21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4789 í B-deild Alþingistíðinda. (5037)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Við hlýddum hér áðan á ærið sérkennilega ræðu hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Það var auðvitað allri deildinni ljóst, að hann sá hver var sannleikur málsins og hvað væri nauðsynlegt að gera og hvað þyrfti að gerast. En honum sýndist með tilliti til aðstæðna í sínum flokki að það væri nauðsynlegt að vera með ýmiss konar yfirklór. Hann valdi að skjóta sér á bak við hugmyndir frá Olíufélaginu ESSO um það, hvernig ætti að standa að málum. Allir sjá nú hversu eðlilegi megi teljast að fulltrúi Alþb. leiti sérstaklega ráða hjá olíuhringnum ESSO um það, hvernig eigi að standa að framkvæmdum á þessum stað. Það verður hins vegar að segja hv, ræðumanni til málsbóta, að hann bar sig heldur mannalega, miðað við það alveg sérstaklega hversu aumlegt yfirklór var um að ræða.

Það er auðvitað rétt sem kom fram hjá hv. þm., að úr því að Alþb. hefur nú tafið þetta mál í heilt ár eða hálft, þá er ákaflega mikilsvert að geta sýnt fram á að enginn tími hefði tapast. Þess vegna var það meginatriði að sýna fram á að nú þyrfti að vinna upp tíma, og þá var það bréfið frá olíuhringnum ESSO sem var haldreipið. Allir sjá vitaskuld að hér var um látalæti að ræða. Með allri virðingu fyrir ESSO hef ég ekki trú á því, að í raun og sannleika geti það talist aðalráðgjafi Alþb. Aðrir umsagnaraðilar höfðu lagt fram allt aðra niðurstöðu sem auðvitað er langtum raunhæfari.

Það hefði vitaskuld verið eðlilegra og sjálfsagðara fyrir hv. þm. að vera ekki með þessa sýndarmennsku, og það er í sjálfu sér mikill ljóður á ráði þessa flokks og þessa þm. að vera með sýndarmennsku af þessu tagi.

Hver trúir því, að Alþb. taki ráðgjöf frá ESSO fram yfir verkafólk í Njarðvík eða sjómannsheimili í Keflavík? Ég hef a. m. k. lesið það í Þjóðviljanum að undanförnu, að það væru þessir hópar sem Alþb. kveddi til ráðgjafar um hvað eina að því er varðaði stefnumörkun. Eða eigum við að trúa því, að Alþb. sé slíkur flokkur að það gefi ekkert fyrir það, hvað verkafólk í Njarðvík segir, hvað sjómannsheimili í Keflavík segja varðandi þau mál sem hér eru efst á baugi?

Hv. þm. veit auðvitað jafnvel og ég, að Olíufélagið ESSO er alls ekki dómbær aðili í þessu máli. Olíufélagið ESSO er nefnilega alls ekki óvilhallt, heldur kannske vilhallasti aðili sem hægt er að finna varðandi þetta mál. Það tekur leigu af geymum sem það fékk fyrir lítið — svo ég segi nú ekki fyrir ekkert — uppi í Hvalfirði og hér og þar, tekur leigu af þessum geymum fyrir að láta varnarliðinu í té afnot af þeim. Þessa leigu vill Olíufélagið ESSO ekki missa, og það skín í gegnum álitið frá þessu ágæta félagi eða forstjóra þess.

Hver trúir því, að Alþb., sem telur sig verndara verkafólks, leiti sérstaklega forsjár þessa forstjóra olíufélags sem það hefur meira að segja á stefnuskrá sinni að leggja niður vegna þess hversu slæmt það er?

Sannleikurinn er sá í sambandi við álit Olíufélagins ESSO, að það er eitthvað svipað og hjá húseiganda sem hefur mann í leigu hjá sér og húseigandinn segir við leigutakann, þann sem er í leigu í kjallaraíbúðinni: Heyrðu, góði minn, þú þarft ekkert stærri íbúð. Þú þarft ekkert að fara að byggja. Aðalatriðið er að þú haldir áfram að borga sjálfum mér leigu. Það er inntakið í bréfi forstjóra Olíufélagsins. Það er það sem liggur á bak við það sem forstjóri Olíufélagsins hefur að segja. Ég lái honum það ekki. Hann er að verja hagsmuni þessa olíufélags sem Alþb. telur að eigi að leggja niður og að þjóðnýta þessa starfsemi. En hver trúir því, að í raun og sannleika leiti fulltrúi Alþb. sérstakra ráðlegginga hjá aðila eins og þessum? Því trúir auðvitað enginn. Eða er það svo, að Alþb. hafi það efst á stefnuskrá sinni að gróðasjónarmiðin hjá ákveðnu olíufélagi í landinu skuli vera ráðandi í þessu efni? Ef svo er, þá er auðvitað ekki um sýndarmennsku að ræða hjá hv. þm.

