21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4809 í B-deild Alþingistíðinda. (5069)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að ljá mér rúm með mál mitt utan dagskrár nú í mikilli tímaþröng í lok þingsins. Ég verð hins vegar að segja það, að hafi ég haft slæma samvisku af þessu uppátæki mínu róaðist hún dálítið eftir að hafa hlustað á Helguvíkurumræðurnar að undanförnu í kvöld, enda þótt þar væri að sjálfsögðu um dagskrármál að ræða.

Ég ætlaði mér að minnast hér á fíkniefnamál, hver er staða þeirra hér á landi okkar í dag og hvað er þar að gerast. Ég geri mér alveg grein fyrir að hér verður að fara með gát, án upphrópana og hávaða, í umfjöllun um þessi vandasömu og mjög svo viðkvæmu mál. Ég hef hins vegar undrast nokkuð hve afdráttarlausar staðhæfingar ábyrgra aðila um uggvænlega þróun þessara mála, sem komið hafa fram í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu, hafa vakið lítil eða nánast engin viðbrögð eða andsvör. Og ég hef spurt mig sjálfa hvort það sé hugsanlega merki um hættulegt andvaraleysi alls almennings, Alþingis og stjórnvalda í þessum málum.

Ég mun hér í stuttu máli skýra nokkuð, hvað ég á við, og benda á nokkrar meginstaðreyndir. Beini ég þá máli mínu sérstaklega til hæstv. dómsmrh. og raunar einnig hæstv. heilbrrh. sem þessi mál heyra undir.

Fregnir sem telja verður áreiðanlegar, greina frá stórauknu framboði eiturlyfja í heiminum um þessar mundir vegna óvenjugóðrar uppskeru eiturefnajurta. Allar líkur eru jafnframt taldar á að ásókn í nýja markaði muni að sama skapi aukast.

Á sama tíma greinir íslenskur rannsóknarlögreglumaður, Óskar Þormóðsson, sem starfar í fíkniefnalögreglunni frá því í blaðaviðtali í Tímanum 11. apríl s. l. og fullyrðir að hér á landi sé smygl og dreifing fíkniefna orðin harðsvíruð atvinnugrein, hér hafi myndast glæpaflokkar með tilheyrandi lífverði í kringum sig. Hann bendir á að söluhagnaður af einu hasskílói hérlendis geti numið um 13 millj. gamalla kr. Sé markaðurinn 500 kg á ári næmi það samkv. fyrrnefndu verði um 8–9 milljörðum kr. árlega.

Í grein eftir bandarískan lagaprófessor, Henry McGee, sem birtist í Morgunblaðinu 26. mars s. l. og byggð er á samtali hans við íslenskan fíkniefnadómara, Ásgeir Friðjónsson, er sýnt fram á með tölum úr réttarskýrslum að fíkniefnaneysla hafi farið vaxandi hér á landi á s. l. ári. Álit manna úr fíkniefnadeild lögreglunnar ber að sama brunni. Fullvíst er talið að hið stórhættulega efni TCP, sem á íslensku er kallað englaryk, hafi nú borist hingað. Af og til lesum við í dagblöðunum ákveðinn og fávíslegan áróður fyrir skaðleysi kannabisefna og hassreykinga, en fátt er um andsvör. Þó vil ég benda sérstaklega á athyglisverða skýrslu frá landlækni, Ólafi Ólafssyni, sem byggð er á niðurstöðum rannsókna bandarískra heilbrigðisyfirvalda. Þessi skýrsla var lesin í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum vikum. Helstu niðurstöður voru þessar:

„Kannabisnotkun hefur alvarleg áhrif á geðheilsu fólks. Vaxandi fjöldi fólks á aldrinum 30—40 ára, m. a. í Svíþjóð, leitar nú til geðsjúkrahúsa, haldið geðklofa eða heilarýrnun. Einkennin koma yfirleitt fyrst í ljós eftir 10–20 ára neyslu. Kannabisreykjendur draga sig í hlé frá daglegum önnum, takast ekki á við vandamál, hættir til að hverfa inn í eigin skel. Minni versnar og skilningur sljóvgast. Kannabisreykur inniheldur mun meira af krabbameinsvaldandi efni en tóbaksreykur.“

Hvernig er staðið að vörnum og andspyrnu gegn eiturlyfjaneyslu á Íslandi? Í stuttu máli þannig:

Árið 1973 var stofnaður fíkniefnadómstóll í Reykjavík. Við hann starfa nú tveir dómarar í náinni og að mér er sagt mjög góðri samvinnu við sérstaka fíkniefnadeild innan lögreglunnar í Reykjavík sem nú er skipuð sjö mönnum, var fjölgað um tvo á s. l. ári.

Ég hygg að segja megi að brugðið hafi verið skynsamlega við af hálfu íslenskra yfirvalda þegar vart varð að ráði tilkomu eiturlyfjaneyslu hér á landi fyrir rúmum áratug. Hitt er svo annað mál, hvort nóg er að gert og hvort við erum nú nægilega vel búin undir harðnandi átök sem ýmislegt bendir til að séu í vændum gegn þessum ægilega vágesti til viðbótar áfengisvandamálinu, svo alvarlegt sem það er.

