21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4816 í B-deild Alþingistíðinda. (5080)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, kemur til okkar aftur úr Nd. Þetta frv. er hálfgerður munaðarleysingi því að það er hér enginn til að mæla fyrir þeim breytingum sem gerðar voru í Nd. Ég hefði getað komið til aðstoðar í því efni ef það hefði verið mælt með breytingunni í Nd. Ég hef kynnt mér hvað fór þar fram. Þar var ekki heldur mælt neitt fyrir þessari breytingu eða skýrt hvers eðlis hún væri og hverjar ástæðurnar væru fyrir henni. En breyting sú, sem hér er um að ræða, er sú, að þetta frv. er til laga um landakaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna. Þegar það fór úr Ed. hét það frv. til laga um landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna. Hv. Nd. hefur breytt þessu orði: „landkaupasjóð“ í: landakaupasjóð.

Meiri hl. félmn. Nd. lagði þetta til. Nefndin klofnaði svo að það var ekki eindrægni um þessa breytingu. Hv. frsm. félmn. Nd., hv. þm. Alexander Stefánsson, formaður n., mælti fyrir nál., en kvað ekkert á um það, hvers vegna brtt. þessi, sem meiri hl. n. lagði fram, væri flutt, færði engar ástæður fyrir því. Því miður get ég því ekki skýrt það með því að vitna í umr. þar.

Hins vegar mælti hv. þm. Friðrik Sophusson, sem á sæti í félmn. Nd., gegn þessari brtt. og hann hafði lög að mæla svo sem oft áður.

Þá talaði annar hv. þm., hv. þm. Halldór Blöndal, og mér þykir rétt að gera hér grein fyrir því sem hann sagði. Ég hygg að það sé eðlilegt að taka nokkurt mark á því, því að þessi hv. þm. er hagmæltur, hefur góðan smekk á íslensku máli og ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að fara með ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, ræðuna alla því að hún er bara nokkrar setningar. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil vekja athygli á því, að á undanförnum áratugum, einkanlega hinum síðustu, hefur tilfinning manna fyrir máli mjög dofnað. Menn hafa ekki sömu tilfinningu og áður fyrir því, hversu miklu fallegra er þegar samsett orð eru stofnsamsett, hversu miklu fallegra sé landkaupasjóður en landakaupasjóður, landspítali en landsspítali ellegar landaspítali. Fyrir þær sakir harma ég þessa niðurstöðu nefndarinnar, en vonast til þess að deildin átti sig og fyrirsögn frv. verði óbreytt.“

Hér lýkur tilvitnun og lýkur ræðu hv. þm. sem ég vitnaði í. Ég vitnaði í hana vegna þess að hér er um að ræða kjarna málsins, þ. e. að menn gæti þess að hafa tilfinningu og næmi fyrir íslenskri tungu, og það var á þeirri forsendu sem hv. félmn. þessarar deildar bar fram brtt. við 2. umr. í þessari deild um að breyta landakaupasjóði í landkaupasjóð.

Ég vil geta þess, að þó að ég hefði nákvæmlega sömu tilfinningu fyrir þessu máli og hv. þm. Halldór Blöndal sem ég vitnaði í, þá þótti mér rétt að sýna þá varfærni, áður en ég lagði til við hv. félmn. að flytja þessa brtt., að ég talaði við kunnáttumenn í íslenskum fræðum. Ég fletti upp í orðabók Sigfúsar Blöndals sem reynist mér alltaf haldgóð. Það bar alls staðar að sama brunni, að það væri óhætt að bera fram þessa brtt. Og hv. félmn. þessarar deildar gerði till. að sinni tillögu.

