12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég veit að ekki hafa farið fram hjá neinum hv. alþm. þær óhugnanlegu fréttir sem okkur hafa borist í fjölmiðlunum síðustu daga varðandi umferðarslys. Eitt þessara slysa varð mér að sérstöku umhugsunarefni. Ég hef séð það á ferðum mínum víða erlendis að þar sem bifreið bilar á vegum úti geta bílstjórar og eiga að fara í farangursgeymslu bílsins, draga fram samanlagt aðvörunarmerki, sem þar á að geyma og koma því upp fyrir aftan bílinn til þess að önnur farartæki, sem eiga leið þar um, sjái, að um bilað farartæki er að ræða, og menn geti verið að vinna við það úti á akreininni. Ég átti tal við yfirlögregluþjón Reykjavíkurborgar, hr. Bjarka Elíasson, um þetta, og hann kannaðist vel við að þetta væri í reglugerðum og jafnvel lögfest erlendis, en svo væri ekki hér heima.

Þegar við ræddum áfram um þetta vandamál tjáði hann mér að umferðarnefnd svokölluð væri nú sest á rökstóla á ný og hefði hafið störf til að endurskoða umferðarlögin. Ég veit að hv. dm. fyrtast ekki við þó að ég leyfi mér að beina þeim tilmælum til hæstv. dómsmrh., sem fer með þessi mál, hvort hann vilji ekki óska eftir því við nefnd þessa, en formaður hennar mun vera lögreglustjórinn í Reykjavík, að athuga hvort ekki sé ástæða til að taka upp þetta nýmæli hér á landi og skylda bíleigendur til að hafa slíkt aðvörunarmerki í bilum sínum svo að það megi setja upp þegar svona stendur á. Ég held að með slíkri aðvörun getum við hjálpað til við að fyrirbyggja að annar slíkur atburður eigi sér stað eins og varð fyrir skömmu og hafði í för með sér hörmulegt dauðsfall.