þessum efnum er í höndum hæstv. utanrrh., en ekki í höndum ríkisstj. allrar, þannig að stöðvunar- og neitunarvald það, sem ráðh. Alþb. telja sig hafa fengið með undirskrift leynisamningsins svokallaða, hefur enga þýðingu í þessu máli frekar. Og ég tel að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi raunar fyrir hönd Alþb. í þessum efnum afsalað sér stöðvunarvaldi að þessu leyti.

Þá held ég að ég geti nú ekki stillt mig um að láta þá skoðun mína í ljós, að það var broslegt að heyra hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson vitna sífellt í forstjóra Olíufélagsins hf., „forsvara bandaríska olíuauðvaldsins innan SÍS-hringsins, sem hefur haft svo spillandi áhrif á afstöðu framsóknarmanna til varnar- og öryggismála að framsóknarmenn hafa gerst leppar Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum“. Ég tek það fram, að þetta er allt innan gæsalappa, tilvitnun í orðalag Alþb.-manna og Þjóðviljans, en ekki mín skoðun.

Þegar rifjað er upp hvernig þeir Alþb.-menn og Þjóðviljinn hafa fjallað um forstjóra Olíufélagsins, Vilhjálm Jónsson, sem er hinn ágætasti maður að því er ég best veit og af mínum kynnum af honum persónulega hef ég ekki nema gott eitt að segja, þá er það furðulegt hvernig nú á að skjóta sér bak við þennan mann sem hefur kannske meira en aðrir framsóknarmenn verið skammaður af Alþb.-mönnum hingað til.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál, en vil aðeins ljúka máli mínu með því, að það stendur fast og er ótvírætt, að samkv. till., ef samþykkt verður, sem ég vænti, með því að utanrmn. er sammála um að mæla með samþykkt hennar, er utanrrh. falið að hraða framkvæmdum á þessu sviði. Það tel ég skipta mestu máli, bæði fyrir hagsmuni byggðarlaganna á Suðurnesjum og þá ekki síður vegna þeirra öryggishagsmuna sem Íslendingar hafa að gæta í þessum efnum, svo að starfsemi varnarstöðvarinnar sé sem tryggust og best búin þeim tækjum og gögnum, sem til eftirlitsstarfa eru nauðsynleg.