21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4824 í B-deild Alþingistíðinda. (5092)

213. mál, dýralæknar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er sú hugmynd að skipta Þingeyjarþingsumdæmi í tvö dýralæknishéruð komin frá bændum í Þingeyjarsýslu og frá dýralækninum á Húsavík. Þaðan er frumkvæðið komið og dýralæknirinn á Húsavík hafði um það samráð við annan dýralæknanna á Akureyri, þann sem hefur gegnt því í Hálshreppi, þannig að um þessa skiptingu, sem gert var ráð fyrir í frv., var að öllu farið eftir tillögum dýralæknisins. Þegar talað er um, að ég hafi misst áttir og þekki ekki bæi og hreppamörk í Aðaldal, Reykjadal eða Kinn, þá er með því verið að ætla dýralækninum á Húsavík að hann hafi ekki kunnugleika í þessum efnum. Ég verð því að harma að þau ummæli skulu hafa fallið hér í deildinni.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, vegna þess að hv. 2. þm. Norðurl. e. beitti þeim rökum varðandi Öxarfjarðarhrepp, að eðlilegra væri að Austur-Þingeyjarþingsumdæmi næði að Öxarfjarðarnúp vegna betri samgangna við Húsavík en við Þórshöfn, að hið sama hlýtur þá að gilda um Presthólahrepp og Fjallahrepp. Má vera að það séu hugmyndir hv. 2. þm. Norðurl. e. að taka þessa hreppa alla undan dýralæknisumdæminu á Þórshöfn. En ef það eru hans hugmyndir, þá eru þær ekki í samræmi við hugmyndir flokksbróður hans, Eggerts í Dal, sem hefur sent landbn. bréf, þar sem allt önnur sjónarmið koma fram.

Um Hálshrepp vil ég aðeins segja það, að samgöngur allar liggja frá Hálshreppi til Akureyrar. Það er því afskaplega eðlilegt að oddviti Hálshrepps taki því ekki með þökkum ef á að kljúfa í sundur dýralæknisþjónustuna og póstþjónustuna, kljúfa í sundur dýralæknisþjónustuna og mjólkurflutninga, því að vitaskuld liggur betur við að meðul og annað berist til Hálshrepps frá Akureyri heldur en frá Húsavík, ég tala ekki um þegar Leiruvegur verður kominn. Ég ætla að vegalengdin frá Akureyri að brú á Fnjóská sé um 20 km, en um 60-70 km frá Húsavík, en bændur hafa einmitt lagt upp úr því, að vegalengdir séu sem skemmstar þar sem þjónusta dýralækna er kostnaðarsöm. Það er því mikið í húfi að dýralæknir sé sem næst þeim sem þjónustuna eiga að fá.

Ég geri mér grein fyrir því, að það er hægt að vekja upp deilur um hvort rétt sé að annar dýralæknirinn sé á Stóru-Tjörnum, Breiðumýri eða Húsavík. Það er létt verk. Þeir, sem næst búa Stóru-Tjörnum, geta vel hugsað sér að dýralæknirinn sé þar. Þeir, sem næst búa Breiðumýri, geta vel hugsað sér að dýralæknirinn sé þar. Það gefur auga leið. En hitt vitum við, að dýralæknir á Breiðumýri er ekki hóti nær þeim í Kinn heldur en dýralæknir á Húsavík. Það er því ekki umhyggjan fyrir þjónustu við bændur sem er á bak við þær hugmyndir að stía í sundur þeim dýralæknum sem báðir mundu þjóna Þingeyjarþingi. Á Akureyri eru tveir dýralæknar búsettir. Erlendis hefur það þróast svo að smám saman hefur tekist mjög árangursrík samvinna milli tveggja dýralækna sem búsettir eru á sama stað, en betra þykir að hafa skýr mörk ef upp skyldi koma ágreiningur milli dýralækna. Inn í þetta mál blandast að engu leyti þau sjónarmið, að dýralækni langi til að gína yfir bæjum sem undir eðlilegum kringumstæðum ættu að heyra undir annan dýralækni. Það er þess vegna ekki um það að ræða.

