21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (5045)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Með skírskotun til ræðu hæstv. utanrrh. áðan um það, hvernig framkvæmdum yrði hagað varðandi þetta mál, og einnig með hliðsjón af orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem vitnaði til ræðu hæstv. utanrrh. sem hann taldi greinargóða og skýra málið nákvæmlega, og með skírskotun til ummæla hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, sem sagðist greiða atkv. með málinu í trausti þess, að utanrrh. hafi talað hug sinn hér í kvöld, eins og komist var að orði, þá er ljóst að það verða þarna verulegar og nytsamlegar framkvæmdir eins og ráðgerðar hafa verið. Því segi ég já.