21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4829 í B-deild Alþingistíðinda. (5101)

333. mál, listskreytingasjóður ríkisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ekki skal úr því dregið, að frv. um listskreytingasjóð ríkisins er af virðingarverðri náttúru. En mig langar til að leita svara við því hjá hæstv. forseta, hverju það sætir um t. a. m. tvö frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, annað flutt af nokkrum þm. Alþfl. og hitt af nokkrum þm. Sjálfstfl., það eldra er sennilega orðið tveggja mánaða gamalt, hverju það sætir að það er aftur og aftur tekið út af dagskrá og er ekki á þessari dagskrá. Það er alveg augljóst, þegar verið er að mæla fyrir nýjum frv. þegar svo er liðið á þing eins og nú, að það er ekki ætlast til að málið verði samþykkt. Það, sem skiptir máli, er að koma því í nefnd og senda það síðan út til umsagnar.

Ég segi það sem flm. að því fyrra máli sem ég nefndi, frv. sem fjallar um Grænmetisverslun landbúnaðarins, að mér er auðvitað ljóst að það er ekki spurning um hvort það verði afgreitt á þessu þingi eða ekki, það er spurning um að koma því í nefnd og koma því þaðan út til umsagnar. Og nákvæmlega sama gildir auðvitað um það frv. sem hæstv. menntmrh. er hér að fara að mæla fyrir. Hann gerir sér væntanlega ekki vonir um að málið verði afgreitt sem lög á þessu þingi, heldur er málið lagt fram til kynningar, því er komið í nefnd og þaðan sent út til umsagnar. Ég verð að segja að þetta er algerlega óeðlilegur forgangur, sem hæstv. ráðherrar hafa fram yfir almenna þm. í þessum efnum, og þetta er frekleg misnotkun á dagskrárvaldi, að ryðja ekki aðeins til hliðar, heldur út málum sem eru orðin tveggja mánaða gömul hér í deildinni, en setja inn mál í staðinn. Það verður einhver lágmarkssanngirni að ríkja í niðurröðun á efni. Herra forseti. Ég er með engum hætti að tala hér gegn hæstv. ráðh. eða hans málatilbúnaði, en þetta er ósanngjarnt með öllu.