21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (5051)

89. mál, áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins. Nefndin hefur fengið umsögn um till. frá Kennarasambandi Íslands. Þá hafa komið á fund nefndarinnar um mál þetta Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri menntmrn. og Hörður Lárusson forstöðumaður skólarannsóknadeildar. Nefndin mælir með samþykkt till. með nokkrum breytingum á 1. og 2. mgr. tillgr. og eru brtt. fluttar á sérstöku þskj. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. mgr. tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta kanna líkleg áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins og bendir sérstaklega á að fylgst verði með sérstakri rannsókn, sem nú er í undirbúningi um þetta efni á vegum menntarannsóknastofnunar OECD. Bæði verði kannað hver áhrifin muni verða á skólahaldið sjálft með aukinni tölvunotkun í skólum svo og hvaða kröfur tölvuvæðing í öllu athafna- og atvinnulífi geri til skólakerfisins.

2. mgr. tillgr. orðist svo:

Reynt verði að meta í grófum dráttum, á hvaða sviðum þjóðlífsins tölvuvæðingin komi til með að hafa áhrif og í hvaða tímaröð þau áhrif muni koma fram. Bæði verði tekið tillit til þeirra, sem starfa munu að tölvum eða í tengslum við þær, og einnig til allra hinna, sem varða notendur tölvuefnis“.

Mælir n. samhljóða með að till. verði samþykkt með þessum breytingum er fram koma á þskj. 804.