21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4809 í B-deild Alþingistíðinda. (5067)

279. mál, starfsskilyrði myndlistarmanna

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn., sem liggur fyrir á þskj. 977, um till. til þál. um skipun nefndar til að kanna starfsskilyrði myndlistarmanna. Í till. þessari felst, eins og menn væntanlega rekur minni til, ályktun um að Alþingi fell ríkisstj. að skipa sex manna nefnd sem kanni starfsskilyrði myndlistarmanna hér á landi og ekki að ófyrirsynju. Það er kunnugt að hér á landi er mikill áhugi á myndlist, að ég hygg nokkuð óvenjulegur, en að sama skapi verður ekki sagt að myndlistarmönnum séu tryggð bærileg kjör.

Í nágrannalöndum okkar hefur á síðustu árum orðið nokkur vakning meðal myndlistarmanna að gæta réttinda sinna á sama hátt og aðrir listamenn. Enginn tæki bók til prentunar án þess að semja við höfund hennar né tónlistarverk til flutnings án þess að tala við höfundinn um greiðslu. En svo hefur verið síðan elstu menn muna að myndlistarverk eru fengin á sýningar án þess að nokkur greiðsla komi fyrir.

Það er auðvelt að hugsa sér hver kjör þeirra myndlistarmanna eru sem t. d. fást við að höggva myndir, stór verk sem eru lítill söluvarningur nema til opinberra aðila, og ber ekki síst að huga vel að starfskjörum þeirra. Hér á hinu háa Alþingi var lagt fram í dag frv. til l. um listskreytingasjóð ríkisins og mælti hæstv. menntmrh. fyrir því. Með því frv. tel ég að mikilvægt skref sé stigið til þess að bæta kjör myndlistarmanna, auk þess sem í því felst einnig aukið framlag til verkefna fyrir myndlistarmenn landsmönnum öllum til ánægju og yndis. Þrátt fyrir það held ég að þessi till. eigi fullan rétt á sér og beri að fagna gerð hennar. Nefndin fjallaði um till. og varð sammála um að mæla með samþykkt hennar. Fjarverandi afgreiðslu málsins var einn nm., Steinþór Gestsson.