21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4797 í B-deild Alþingistíðinda. (5041)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er skiljanlegt að aðeins 10% þjóðarinnar styðji Alþfl. og aðeins 8% þjóðarinnar styðji lið Geirs Hallgrímssonar þegar maður verður fyrir því að hlusta á annan eins ruglanda og annað eins bull og hefur komið fram í ræðum fulltrúa þm. þessara aðila sem talað hafa í þessari umr.

Það hefur verið tvennt sem þessir hv. þm. hafa keppst um að endurtaka hér hver eftir öðrum, og má nú minna á ágæt ummæli Göbbels sáluga, að það væri kannske einhver von til þess, að fólk færi að trúa lyginni ef hún væri endurtekin nógu oft. Það, sem þessir ágætu þm. hafa endurtekið í þessum umr. hver á fætur öðrum, er í fyrsta lagi að það sé enginn efnislegur munur á þeirri till., sem fulltrúar þessara sömu aðila fluttu hér um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík, og þeirri till., sem nú á að koma til atkvæða, og hins vegar, að einhver veruleg sinnaskipti hafi orðið hjá Alþb. í þessum málum. Báðar þessar fullyrðingar eru alrangar. Og það sýnir best hvað þessir ágætu þm. skilja lítið í því sem er að gerast hér á Alþingi, enda hefur maður nú fleiri vitnisburði um það en þessar umr., að þeir skuli byggja allan sinn málflutning á þessu.

Varðandi „sinnaskipti Alþb.“ vil ég bara endurtaka það hér með örfáum orðum, að ég vitnaði í upphafi minnar ræðu í ræðu, sem hæstv. félmrh. flutti hér fyrr í vetur, og í ræðu, sem ég flutti fyrr í vetur, og einnig í ræður sem ég flutti hér veturinn 1978–1979. Í öllum þessum ræðum þingmanna Alþb. er ítrekað hvað eftir annað að það eigi að fjarlægja þá mengunargeyma sem skapa byggðarlögunum í Keflavík og Njarðvík hættu. Það er þess vegna ekkert nýtt í því, engin skoðanaskipti fólgin í því, að Alþb. geti nú flutt og stutt till. sem kveður á um það sama.

Ég hélt að þetta væri satt að segja hverjum manni með sæmilega óbrenglaða skynsemi ljóst, að það þyrfti ekki að útskýra þetta hvað eftir annað hér fyrir jafngáfuðum þm. og þeir telja sig vera, Eyjólfur Konráð Jónsson, Matthías Á. Mathiesen, Kjartan Jóhannsson og Eiður Guðnason.

Hitt atriðið, sem þeir hafa hér endurtekið hver á fætur öðrum, er að það sé enginn efnismunur á þessum tveimur till. Hvers vegna skyldu þeir nú kappkosta að endurtaka þetta hver á fætur öðrum, að það sé enginn efnismunur? Jú, það er einmitt vegna þess að þeim líður mjög illa yfir því að standa nú hér í lok þingsins sjálfir að till. sem er að verulegu leyti frábrugðin þeirri till. sem þessir sömu menn fluttu hér um miðbik þingsins og átti þá að verða eitt aðalmál þingsins.

Hæstv. utanrrh. hefur í greinargóðu og stuttu máli útskýrt fyrir þessum hv. þm. muninn á þessum tveimur till. Við vorum báðir kennarar við Háskóla Íslands, hæstv. utanrrh. lengur en ég og hefur meiri reynslu í að kenna mönnum einfalda hluti. Ég vona þess vegna að þessi kennslustund, sem hann veitti þessum þm. hér áðan, í muninum á þessum tveimur till. verði til þess að sannfæra þá, þó að lítil von sé til þess, að mér hafi tekist það í minni fyrri ræðu eða takist það nú.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan að fyrri till. hefði verið byggð á misskilningi. (Gripið fram í.) Já, hluti, það er að vísu rétt, það var þriðja línan, sem var byggð á misskilningi, og þess vegna er hún tekin út. Síðan lýsti hann því yfir, að í þeirri till., sem nú liggur fyrir, væru engin ákvæði um staðarval og engin fyrirheit um aukningu. Og það er það sem var í 1. og 2. línu fyrstu tillögunnar. Þess vegna liggur það alveg ljóst fyrir, að þessar tvær till. eru frábrugðnar hvað snertir það, að misskilningurinn um samkomulag við NATO hefur verið tekinn burt, í öðru lagi er ekkert kveðið á um staðarval í þessari till. og í þriðja lagi er ekkert fyrirheit um aukningu í þessari till. En þetta allt, þetta þrennt var í fyrstu till.

