21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4806 í B-deild Alþingistíðinda. (5059)

246. mál, samræming á mati og skráningu fasteigna

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar þáltill. á þskj. 480 um að leggja Fasteignamat ríkisins niður. Nefndin fékk umsagnir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Sambandi ísl. tryggingafélaga, fjmrn. og Fasteignamati ríkisins. Í bréfi fjmrn. kemur fram að það þurfi miklu nákvæmari könnun að liggja að baki áður en sú ákvörðun er tekin sem í þáltill. felst. Í ályktun fulltrúaráðsfundar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem fylgdi umsögn sambandsins, kemur m. a. fram að sameina beri fasteignamat og brunabótamat fasteigna og að endurmatsverð fasteigna verði lagt til grundvallar brunabótamatinu. Mjög ítarleg grg. barst n. frá Fasteignamati ríkisins, þar sem fram kemur það álit Fasteignamats ríkisins, að eðlilegra sé til þess að spara tvíverknað í kerfinu að sameina brunabótamat og fasteignamat á þann hátt að fasteignamatið leysi brunabótamatið af hólmi. Telur það að sú leið gefi meiri hagkvæmni.

Ljóst er að nauðsynlegt er að koma á samræmingu og einföldun hjá þeim aðilum, sem annast mat og skráningu fasteigna í landinu, til að koma í veg fyrir tvíverknað og mikinn aukakostnað er því fylgir. Þegar hefur verið unnið nokkurt verk í því sambandi, bæði af starfshópi á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga og ráðgefandi nefnd sem skipuð er samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna. Allshn. telur að á þessu stigi, áður en nákvæm könnun og athugun hafi farið fram og liggi fyrir um hvernig best verði komið á betra skipulagi og hagræðingu í þessu efni, sé ekki tímabært að taka afstöðu til þess, að leggja beri Fasteignamat ríkisins niður. Aftur á móti leggur n. áherslu á að nauðsynlegum undirbúningi og athugunum verði hraðað þannig að sem fyrst sé hægt að taka afstöðu til þess, með hvaða hætti samræmingu og hagræðingu í þessu efni verði best fyrir komið.

Allshn. leggur því til að þáltill. verði samþykkt með þeim brtt. sem hún flytur á þskj. 799 og hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hraða undirbúningi þess, að komið verði á samræmingu og hagræðingu hjá þeim aðilum, sem annast mat og skráningu á fasteignum í landinu.

2. Fyrirsögnin orðist svo: Till. til þál. um samræmingu á mati og skráningu fasteigna.“