21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4807 í B-deild Alþingistíðinda. (5061)

257. mál, húsakostur Alþingis

Frsm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um þáltill. um framtíðarhúsakost Alþingis, sem er 257. mál, á þskj. 510. Tillgr. hljóðar svo:

„Í tilefni af 100 ára afmæli Alþingishússins ályktar Alþingi, að heimkynni þingsins skuli áfram vera í sama húsi, svo og í byggingum í næsta nágrenni þess.

Alþingi ályktar enn fremur að efna til samkeppni íslenskra húsameistara um viðbótarbyggingu fyrir starfsemi þingsins á svæði, sem takmarkast af Templarasundi, Kirkjustræti Tjarnargötu og Tjörninni.

Forsetum Alþingis er falinn undirbúningur þessarar samkeppni, þar með talin skipun manna í dómnefnd ásamt þeim.“

Á þeim merku tímamótum, sem Alþingishúsið á um þessar mundir, er ekki óeðlilegt að rætt sé um framtíðarþróun á húsakosti Alþingis. Alþingishúsið hefur nú um hundrað ára skeið verið þinghús þjóðarinnar, en við breyttar aðstæður og við fjölgun þingmanna og starfsliðs þingsins er stöðugt vaxandi þörf að hugað sé að framtíðarskipulagi og nýjum byggingum sem leyst gætu úr þeim erfiðleikum sem húsnæðið veldur. Með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að Alþingi starfi áfram í þessu húsi og í byggingum í nágrenni þess, og þar sem talið er að nægilega rúmgott svæði sé hér í nágrenninu er mjög æskilegt að samkeppni fari fram um skipulag og gerð viðbótarhúsnæðis fyrir Alþingi.

Fjvn. hefur rætt málið á nokkrum fundum og fengið húsameistara ríkisins, Garðar Halldórsson, til viðræðu um það. Nm. eru sammála um að efna til samkeppni um hugmyndir að skipulagi á framtíðarhúsakosti Alþingis sem fram færi á þeim grundvelli að engin ákvörðun yrði tekin fyrr en þær liggja fyrir. Einnig bendir n. á að haft sé samráð við húsameistara ríkisins og skipulagsyfirvöld við undirbúning samkeppninnar. Allir nm. eru sammála um að leggja til við Alþingi að þáltill. verði samþykkt með þeim orðalagsbreytingum sem eru í brtt, fjvn. á þskj. 920.

Tillgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Í tilefni af hundrað ára afmæli Alþingishússins ályktar Alþingi að fela forsetum þingsins að gangast fyrir samkeppni um gerð og skipulag viðbótarbyggingar fyrir starfsemi þingsins á svæði sem takmarkast af Templarasundi, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Tjörninni. Verði samkeppnin við það miðuð að heimkynni Alþingis skuli áfram vera í núverandi þinghúsi svo og í byggingum í næsta nágrenni þess.

Forsetum Alþingis er falinn undirbúningur þessarar samkeppni, þar með talin öflun forsendna fyrir gerð útboðsgagna í samráði við húsameistara ríkisins og skipulagsyfirvöld.“