12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Vegna tilmæla hv. 1. landsk. þm. vil ég taka þetta fram:

Það er eðlilegt að allir hugsandi menn leiti í huga sínum allra tiltækra ráða til að reyna að koma í veg fyrir hin alvarlegu og allt of tíðu slys í umferðinni. Hv. 1. landsk. þm. hefur nú bent á eitt atriði, þ.e. aðvörunarmerki sem víða erlendis er skylda að geyma í farangursgeymslu bifreiðar til að nota ef óhapp verður og bifreiðin verður að nema staðar á vegum úti. Ég mun að sjálfsögðu taka tilmæli hans til greina og fela þeirri nefnd, sem nú vinnur að heildarendurskoðun á umferðarlöggjöfinni undir forustu Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra í Reykjavík, að athuga þetta mál. Mér er kunnugt um að nefndin heldur nú tíða fundi og leitar allra ráða í þessum málum. Ég mun þegar í stað koma þessum tilmælum hv. þm. á framfæri við nefndina og biðja hana að athuga þau.