12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég átti raunar von á að hv. 3. þm. Austurl. mundi tala í svipuðum dúr og hann gerði. Ég held að hann hafi í sambandi við þetta mál gleymt mörgum aðalatriðum málsins, þeim mannlegu þáttum sem beint snerta þetta mál, og honum hafi m.ö.o. láðst að tala út frá sjónarmiði hins almenna skattborgara, hins almenna launþega í landinu.

Eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á leggst stighækkandi tekjuskattur fyrst og fremst á launþega. Þessi háa skattprósenta fellur fyrst og fremst á þá. Það liggur fyrir að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa dregist mjög verulega saman á þessu ári, kaupmáttur hefur rýrnað, og hæstv. fjmrh. setti það markmið fram í fjárlagaræðu sinni að einkaneyslan mundi halda áfram að dragast saman á næsta ári. Jafnframt liggur það ljóst fyrir, ef ummæli einstakra ráðh. í blöðum og á öðrum vettvangi eru skoðuð, að ríkisstj. hyggst skerða þann kaupmátt sem náðst hefur með kjarasamningunum bæði í septembermánuði og í hinu almennu kjarasamningum sem nýlega er búið að skrifa undir. Ég álít að það sé afskaplega óheppilegt, á sama tíma og þannig er þrengt að kostum almennings í landinu, að auk þess sem skattprósentan hefur verið færð upp um 10% og nemur nú brúttó 65% skuli vera gerðar ráðstafanir til að þrengja kosti þeirra sem eru verst settir í þjóðfélaginu fyrir, mörg heimili hér í landinu sem hafa skuldaklafa.

Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum manni að hæstv. forsrh. hefur boðið að hann muni beita fortölum til þess að bankarnir dragi útlánastarfsemi sína saman. Okkur er ekki kunnugt um að neinar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru með húsnæðismálafrv., og hinir almennu lífeyrissjóðir, svo að ég taki t.d. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, hafa hlutfallslega verið að draga saman endurlán sín. Þetta liggur allt saman alveg ljóst fyrir. Kostir fólks eru því ekki jafnmargir og jafngóðir og áður.

Ástæðan fyrir því, að hér er lagt til að vaxtafrádrátturinn verði undanþeginn tekjuskatti eins og áður, er einfaldlega sú, að við teljum að það fari ekki saman að afnema þá reglu um leið og launatekjur heimilanna eru að minnka. Ég held að það sé nógu erfitt fyrir menn að sætta sig við versnandi lífskjör af þeirri ástæðu þó hitt bætist ekki ofan á, að þannig eigi að koma aftan að mönnum í sambandi við vextina. Þó þetta hafi verið boðað í vor og fyrir tveim árum lagar enginn fjárhag sinn á þessum tíma og allra síst eins og vaxtakjörin hafa verið og lánskjörin, en víxlar fást nú ekki tengur en til tveggja, þriggja eða fjögurra mánaða, og við vitum hvernig vaxtaaukalánin eru. Það ár, sem nú er að líða, og næsta ár munu því verða mjög þung í skauti. Ég ætla að biðja menn að hafa þetta í huga þegar þetta mál verður skoðað í nefnd.

Það sjónarmið hv. alþm., að það sé ýmsum annmörkum háð að skilja á milli skulda, sem stofnað er til vegna fasteignakaupa eða af öðrum ástæðum, er fyllilega réttmætt. En nú er það spurningin þegar Alþ. hyggst draga línu þarna á milli: Er sú vinna, sem þarna á að framkvæma, arðbær, — sú mikla vinna sem skattstofurnar hljóta að verða að leggja í ef skilja á milli vaxtanna? Er hægt að ímynda sér að þessi vinna geti orðið arðbær? Það held ég ekki. Ég held að þarna sé um enn einn annmarkann að ræða sem því fylgir að hafa tekjuskattinn allt of háan þannig að hann leggist á þurftartekjur almennings í landinu. Ég vek líka athygli á því, að þessi viðleitni beinist fyrst og fremst að launþegum vegna þess að þeir menn, sem standa í sjálfstæðum rekstri, hafa öll tök á að fela þessar vaxtagreiðslur ef þörf er á. Þarna er því enn um það að.ræða að ríkisstj. hyggst beina stjórnvaldsaðgerðum sínum fyrst og fremst gegn launþegum í landinu, auk þess sem um mjög óarðbæra vinnu verður að ræða og allt of mikil vinna mun eftir þessu lagi eins og áður fara í það að eltast við launþegana sem skilvísastir eru, en hins vegar mun sitja á hakanum áfram að fylgjast með söluskattinum og ýmsu öðru því sem vissulega er þörf á að fylgjast miklu betur með.

