21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4815 í B-deild Alþingistíðinda. (5075)

281. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um lífeyrissjóð sjómanna, en frv. þetta hefur þegar verið afgreitt frá hv. Nd.

Eins og kunnugt er hafa allverulegar breytingar verið gerðar á ýmsum lífeyrissjóðalögum á þessum vetri, og eitt af þeim frv., sem ríkisstj. hefur lagt fram, er þetta frv. sem varðar sjómenn. Þar er það atriði stærst og mest, að sjómönnum, sem hafa stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur og verið lögskráðir á íslensk skip eigi skemur en í 180 daga að meðaltali á ári, er heimilt að hefja töku ellilífeyris þegar þeir verða fullra 60 ára. Á sama hátt veitir 20–25 ára starf á sjó rétt til töku ellilífeyris frá 61 árs aldri og 15–20 ára starf til töku hans frá 62 ára aldri. Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 75 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris vegna réttinda, sem áunnin voru fram til 65 ára aldurs, um hálft prósent fyrir hvern mánuð sem töku hans er frestað fram yfir 65 ára aldur. Benda má á að áður höfðu verið gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar sem veittu sjómönnum samsvarandi rétt til lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins þegar þeir ná 60 ára aldri og uppfylla samsvarandi skilyrði og frá er greint í þessu frv.

Frv. þetta er flutt í samræmi við loforð ríkisstj., bæði þessarar stjórnar og þeirrar stjórnar sem sat hér á árunum 1978–1979, og felur í sér umtalsverð hlunnindi í þágu sjómanna. Hins vegar má segja að þetta sé að nokkru til samræmis við þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa fengið með lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, þar sem þeir hafa möguleika á að komast á lífeyrisaldur 60 ára gamlir ef samanlagður starfsaldur og aldur þeirra nær 95 árum. Í þessu tilviki er hins vegar reglan miklu mildari og þarf ekki að vera um jafnlangan starfstíma að ræða og þegar um er að ræða opinbera starfsmenn.

Herra forseti. Í þessu frv. eru einnig nokkrar minni háttar breytingar sem ég vil nú ekki tefja tímann með að gera grein fyrir þar sem gerð er grein fyrir þeim í grg frv. Einnig voru nokkrar minni háttar breytingar gerðar á frv. við meðferð málsins í Nd. sem koma skýrt fram í nál. og till. nefndarinnar sem fjallaði um þetta mál í Nd. Er sjálfsagt að nefndin, sem fær þetta mál til meðferðar, taki þær breytingar allar til athugunar. En þar var ekki um að ræða verulegar efnisbreytingar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til hv. fjh.- og viðskn.