Mér er alveg sama um það, þó hv. þm. þessa 8% þjóðarinnar, sem styðja Geirsliðið, reyni að hugga sig við að þetta sé enginn efnismunur, eða þm. Alþfl. reyni að bjarga sér hér á hundasundi í lok þings með því að sannfæra sjálfa sig um að þetta sé enginn efnismunur, því það blasir náttúrlega við hverjum manni að þeir menn, sem fluttu þessa till., Karl Steinar Guðnason, Matthías Á. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson og Salome Þorkelsdóttir, hlupu öll rækilega á sig þegar þau fluttu þessa till. á sínum tíma. Alþingi Íslendinga, samkvæmt einróma till. utanrmn., treystir sér á engan hátt til að samþykkja þessa till.

Ég held þess vegna að þetta liggi alveg ljóst fyrir hverjum manni með heilbrigða skynsemi sem íhugar þessi mál í ró. En ég geri ekki þá kröfu til stjórnarandstöðunnar hér að hún íhugi þetta í ró. Ég veit að henni er það um megn núna síðustu daga þingsins. En hver maður, sem íhugar þetta í ró, sér að það er enginn munur á þeirri till., sem utanrmn. flytur nú, og þeirri afstöðu, sem Alþb. hefur haft áður í þessum málum. Það er verulegur efnismunur hins vegar á þeirri till., sem þessir þm. lögðu fram hér fyrr á þessu þingi, og þeirri till., sem utanrmn. hefur nú sett hér fram. Hæstv. utanrrh. hefur greinilega skýrt út fyrir þessum þm. í hverju munurinn felist.

Það hefur vakið hér nokkra athygli, að þingflokkur Alþb. skyldi lýsa yfir að þær hugmyndir, sem komu fram hjá forstjóra Olíufélagsins, séu farsæl lausn á þessu vandamáli að okkar dómi. Ég hafði þau orð fyrr í þessum umr., að forstjóri Olíufélagsins væri meðal þeirra Íslendinga, sem hafa margvíslega reynslu af því að starfrækja olíubirgðastöðvar, olíuleiðslur og olíuviðskipti, og þess vegna væri sjálfsagt að hlusta á hans málflutning. Þar með er auðvitað ekki sagt að menn taki undir allt það sem þetta fyrirtæki, Olíufélagið hf. eða ESSO, hefur tekið sér fyrir hendur. En mér þykir ærið sérkennilegt þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson kemur hér og talar um Olíufélagið á þann hátt sem hann gerði. Nú hef ég oft tekið þátt í að gagnrýna Olíufélagið. Það vita þeir menn sem með mér hafa verið í flokkum, ef ég má orða það svo. Ég verð ekki sakaður um að hafa verið þar framarlega í varnarsveit. En hitt vænti ég að menn viti, að Olíufélagið er að verulegu leyti eign kaupfélaganna í landinu, m. a. eign Kaupfélags Hafnfirðinga. Einn af helstu leiðtogum Alþfl. í Hafnarfirði og nánasti pólitíski samverkamaður Kjartans Jóhannssonar í Hafnarfirði er einmitt stjórnarformaður í Kaupfélagi Hafnfirðinga. Ég vil biðja hv. þingmenn Alþfl. og sérstaklega formann flokksins að gera sér örlitla grein fyrir eignarsamsetningu Olíufélagsins hf. áður en hann flytur fleiri slíkar ræður sem hann flutti hér áðan. Hitt er svo auðvitað rétt, að Olíufélagið er umboðsaðili fyrir ESSO. En það vill nú svo til að meginhlutinn af þeirri olíu, sem það selur, er frá Sovétríkjunum en ekki frá ESSO. Og þannig mætti lengi telja hér til skýringar.

Hitt fannst mér sérkennilegt, að í ræðu Kjartans Jóhannssonar fannst mér fara meira fyrir hagsmunum Bandaríkjahers og að varðveita þá og gæta þeirra heldur en hagsmunum þeirra Íslendinga, sem búa á Suðurnesjum, eða þeirra aðila, sem hér í landinu starfa að öðru leyti.