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Austurl. um annað mál, að hann taldi að skattprósentan væri ekkert aðalatriði í þessari umr., ef menn væru búnir að koma sér saman um ákveðna umgjörð skipti skattprósentan út af fyrir sig ekki máli. Þetta er mikill misskilningur. Ef tekjuskatturinn væri með eitthvað svipuðu sniði og legðist svipað á og hann gerði t.d. eftir viðreisnarráðstafanirnar á sínum tíma, þegar meðaltekjur í landinu voru tekjuskattsfrjálsar, þá væri almennt launafólk ekki jafnviðkvæmt fyrir atriðum eins og þessum og það er eftir þeim lögum sem nú gilda, þegar sífellt er seilst dýpra ofan í vasa skattborgaranna. Við skiljum allir að þegar stjórnvöld lýsa því yfir, að skattbyrðin eigi ekki að þyngjast frá þessu ári til hins næsta mun það í raun verða svo, að hún mun þyngjast. Forsaga málsins er slík að við vitum þetta, — eða hvernig hyggst ríkisstj., sem er nýbúin að semja um 10% grunnkaupshækkun í landinu, minnka einkaneysluna á næsta ári nema hún ætli einhvern veginn að ná í þær launagreiðslur sem hún er nýbúin að semja um?

Annars er það svo um þetta mál eins og mörg önnur, sem snerta heimilin og afkomu fólksins, að stjórnarandstaðan hefur alls ekki í sínum höndum neinar upplýsingar um hvað ríkisstj. ætlar að gera í tengslum við gjaldmiðilsbreytinguna. Nú má vera að hv. 3. þm. Austurl. lumi á upplýsingum um að til standi að lækka tekjuskattinn mjög verulega, kannske um helming. Það mundi að sjálfsögðu breyta mínum viðhorfum og maður yrði reiðubúinn til að fallast á ýmislegt ef slíkt lægi fyrir. En því miður óttast ég að svo sé ekki.

Ég vil sem sagt fagna því að hv. 3. þm. Austurl. skuli vera reiðubúinn til að hækka þó mörk vaxtafrádráttar gagnvart húsbyggjendum, en ég vil líka biðja hann að íhuga að ýmsir aðrir hafa þurft á lánsfjárfyrirgreiðslu að halda en húsbyggjendur. Ég get nefnt sem dæmi t.d. leigjendur, ungt fólk, sem er við nám, eða menn, sem hafa orðið fyrir áföllum af ýmsum toga. Ýmsir hafa líka reist sér hurðarás um öxl með eyðslu og eru að reyna að koma sínum málum í lag. Ég held að það fólk sem hefur safnað upp eyðsluskuldum sé alls ekki hamingjusamasta fólkið og ég held að í þvílíkum tilvikum bitni það oft á þeim sem síst skyldi, kannske ekki fyrst og fremst á þeim sem eyðir, heldur þeim sem eru í kringum hann. Þegar vextirnir eru orðnir þetta háir, 40–50%, þegar launin eru að dragast saman, meðan kaupmátturinn er að rýrna þar sem fyrir liggur að ríkisstj. ætlar að minnka einkaneysluna á næsta ári og draga enn saman það ráðstöfunarfé sem heimilin hafa handa á milli, þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að koma til móts við þetta fólk í sambandi við vaxtafrádráttinn.