Ég hef borið þessa skiptingu undir bændur fyrir norðan, hringt í bændur í Suður-Þingeyjarsýslu og spurt þá hvort þessi skipting sé eðlileg, ekki síst eftir að ég heyrði undarlegar sagnir um það, að sitthvað væri missagt varðandi orðalagið „norðan Hafralækjarskóla“, og ber bændum saman um að mestu máli skipti að bæta dýralæknisþjónustuna. Þeir vitna til þess, að sauðburður stendur nú yfir, og tala um að dýralæknirinn sé ekki of sæll af þeim önnum sem hann er nú í. Það er því af brýnni þörf sem farið er fram á að fjölga dýralæknum.

Ég hélt að ég mundi ekki lifa það varðandi bændur í Suður-Þingeyjarsýslu að jafnvel þótt Sjálfstfl. fengi til fulltingis við sig stuðning Alþfl. á Alþingi mundi Framsfl. standa fastur gegn því, að komið yrði til móts við bændur í vöggu samvinnuhreyfingarinnar að þessu leyti. En ég held að engum manni dyljist að hv. 2. þm. Norðurl. e. er svo mikið í mun, að ekkert mál nái fram að ganga varðandi hagsmuni kjósenda hans fyrir norðan nema hann sé þar flm., og hæstv. landbrh. sé svo mikið í mun að fá að fjölga dýralæknum á næsta þingi, að undir engum kringumstæðum megi vilji þingsins koma fram í þessu máli. Við sjáum, hvernig afgreiðslan var í Ed. varðandi fjölgun dýralækna á Suðurlandi og Austfjörðum, og vitum, að meiri hl. Alþingis er með þeirri fjölgun. Ég efast heldur ekki um að ef Alþingi starfaði í einni deild mundi meiri hl. vera fyrir fjölgun dýralækna fyrir norðan. Það er þess vegna um það að ræða, að einstakir menn í Nd. leggja á það ofurkapp að drepa þetta mál og hafa sem skálkaskjól í þeim efnum að ágreiningur sé fyrir norðan um búsetu dýralæknisins þó fyrir liggi að bæði Búnaðarsamband Norður-Þingeyjarsýslu og Búnaðarsamband Suður-Þingeyjarsýslu mæla með samþykkt frv.

Ég vil vekja athygli á því, að í maímánuði hefst að öðru jöfnu undirbúningur undir næstu fjárlög, og ég tel, að það sé nauðsynlegt að heimild frá Alþingi um fjölgun dýralækna liggi þegar fyrir til þess að hægt sé að gera ráð fyrir henni í fjárlagafrv. þegar það verður lagt fram á næsta hausti. Það er jafnframt þýðingarmikið til þess að unnt sé fyrir þá, sem vildu setjast að fyrir norðan, að fá úr þessu skorið í tíma til þess að seinagangur Alþingis tefji ekki þetta mál.

Ég vil svo að lokum segja það, að varla mundi það breyta miklu um skipan dýralæknisumdæma fyrir norðan þótt Öxarfjarðarhreppi yrði eftir á bætt við Austur-Þingeyjarþingsumdæmi ef það þætti henta. Það mundi engu breyta um nauðsyn þess, að tveir dýralæknar komi í Suður-Þingeyjarsýslu. Ef henta þætti á næsta hausti að flytja til búsetu annars dýralæknisins mætti gera það þegar í stað þegar þing kemur saman, en ég legg áherslu á nauðsyn þess allra hluta vegna að Alþingi taki þegar af skarið um skiptingu Þingeyjarþingsumdæmis. Beiðnin um það er ekki auglýsingamál einstakra þm. Frumkvæðið kom úr héraðinu sjálfu. Þeir, sem báðu um að frv. væri flutt, voru bændur í Suður-Þingeyjarsýslu og höfðu í höndunum bréf dýralæknisins um það.

Ég vil svo að lokum segja það, herra forseti, að ég þakka fyrir að þetta mál fékk að koma á dagskrá þessa fundar. Enn er nægur tími til að málið fái hér þinglega meðferð ef vilji er til þess hjá einstökum þm. Ég trúi því ekki, að í máli eins og þessu haldi flokksböndin. Ég trúi því ekki, að stjórnarþm. bindi sig við þröngsýni einstakra manna í þessari deild sem vilja standa á móti framgangi nauðsynjamála fyrir bændur í þrem kjördæmum.