Ég vil — með leyfi forseta — vitna hér til grg. um stöðu fíkniefnarannsókna á Íslandi árið 1980, sem tekin er saman af Guðmundi Gígja, sem er elstur í starfi og reyndastur í fíkniefnadeild lögreglunnar:

„Neysla á kókaíni á Íslandi er nokkur og virðist fara ört vaxandi. Verð á heróíni og kókaíni hefur fallið mjög og orðið viðráðanlegra til almennra nota. Er því ljóst að Ísland muni ekki fara varhluta af þessu vandamáli ef þróunin heldur áfram, en ekkert virðist benda til annars.

Fíkniefnadeild lögreglunnar er mjög vanbúin til að mæta þeim vandamálum sem augsýnilega eru á næsta leiti og þegar komin til Íslands í einhverjum mæli, þ. e. heróín og kókaín.

Þeir aðilar, sem stunda fíkniefnaviðskipti, hafa á undanförnum árum harðnað mjög í afstöðu sinni til lögreglunnar. Það hefur gerst í vaxandi mæli að starfsmenn fíkniefnadeildarinnar leggi hald á byssur af ýmsu tagi. Oftast hafa þeir aðilar, er byssurnar höfðu, ekki leyfi fyrir þeim. Og fyrir stuttu var lagt hald á allmikið magn af dýnamíti sem fíkniefnaneytendur höfðu undir höndum. Ljóst er að þeir aðilar, sem fíkniefnadeildin hefur með að gera í yfirheyrslum og mislöngu varðhaldi, eru farnir að velta fyrir sér ýmsum möguleikum til að losna við hnýsni starfsmanna deildarinnar. Þetta undirstrikar vaxandi hörku í þessum málum hér á landi“.

Í viðtali, sem ég átti við Guðmund Gígja, kom fram að enda þótt hann teldi mikla bót að auknu húsrými fíkniefnadeildarinnar og fjölgun starfsmanna, þá taldi hann mikið á skorta að starfsskilyrði væru sem skyldi, sérstaklega að því er varðar allan tækjabúnað, svo sem ljósmyndavélar, sjónauka, bílakost, talstöðvar og símtæki. Þannig hefðu þeir ekki beint símasamband út um land, því síður til útlanda. Þeir yrðu að tala í gegnum langlínusambandið, 02, sem augljóst er að er ákaflega óheppilegt, að ekki sé meira sagt, þegar um er að ræða svo viðkvæm mál sem hér eru annars vegar.

Fíkniefnadeildin þarf að sinna öllu landinu, en hefur þó ekki til þess formlegt umboð. Starfsvið hennar er Reykjavík og heyrir undir embætti lögreglustjórans hér. Skortir verulega á að starfsmenn hafi fengið nauðsynlega sérhæfða fræðslu og starfsþjálfun.

Ég vil taka fram að Guðmundur hafði ekki í frammi stór orð í samtali okkar né klögumál á hendur einum eða neinum, en ég heyrði að honum var mikið niðri fyrir. Staðreynd er það, að fimm af sjö og um leið allir reyndustu starfsmenn fíkniefnadeildarinnar hafa sótt um annað starf hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins sem mundi þó lækka þá í launum um tvo launaflokka svo að um óánægju með launakjör er hér ekki að ræða.

Ég vil að lokum ítreka að þær ábendingar, sem ég hef sett fram hér að framan, eru fyrst og fremst ætlaðar hv. alþm. til athugunar og íhugunar, en ekki til að blása málið upp í fjölmiðlum. Ég sé að fáir alþm. hafa áhuga á þessum málum. Helguvíkurmálið var að sjálfsögðu miklu skemmtilegra.

Lokaorð mín skulu vera ummæli landlæknis í áður tilvitnaðri skýrslu um eiturlyfjamál, en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þess, að kostnaður við eitt legurúm á geðdeildum skiptir tugum milljóna á ári, vonast ég til, að fjvn. Alþingis auki mjög fjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða á þessu sviði. Enn fremur þarf að efla fíkniefnalögregluna. Hún er vanbúin að búnaði og mannafla. Það mun rétt vera, að staðan í þessum alvörumálum er betri hér en í nágrannalöndum okkar. Landið er einangrað, við erum fámenn og við ættum að hafa öll skilyrði til að standa nokkuð vel að vígi. Hjá frændum okkar á Norðurlöndunum er vandamálið hrikalegt og frá þeim hafa ítrekað komið aðvaranir til okkar að bregðast við í tíma, áður en það er of seint.“

Til þess er leikurinn gerður nú af minni hálfu að hvetja til árvekni í þessum efnum, gefa gaum að hættumerkjum og bregðast við með réttum hætti.

Ég þakka hæstv. forseta. Ég var eitthvað lengur en mér var ætlað.