Ég held að sannleikurinn í málinu sé sá, að þetta sé ekki stefna hv. þm. og Alþb. Ég held að við verðum frekar að hallast að því, að hv. þm. og hans flokkur hafi ákveðið að reyna að bera sig mannalega frammi fyrir því, að hér verði hans flokkur undan að láta, að hv. þm. og hans flokkur hafi áttað sig á því, að úrlausn fæst ekki öðruvísi en með framkvæmdum á þessum stað, að þm. og hans flokkur hafi áttað sig á því, að yfirgnæfandi meiri hluti fólks vill að það verði bætt úr í sambandi við þau olíugeymamál sem hér er um að ræða. Við vitum það hér á hv. Alþingi, að fólkið á þessum stað hefur krafist þess að ráðist verði í framkvæmdir til þess að bæta hér úr, ráðist verði í framkvæmdir samkvæmt þeim hugmyndum sem fram eru lagðar og umsagnir liggja fyrir um hvernig eigi að gera. Við höfum heldur enga trú á því, að hv. þm. og hans flokkur hafi af sérstöku göfuglyndi sínu tekið upp á því að finna ráð til þess að spara fyrir Reagan forseta í Bandaríkjunum. Við höfum enga sérstaka trú á því.

Ég held að sannleikurinn í þessu máli sé sá, að flokkurinn og þm. hafi raunverulega áttað sig á því, að þetta mál var tapað og að það yrði að leysa úr því.

Auðvitað ber að virða það við hv. þm. að hann skyldi sjá að hér þýddi ekki lengur að berja hausnum við steininn. Menn geta vitaskuld vorkennt hv. þm. fyrir að lenda í þessari aðstöðu. (ÓRG: Það er alveg óþarfi.) En ég held að við eigum frekar að virða það við þm. að hann sjái að þetta mál er tapað og að hans flokkur hafi allt eins gott af því að koma til stuðnings við okkur hina sem viljum að úr þessum málum verði leyst með heilbrigðum og skynsamlegum hætti samkvæmt þeim till. sem fyrir liggja um olíugeyma í Helguvík.

Hans flokkur hefur hrakist úr einu víginu í annað. Þetta hét einu sinni að það væri fjórföldun á olíugeymarými. Hæstv. utanrrh. hefur rekið það til baka svo eftirminnilega að allt Alþingi mun minnast þess ætíð síðan. Og ég held að það sé einmitt mjög gott að þessi flokkur og þessi þm. hafi séð að svona þýðir ekki að halda á málum. Áður en varir hefur kannske þessi flokkur og þessi þm. áttað sig á því, að það fyrirkomulag, sem við höfum hér varðandi varnir Íslands, sé betra en ýmislegt annað sem upp á hefur verið stungið og fram hefur verið haldið í hans flokki.

Ég gleðst yfir því, að Alþb. hefur tekið sinnaskiptum, að Alþb. hefur séð að það verður að kyngja þessu máli. Auðvitað hefði verið stórmannlegra af Alþb. og hv. þm. að viðurkenna málin hreinlega, frekar en að stunda þá sýndarmennsku sem skín í gegnum þá ræðu sem hv. þm. hélt.

En að lokum aðeins þetta: Auðvitað skiptir afstaða Alþb. í þessu máli engu vegna þess að það er yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að sjá til þess, að úr þessum málum eins og ýmsum öðrum verði leyst með eðlilegum og skynsamlegum hætti. Og það er yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því, að Keflavíkurflugvöllur sé ekki áfram ruslahaugur, heldur að þar verði staðið myndarlega að málum. Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi tekið á þessum málum alveg á réttan hátt og hafi skilning á því, að það er ekki einungis að við viljum sjá til þess, að það verði ekki mengun á umhverfinu af þessum sökum, heldur viljum við láta standa að hlutum hér af myndarskap og sjást að hér býr góð þjóð í góðu landi þegar á þeirri stundu sem menn koma til þessa lands. Og það á við jöfnum höndum um þetta olíugeymamál og t. d. flugstöðina á Keflavikurflugvelli. Næsta skrefið verður auðvitað það, að Alþb. átti sig á því að Íslendingar eiga að eiga sína flugstöð.