Ég ætla ekki að eyða löngu máli í þá ræðu sem Eyjólfur Konráð Jónsson flutti hér. Hún var allsérkennileg fyrir margra hluta sakir. Þó var hún líka ánægjuleg fyrir þá sök, að í málflutningi hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar kom fram viðurkenning á því sem hefur hingað til verið nokkurt feimnismál í röðum þeirra aðila sem hafa viljað láta framkvæma Helguvíkuráætlunina nákvæmlega eins og hún kom af skepnunni 23. maí s. l., og það er að með þeirri áætlun á að auka styrjaldarumsvif í landinu. Í æsingi sínum í ræðunni hér fyrr í dag viðurkenndi hv. þm. þetta, m. a. með því að krefjast þess, að hér væru olíugeymar sem þyldu árásir. Það var hans meginkrafa, að byggðir yrðu þúsund metra frá núverandi byggð í Keflavík olíugeymar sem þyldu árásir. Það eru „ánægjuleg tíðindi“ fyrir Keflvíkinga, að það skuli vera meginkrafa hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að slík árásaraðstaða skuli vera þar fyrir hendi. En ætli það væri nú ekki rétt fyrir hv, þm. að lesa sér m. a. til í þeirri ágætu grg. sem við fengum frá forstjóra Olíufélagsins, þar sem hann rækilega undirstrikar og bendir á að sú sprengjuvörn, sem samkvæmt fyrri áætlunum er ætluð þessum geymum, er á engan hátt veitt íbúunum í Keflavík. Hvað verður þá um sjómennina og verkamennina í Keflavík sem hv. þm. Kjartani Jóhannssyni var svo annt um hér áðan? (KJ: Og er enn.) Já, og er enn, og ég vona að hann hugsi líka til Kaupfélags Hafnfirðinga í leiðinni. (KJ: Ég geri það.)

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mjög. Ég tel að málið liggi mjög skýrt fyrir Hv. utanrmn. hefur með brtt. sinni hafnað þeim þremur meginatriðum sem voru í hinni upphaflegu till., þ. e. staðsetningunni, byggingu sérstakrar olíuhafnar og stækkun eldsneytisbirgðanna, og setur í staðinn till. sem eingöngu kveður á um aðgerðir vegna mengunarhættunnar fyrir byggðarlögin. Þessi ályktun er í fullu samræmi við þann málflutning sem Alþb. hefur haft uppi áður. Það á þess vegna ekki að koma nokkrum manni á óvart, sem hefur kynnt sér þann málflutning, að við tökum þessa afstöðu hér og nú.

Ég vil svo að lokum aðeins vekja athygli á því, vegna þess að nokkuð hefur verið rætt um fjármögnun og kostnað við þessar framkvæmdir, að þær till., sem Olíufélagið hf. hefur sett fram, yrðu að kostnaði til aðeins 10–20% hvað framkvæmdakostnað snertir í samanburði við þá framkvæmd sem hin upphaflega till. Alþfl.- mannanna og sjálfstæðismannanna gerði ráð fyrir. Það finnst mér enn frekar mæla með þessari leið og jafnvel ætti að geta gert kleift að íslenskir aðilar önnuðust þessa framkvæmd sjálfir. Þar með ættum við þetta geymslurými sjálfir. Það kom fram frá þeim sem þekkja til olíurekstrar hér á landi, að olíufélögin hafa byggt hér á einu sumri geymarými sem er 20–30 þús. rúmmetrar að stærð. Það, sem er verið að tala um í till. Olíufélagsins, eru einungis 51 þús. rúmmetrar. Þess vegna ætti fyllilega að vera gerlegt fyrir íslenska aðila sjálfa að byggja þessa geyma og þar með einnig leysa mengunarvandamál byggðalaganna í Njarðvík og Keflavík með því að fjarlægja þá geyma sem þar eru fyrir nú.

Ég vil svo vænta þess, að þessi umr. hafi orðið til þess að skýra fyrir mönnum mjög svo augljósa afstöðu Alþb. til þessa máls. En hitt get ég þó skilið e. t. v., að hæstv. stjórnarandstöðu líði dálítið illa yfir því, að sú till., sem á miðju þingi átti að verða til þess að sundra ríkisstj., skuli nú verða við þinglok til þess að sameina allt þingið.