Hér í hv. deild var í raun og veru engin andstaða gegn þessari till. Að vísu stóð upp hv. 4. þm. Norðurl. e. og fór nokkrum orðum um þessa till. Þeir, sem þekkja ekki vel þennan ágæta mann, hefðu mátt ætla að hann væri að snúast mjög vasklega gegn þessari till. En við, sem þekkjum hann betur, fundum strax að hér var á ferðinni hin góðlátlega kímni og glettni sem oft einkennir ræður þessa hv. þm. og við öll í þessari deild kunnum vel að meta, enda kom á daginn, þegar atkvæði voru greidd um till., að þá greiddi hv. 4. þm. Norðurl. e. að sjálfsögðu atkvæði með henni, því hann ætlar ekki m. a. að fara að breyta neitt talsmáta sínum og hætta að tala um landsal og fara að tala um landasal eða eitthvað slíkt, kemur það ekki til hugar.

En þegar ég heyrði ótíðindin úr hv. Nd. þar sem þeir hafa breytt þessu aftur til hins verri vegar þótti mér rétt að gera sérstakar ráðstafanir. Ég ákvað að eiga viðræður við færasta núlifandi Íslending í þeim fræðum sem þetta varðar sérstaklega, orðmyndunarreglum íslenskrar tungu. Og ég gerði þetta. Ég hef hér álit þessa fræðimanns um þetta atriði og leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa það upp:

„Orðin landkaup og landakaup koma bæði fyrir í fornu máli, sbr. orðabækur Johanns Fritzners og Guðbrands Vigfússonar. Bæði orðin merkja kaup á landi. Þó getur landakaup einnig merkt skipti á landi, „exchange of land“, sbr. hnífakaup. Alkunnugt dæmi um landkaup er í Laxdælu. Bolli hafði landkaup í Tungu að ráði Ólafs, sbr. Íslensk fornrit, V, 159.

Bæði orðin eru rétt mynduð samkvæmt orðmyndunarreglum íslenskrar tungu. Vera má að andstaða við orðið landkaup stafi af því, að fólki finnist að stofn orðs í samsetningu geti aðeins átt við eintölu. Ef menn leiða hugann að orðum eins og fiskbúð, kemur í ljós að það táknar ekki búð þar sem seldur er einn fiskur, heldur margir fiskar, meira að segja margar fisktegundir. Með orðinu kaup er hægt að nota sem fyrri lið í samsettu orði stofn, t. d. fiskkaup, það er hægt að nota eignarfall eintölu, t. d. fjárkaup, það er hægt að nota eignarfall fleirtölu, t. d. hrossakaup, og auk þess er hægt að nota lýsingarorð, t. d. lausakaup. Til gamans mætti benda á að orðið landakaup mætti misskilja sem kaup á heimabrugguðu áfengi. (StJ: Það var nú orsökin fyrir þessu öllu saman.) Þá má og geta þess, að landsala kemur fyrir í formáli, en landasala ekki að því er séð verður af orðabókum.

Reykjavík, 20. maí 1981.

Halldór Halldórsson.“

Þetta er álit Halldórs Halldórssonar prófessors í íslensku. (StJ: Var það ekki Halldór Blöndal?) Ég þarf ekki að ræða hér um gildi þessa vitnisburðar þegar hann kemur frá manni eins og Halldóri Halldórssyni, sem er viðurkenndur fræðimaður í þessu efni og ég hika ekki við að segja að sé færastur allra núlifandi Íslendinga um allt sem viðkemur orðmyndunarfræði íslenskrar tungu. (Gripið fram í: En hver er niðurstaðan?)

Nú þykir mér augljóst, og ég vænti þess, að það þurfi naumast að segja það hér í þessari hv. deild, að það er ekki annað sæmandi fyrir þessa deild en að halda við það sem hún hefur samþykkt. Hv. félmn. deildarinnar hefur einróma samþykkt að leggja fram þá brtt. sem hér er á þskj. 1007 og er um það, að við höldum okkur við það hér í hv. Ed. sem við höfum þegar gert og er vel gert, en látum ekki hafa áhrif á okkur það sem skeður í neðra, hvað þá heldur þegar það er svo vafasamt sem hér er um að ræða.