21.05.1981
Efri deild: 115. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4820 í B-deild Alþingistíðinda. (5082)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það var gaman að hlusta á þessa skemmtilegu ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ef hann hefði ekki sagt nokkrar skyssur hefði verið ástæðulaust að biðja hér um orðið og stíga upp í ræðustólinn á eftir. Að vísu tek ég ekki alvarlega margt sem hann sagði, þó að það mætti mikið um það tala. Þessi ræða öll byggðist á nokkrum misskilningi sem kom gleggst fram í því, þegar hv. ræðumaður sagði að núna væri ekki lengur um efnisatriði að ræða, heldur málsmekk.

Það er nokkur ónákvæmni sem kemur fram í þessu. Það hefur aldrei verið um neitt efnisatriði að ræða í þessu máli. Það tók ég strax fram. En hv. þm. er ákaflega hugleikið að nefna heimabruggað áfengi eða landa í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Ég veit það nú ekki, en ég held að hv. 4. þm. Norðurl. e. meti þann drykk ekkert sérstaklega, ég hef aldrei orðið var við það, heldur betri drykki. Ég skil ekki hvað kemur til þess, að hv. þm. er alltaf að tala um þetta. Svo fer hann að flétta saman við þetta einhverju máli í Garðabæ. Það hefur engum komið til hugar, hvorki mér né öðrum í hv. félmn., að tengja þetta á nokkurn hátt við það. Ég vona að þetta sé ekki neitt tilfinningamál fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e. En ég bara skil ekki hvers vegna hann er alltaf að tala um þetta.

Hv. þm. sagði að prófessor Halldór Halldórsson væri enginn hæstiréttur í þessu efni. Það er alveg rétt. Ég sagði það ekki, svo að hann þurfti ekki að leiðrétta mig í því efni. Svo hafði hann gaman af því, henti gaman að því, að ég skyldi vera svo hófsamur og nákvæmur að ég taldi Halldór Halldórsson besta núlifandi fræðimanninn í þessu efni, en að ég skyldi ekki segja að hann væri mesti fræðimaður fyrr og síðar. Það var nú þannig að ég vildi ekki taka svo mikið upp í mig.

Ég sagði að þessi ræða hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði verið skemmtileg. Þessi umr. er skemmtilegust fyrir það, að ég gat ekki merkt það á því sem hann sagði, að það væri nein breyting orðin á þeirri afstöðu sem hann tók hér við 2. umr. málsins þegar hann greiddi atkvæði með brtt. sem er nákvæmlega eins og sú sem hv. félmn. leggur núna fram.