21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4832 í B-deild Alþingistíðinda. (5110)

300. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli (Gripið fram í: Það er ekki búið að afgreiða málið.) Nei, að því er varðar dagskrána, en jafnframt geta þess, að hv. 7. landsk. notaði hér áðan þau orð, að það væri hégómi að mæla fyrir málum svo seint. Um þetta skulu ekki höfð mörg orð, því að tilgangurinn, þegar svo langt er liðið á þing, er einasta sá að fá mál afgreitt til nefndar og freista þess, að hún muni leita umsagna um það.

Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á l. nr. 101 frá 8. des. 1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl., sbr. lög nr. 68/1976. Tilgangi þessa frv. er lýst í mjög stuttri grg., svofellt:

„Með þessu frv. til l. er lagt til að lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verði svo breytt, að einokunarákvæði um sölu á matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu falli niður. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því, að framleiðsluráðið fari með yfirstjórn sölumála matjurta- og gróðurhúsaafurða, svo sem segir í 32. gr. nefndra laga. Ekki er lögð til önnur breyting á Grænmetisverslun landbúnaðarins en sú, að fleiri aðilar fái að versla með þessar vörutegundir að uppfylltum skilyrðum.“ — Og þá segir í grg. og það vil ég undirstrika sérstaklega: „Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að Sexmannanefndin ákveði ekki verð á þeim matvælum, sem hún fjallar um, heldur hámarksverð.“ — En það er að finna í 3. gr, frv., sem er till. til breytingar á 25. gr. framleiðsluráðslaganna.

Nú er það svo, að á undanförnum árum hafa oft heyrst kvartanir frá neytendum um það, að vöruframboð á þeim vörum, sem hér um ræðir, sé ónógt, að gæðin séu ónóg, og hafa verið ástæður til að ætla að þessu valdi sú einokun sem Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur haft um nefndar vörutegundir. Nú mega menn ekki rugla saman í þessum efnum. Þegar þetta er sagt eða þessu varpað fram er með engum hætti verið að leggja dóm á söguna. Einokun getur verið réttlætanleg á einum tíma þó hún sé það ekki á öðrum tíma. Og ég vil ekki taka undir þann söng, að slíkir viðskiptahættir séu á öllum tímum óréttmætir. Það fer bæði eftir aðstæðum og samfélagsháttum. En góðu heilli, síðan þessari viðskiptaeinokun var komið á hefur þjóðfélaginu í efnahagslegu tilliti fleygt fram, og að minni hyggju er það svo, að svo réttlætanlegir sem þessir viðskiptahættir voru á sínum tíma, — það er út af fyrir sig óþarfi að blanda þessu of mikið saman, — hafi svo verið séu þær aðstæður ekki lengur fyrir hendi.

Það er landbrn. sem fer með framkvæmd þessara laga. Fyrirtæki hafa á undanförnum árum, t. d. fyrirtæki í Reykjavík, átt í bréfaskiptum við landbrn. og farið fram á að fá um takmarkaðan tíma heimildir til innflutnings á grænmeti. Þetta eru fyrirtæki sem á sama tíma hafa flutt inn t. d. ávexti, hafa getið sér gott orð á því sviði og hafa góða geymsluaðstöðu og gott geymslurými sem uppfyllir allar ýtrustu kröfur í þeim efnum. En rn. hefur svarað þessu alfarið neitandi og vísað til laganna frá 1966 í því sambandi. Um þetta eru til löng og ítarleg bréfaskipti.

Ég vil vekja á því athygli, að hér er auðvitað ekki um að ræða með einum eða neinum hætti atlögu að Grænmetisverslun ríkisins. Það er m. ö. o. gert ráð fyrir að hún starfi áfram. En gert er ráð fyrir að myndist heilbrigð samkeppni einkaaðila og þess fyrirtækis. Sá dómur, sem í þessu frv. felst, því að annars væri það væntanlega ekki flutt, er að það hljóti við nú ríkjandi aðstæður í íslensku samfélagi að vera neytendum til góða og leiða til hvors tveggja: lækkaðs vöruverðs og aukins vöruúrvals.

Þess ber líka mjög að gæta í þessu sambandi, að á Vesturlöndum hefur á undanförnum árum í þessum efnum verið að eiga sér stað neyslubylting, þ. e. neysla á grænmeti og öðru slíku hefur færst mjög í vöxt og kemur þar sennilega hvort tveggja til: hollustuhættir og tíska. Um það fyrra greinir menn ekki á lengur. Hér er um hollar og heilbrigðar vörur að ræða. En sannleikurinn er sá, að við hér á Íslandi höfum alls ekki fylgst með í þessari þróun, höfum ekki fylgt þjóðum, sem okkur eru að öðru leyti landfræðilega og menningarlega skyldar, eftir í þessum efnum. Beinast liggur við að álykta að sú einokunarverslun, sem hefur verið í þessum efnum, hafi verið mjög hamlandi um neyslu á þeim vörutegundum og varningi sem hér um ræðir. Það má m. ö. o. leiða að því gild rök, að þeir viðskiptahættir, sem á undanförnum árum hafa tíðkast í þessum efnum, hafi staðið í vegi fyrir og staðið nýjum neysluvenjum fyrir þrifum, — neysluvenjum sem ég hygg að allir séu sammála um að séu hollar og af hinu góða.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1982.

Að lokum tel ég eðlilegt, herra forseti, að leggja til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.