21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4788 í B-deild Alþingistíðinda. (5036)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd tillögumanna lýsa ánægju minni yfir því, að tekist hefur samstaða í utanrmn. um afgreiðslu þessa máls, og einkum vil ég lýsa yfir ánægju minni yfir því, að efnisbreyting hefur engin orðið. Till. segir það sama og upphaflega till., utan þess að orðið Helguvík er út tekið og utanrrh. falið að hafa málið í sínum höndum að öllu leyti.

Upphaflega till. fjallaði um það að hraða framkvæmdum við byggingu olíugeymanna og er það tilkomið vegna áskorana bæjarstjórna á Suðurnesjum, þ. e. í Keflavík og Njarðvík, sem óttast mjög olíumengun vatnsbóla þar syðra. Það kemur fram í till., að nefnd var starfandi sem rannsakaði mjög vel hvernig að þessum málum skyldi staðið og leitaði umsagna ýmissa aðila, t. d. hjá Hafnamálastjórn, hjá Náttúruverndarráði og fleiri aðilum, og einnig naut nefndin stuðnings bæjarstjórnanna í Keflavík og Njarðvík sem einróma höfðu samþykkt óskir um að þessar framkvæmdir yrðu hafnar hið allra fyrsta.

Það kom í ljós áðan í umr., að einn nm., hv. 11. þm. Reykv., vitnaði ákaft í eina umsögn, sem barst í hendur utanrmn., og studdi sig mjög við það er þar greinir. Það er umsögn frá Olíufélaginu hf., helsta hermangsfyrirtækinu hér á landi. Ég tel að það væri mjög mikils virði að sú umsögn yrði prentuð sérstaklega þannig að allir alþm. gætu séð hvað þar er. Það vekur alveg sérstaka athygli mína, að í þessari umsögn er mjög ámátlegt vein og væl þessara postula einkaauðmagnsins og í bréfinu eða í umsögninni skín mikill ótti um að það muni missa af olíusölu og afgreiðslu þar syðra. Á einum staðnum segir svo:

„Auðvitað er ljóst, að það væri verulegt áfall fyrir Olíufélagið hf., ef eignir þess í Hvalfirði yrðu arðlausar og verkefni íslensku olíufélaganna skert.“ Svo segir aftur aðeins seinna: „Svo undarlegt sem það nú er, virðist hér eiga að fórna verulegum íslenskum hagsmunum um leið og auka á stórkostlega fjárhagslega byrði bandarískra skattborgara vegna varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.“ Og enn segir í lok umsagnarinnar: „Það er ekki okkar vandamál, hvaða byrðar bandarískir skattborgarar þurfa á sig að leggja, en Alþingi hlýtur að gefa því gaum, ef sérstakar ráðstafanir á að gera til þess að brjóta niður íslenska atvinnustarfsemi og leggja í rúst gjaldeyrisaflandi atvinnurekstur sem miklum fjármunum hefur verið varið til þess að byggja upp.“

Þetta sjónarmið á sér talsmann hér á Alþingi. Sá talsmaður er hv. 11. þm. Reykv.

Í þessari umsögn er og gerð till. um það, hvernig mengunarmálin skuli leyst. Er hún á allan hátt furðuleg og sýnir að þar rita menn sem hafa ekki kynnt sér málin til hlítar. Í þeirri nefnd, sem fjallaði um þessi mál með Bandaríkjamönnum, kom það fram, að þeir töldu sjálfsagt að breyta þeirri leiðslu sem nú er fyrir hendi þar, grafa hana í jörð. Það hefur ekkert orðið af því. Og þeir töldu sjálfsagt að gera ýmsar úrbætur sem nauðsynlegar eru nú fyrst um sinn. En ekkert hefur orðið af því heldur. Þeir hafa boðist til þess að byggja upp þessa aðstöðu á ný og forða byggðarlögunum syðra frá hugsanlegri olíumengun. Það kemur í ljós, að Olíufélagið hf. gerir sér ekki ljóst hversu ástand tankanna þar syðra er alvarlegt, dregur í efa að upplýsingar um það séu réttar. En mínar upplýsingar og upplýsingar bæjarstjórnarmanna syðra tel ég traustar, enda fengnar beint frá þeim mönnum sem þessi verk hafa unnið og séð nm viðhald á þessum tönkum.

Ég tel ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Ég vil þó sérstaklega þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir forgöngu hans um að ná samkomulagi um að hefja framkvæmdir sem allra fyrst og hafa þar með skipt um skoðun, étið ofan í sig fyrri fullyrðingar um þessi efni.