21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4826 í B-deild Alþingistíðinda. (5093)

213. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tefja þetta mál, en ég kemst ekki hjá því að segja hér nokkur orð samt sem áður.

Það, sem ég var að segja áðan, er úr umsögn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. Það er, Búnaðarsambandið, Helgi Jónasson formaður þess, sem leggur til að búseta þessa nýja læknis í vesturumdæminu verði annaðhvort á Stóru-Tjörnum eða Laugum. Ég ætla mér ekki þá dul að fara að segja fyrir um það, hvernig á að skipta þessum umdæmum þó að ég þekki nokkuð vel til þarna í mínu kjördæmi. Það verða aðrir að gera. Og það verða þeir að gera að mínum dómi sem búa þar en ekki hv. Alþingi. Mér dettur ekki í hug að ætla, þó að þetta frv. yrði að lögum á þessu þingi, að það verði kominn dýralæknir til starfa á þessu ári. Það er engin fjárveiting til þess.

Það eru engar skiptar skoðanir um það og það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram, að það hafi komið fram hjá mér eða nokkrum öðrum að þarna væri ekki þörf. Hún er bara víðar og hún er miklu víðar en í þessum þremur umdæmum sem hér er fjallað um. Ég veit um það, en ætla mér ekki að blanda mér inn í það frekar.

Ég legg einmitt áherslu á að lögin verði endurskoðuð og umdæmin og að því ljúki þannig að þessi fjölgun eigi sér stað um næstu áramót, vegna þess að ég held að með því móti sé ekki verið að tefja málið, langt frá því, heldur að fá skynsamlega niðurstöðu.

Ég gat um það, að ég hefði haft samband við formann Búnaðarsambands Suðurlands. Hann taldi vandséð að þetta væri sú rétta skipting, og hann sagði meira að segja annað. Hann sagði: Við erum ekkert betur settir að skipta þessu umdæmi, en fá svo engan til þess að þjóna því. Það er málið.

Það er dálítið skrýtið, að hv. stjórnarandstæðingar eru í öðru orðinu að tala um að við séum að flaustra af frv. án þess að athuga þau nákvæmlega, en svo erum við aftur skammaðir fyrir það í hinu orðinu að við skulum ekki vilja lögfesta frv. þegar undirbyggingin er eins og hún er í þessu tilviki.

Það getur vel verið að hv. þm. Halldór Blöndal ætli sér að hafa suðurhlutann af Aðaldælahreppi með austurumdæminu, en norðurhlutann aftur með vesturhlutanum. Ég hélt að þetta ætti að vera áframhald, vegna þess að Reykjadalur fylgir því að vestan og áframhaldið ætti að vera með því, en ekki að taka þarna spildu inn á milli. En þetta er kannske þeirra landafræði og þeirra tillögur. (HBl: Tillögur dýralæknisins.) En svona er flumbruhátturinn með öllu móti.

Herra forseti. Ég lofaði að vera stuttorður og hef lokið máli mínu.